Barnamenningarhátíð sett í Hörpu

Frá setningu Barnamenningarhátíðar 2017 í Eldborgarsal Hörpu

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður sett í sjöunda sinn í dag, þriðjudaginn 25. apríl kl. 11, með gleðihátíð í Hörpu þar sem 1600 krakkar úr 4. bekk í grunnskólum Reykjavíkur komu saman til að fagna barnamenningu. Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson setti hátíðina og fram komu margir listhópar skapandi krakka. 

Umhverfi og náttúra þema í ár

Þema Barnamenningarhátíðar í ár er umhverfið og náttúran og af því tilefni var fjórðu bekkingum í Reykjavík boðið að vinna lag með tónlistarkonunni Sölku Sól um viðfangsefnið. Börnin unnu verkefni í sínum skóla og fólst það í að hugas um og svara spurningunni: Hvað getum við gert til að vernda jörðina? Hugmyndir krakkanna var síðan komið áfram til til tónlistarkonunnar Sölku Sól sem vann úr þeim lag og texta sem verður einkennis lag hátíðarinnar í ár. Á gleðihátíðinni í Hörpu í Eldborgarsalnum flutti Salka Sól og 1.600 krakkar í fjórða bekk hátíðarlagið Ekki gleyma. Titill lagsins er vísun í að gleyma ekki að hugsa um jörðina og er lagið  samstarfsverkefni Barnamenningarhátíðar, Sorpu og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO fyrir Barnamenningarhátíð 2017.

Yfir 150 viðburðir á hátíðinni í ár

Dagskrá Barnamenningarhátíðar er afar fjölbreytt í ár og má þar nefna hæfileikakeppnina Reykjavík hefur hæfileika sem verður haldin í Austurbæjabíó 26. apríl. Ráðhúsið breytist í Ævintýrahöll helgina 29.-30. apríl en þar verður m.a. hægt að stunda fjölskyldujóga og sjá sýningu með Sirkusi Íslands, hlusta á jazz og dansa við taktfasta tónlist. Dagskrá Borgarbókasafnsins er fjölbreytt en þar verður m.a. hægt að taka þátt í sendibréfasmiðju og grímuleikum og skoða sýningu leiksskólabarnanna á Drafnarsteini í aðalsafninu Tryggvagötu 15 sem heitir Ótrúleg eru ævintýrin. Í Borgarsögusafni verður hægt að fræðast um húsdýr víkinganna og kynnast verum himins og hafs. Á Listasafni Reykjavíkur verður m.a. hægt að fara á teikninámskeið, listsmiðjur og spunanámskeið.