Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Það er myrkt og drungalegt haustkvöld í miðbæ Reykjavíkur þegar undarlegur maður ryðst inn á heimili Steins Steinarrs, leynispæjara. Maðurinn er farþegi á skemmtiferðaskipinu Heiminum sem liggur við festar í Reykjavíkurhöfn og tjáir spæjaranum og aðstoðarmanni hans, Muggi Maístjörnu, að skelfilegir atburðir séu yfirvofandi um borð í Heiminum og æskir liðsinnis þeirra. Í kjölfarið sigla þeir félagar áleiðis til  New York og dragast inn í þéttriðið net morða, blekkinga og kúgunar. Hvert er leyndarmál Hvítu Nellikunnar? Eða Jane Evans, sorgmæddu stúlkunnar með hvolpa-augun. Hvað sá hún? Og hver fær hana til að opna sig!? Og síðast en ekki síst: Leynispæjarinn Steinn Steinarr, spæjarinn með hattinn og stækkunarglerið, sem ekkert er óviðkomandi, alltaf snuðrandi. Kemst hann í klandur?
 
Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins er óður til gömlu glæpasögunnar.

Úr Hinu stórfenglega leyndarmáli Heimsins:

Meðan við spásseruðum varð ég óðamála og mögulega samhengislaus, líkt og ég réði ekki við blóðið sem vöðvar fótleggja minna kusu að koma á hreyfingu og sumpart upp í höfuð mér. Ég sagði Steini frá því helsta er hefði borið á góma í ævintýrum næturinnar: frá andvöku minni og ferðalagi á Sjónarrandarbarinn; Louise Joy, Marianne Leslie, og ég talaði um sögusagnir og goðsagnir skipsins og bötlerinn og hina dularfullu káetu 3 og að í hana hefði komið leynilegur gestur, í London, fyrir tæpu ári – sem vakti óskipta athygli Steins, og þaðan upp í loft og um gervallt skipið með þyrlunni, við blöndu af upphrópunum, svívirðingum og hlátri Steins, en klykkti svo ú með eltingaleik mínum og mannsins, sem eins og gefur að skilja olli honum áhyggjum. Þetta var góð byrjun á deginum.
Við komum að Brasilíudraumum, útikaffihúsinu á Rívíeruþilfari, og þrátt fyrir að veðrið væri ekki sem best spenntum við í sundur stóla og settumst utandyra. Úti við sjóndeildarhringinn hnoðuðust þykk, drungaleg ský og yfir handriðið sást hvernig blágrátt og fussandi sjóflæmið lyftist og hneig allt í kringum okkur.
161-162)