Beint í efni

Ímyndað ísaldar Ísland

Ímyndað ísaldar Ísland
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
Svanhvít Sif Th Sigurðardóttir

Hildur Knútsdóttir hefur hlotið mikið lof og ýmis verðlaun fyrir furðusögur sínar og hrollvekjur í gegnum tíðina, en hún hefur skrifað slíkar bækur bæði fyrir unglinga og fullorðna. Í nýjustu skáldsögu sinni er hún því á heimavelli en Hrím er furðusaga fyrir unglinga. Hún er tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í ár í flokki barna- og unglingabókmennta. Í Hrím kennir ýmissa grasa en í henni er bæði að finna þroskasögu, ástarsögu og fantasíu. Þrátt fyrir að sagan gerist á Íslandi, nánar tiltekið á norðurlandi í kringum Mývatn og Húsavík, er sögusviðið mjög frumlegt og ekki fer á milli mála að þetta er fantasía.

Það sem helst hliðrar þessu Íslandi yfir í heim fantasíunnar er dýraríkið í þessu kunnuglega umhverfi. Öll dýrin í Hrím eru risavaxin og eru af mun fleiri tegundum en hafa nokkru sinni fundist á Íslandi. Það er auðvelt að sjá fyrir sér hvers konar dýr haðnaut, mórhjörtur eða skriðuköttur eru en einnig er örlítil framandgerving í þessum nafngiftum sem hleypir ímyndunarafli lesandans að. Sömu sögu er að segja um nöfn sögupersónanna sem öll eru rammíslensk en engu að síður nógu langt frá daglegu tali til að halda í fantasíublæinn.

Annað sem dregur sögusviðið í Hrím út fyrir hvunndaginn er samfélagsgerðin sem söguhetjurnar búa í en mannfólkið í sögunni eru hirðingjar, veiðimenn og safnarar. Skararnir hafa ekki fasta búsetu heldur flakka á milli landsvæða eftir árstíðum. Kennifólkið í skörunum er seiðfólk eða töfralæknar og eitt helsta hlutverk þeirra er að túlka skilaboð svipanna um hvenær sé best að leggja í þau ferðalög. Það helst í hendur við lýsingarnar á risavöxnu dýraríkinu til að draga upp mynd sem minnir um margt á ísöld í mannkynssögunni. Það er óljóst hvort það séu galdrar í þessum heimi og hvort kennifólkið hafi einhverja yfirnáttúrulega hæfileika eða hvort hæfileikar þeirra til að lesa í náttúruna séu túlkaðir sem galdrar. Bæði má lesa svipina sem yfirnáttúrulegar verur og samtal kennifólksins við þá sem bókstaflegt en einnig má líta á það sem svo að hér sé um að ræða trúarbrögð skaranna. Aðrar verur í sögunni sem eru á mörkum hins yfirnáttúrulega eru Hrímsvelgirnir ógurlegu en hvort þeir eru skrímsli eða hættuleg dýr er ekki ljóst heldur má túlka þá á báða vegu.

En þegar snjóaði komu hrímsvelgirnir niður af hálendinu – og þá var eina ráðið að flýja út á ísinn. Hrímsvelgir höfðu þurrkað út heilu skarana, skilið ekkert eftir nema blóð í snjónum, brotin hús og eyður til að geta í. Enginn hafði hitt hrímsvelg og lifað af. (16)

Þessi óvissa er mjög flott leið til að skapa söguheim og bjóða lesandanum að velta fyrir sér hvaða lögmálum hann lítur. Þetta gæti verið  ævintýraheimur en gæti líka verið lýsing á heimsmynd fólks sem reiðir sig á galdra og trúarbrögð til að útskýra veröldina í kring um sig.

Hrím segir frá Jófríði Jórudóttur og gerist á nokkrum örlagaríkum mánuðum í lífi hennar. Jófríður er dóttir áhrifafólks í Mývatnsskaranum; leiðtogans Jóru og Kraka sem er kennimaður skarans. Hún er sextán ára þegar sagan hefst og farið að líða að því að hún velji sér stefnu í lífinu og hlutverk innan skarans. Í gegnum tíðina hefur faðir hennar ýjað að því að hún feti í fótspor sín og verði næsta kennikona skarans, en Jófríður telur sig ekki hafa hæfileikana sem til þarf auk þess sem henni hugnast ekki öll ábyrgðin sem því fylgir. Eins virðist allur skarinn einungis líta á það sem tímaspursmál hvenær hún og æskuvinur hennar Bresi heitist hvort öðru. Jófríður sjálf er hins vegar ekki búin að ákveða hvaða stefnu hún vill taka og ekki búin að skipuleggja líf sitt mikið lengra fram í tímann en til næsta hausts. Nú er hún loksins orðin nógu gömul til að taka þátt í brimselaveiðunum sem þá fara fram og hún og besta vinkona hennar, Eirfinna, binda báðar miklar vonir við veiðarnar. Þær hlakka til að komast yfir selskinn til að geta skipt á þeim fyrir önnur verðmæti við fólk úr hinum skörunum þegar þau hittast öll í haustbúðunum við ströndina. En það er ekki það eina sem vekur tilhlökkun hjá vinkonunum við haustið:

„„Heldurðu að það verði einhverjir sætir strákar?“ spurði Eirfinna dreymin. „ Eða stelpur?“
 „Hvað heldur þú?“ spurði Jófríður hlæjandi.“ (20)

Jófríður er sérstaklega spennt að hitta aftur Suðra úr Ljósavatnsskarnaum og sjá hvort hann sé ennþá jafn sætur og síðasta haust.

Bókin fer rólega af stað og aðal átökin eru þau sem eiga sér stað innra með Jófríði. Lesandanum er sýnt hvernig væntingarnar til hennar togast á við hvað hún vill sjálf og þroskasaga hennar snýst að miklu leyti um hvernig hún ratar þar á milli. Hvar hún þarf að gera málamiðlanir og hvar hún þarf að standa föst á sínu og taka eigin ákvarðanir. Þetta er vel þekkt viðfangsefni í unglingasögum og þroskasögum af þessu tagi sem snúast oft um val söguhetjunnar milli þess sem er kunnuglegt og öruggt og þess að finna sína eigin leið í lífinu.

Þessi þemu eru einnig til staðar í ástarsögunni í Hrím en ástarþríhyrningur þar sem valið stendur milli æskuvinarins og þar með hins kunnuglega og nýja stráksins og hins framandi er sígilt viðfangsefni. Ólíkt því sem oft vill vera í slíkum sögum eru Bresi og Suðri báðir heiðarlegir og góðir piltar og valið milli þeirra snýst fyrst og fremst um að Jófríður átti sig á því hvað hún vill. Sem er mjög jákvætt, að ung kona í ástarsögu sé ekki leiksoppur örlaganna heldur virkur áhrifavaldur í eigin lífi. Þegar upp er staðið er ástarþríhyrningurinn enda ekki aðal viðfangsefni sögunnar heldur er það persónuleg vegferð Jófríðar til þroska og sjálfsþekkingar. Þessi vegferð verður svo bókstafleg undir lok bókarinnar þegar Jófríður leggur í mikla hættuför um háveturinn sem leiðir af sér mikilvægar ákvarðanir hjá henni um framtíð sína. Með því að takast þessa ferð á hendur er Jófríður að lýsa yfir sjálfstæði sínu og móðir hennar kveður hana sem jafningja:

„Þú veist að þú átt að fara varlega. Þú veist hvað er í húfi. Þú ert orðin fullveðja, Jófríður. Ég er búin að kenna þér allt sem ég get.“ (256)

Hrím er á heildina litið mjög vel heppnuð saga þar sem mikið er lagt upp úr persónusköpun og blæbrigðaríku sögusviði sem fær lesandann til að lifa sig inn hana og sjá söguhetjurnar ljóslifandi fyrir sér. Á vissan hátt kemur þessi áhersla þó niður á flæðinu í sögunni og ljær henni þann brag að vera forsaga stærri atburðarásar. Endir bókarinnar hnýtir vissulega saman alla þræði en á þann hátt að fremur virðist vera um kaflaskil að ræða og að enn sé frá meiru að segja í þessum heimi og lífi persónanna. Hrím var ekki kynnt sem upphafið á bókaröð en vonandi gefst lesendum tækifæri til að heimsækja aftur ísaldar Ísland bókarinnar og heyra meira af Jófríði og ævintýrum hennar í framtíðinni.
 

Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, desember 2023