Beint í efni

Krabbaveislan

Krabbaveislan
Höfundur
Hlynur Níels Grímsson
Útgefandi
Sögur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Krabbaveislan nefnist nokkuð glæsileg frumraun Hlyns Níelsar Grímssonar. Höfundur bókarinnar er læknir og fjallar hún að mestu leyti um lækna og spítalalíf. Sýn Hlyns á þessi fyrirbæri er fremur kaldranaleg og umfram allt kaldhæðin. Krabbameinslæknum tekst víst ekki alltaf að lækna sjúklinga sína, Í raun er það frekar sjaldgæft, að minnsta kosti virðast sjúkdómarnir oft taka sig upp á nýjan leik þegar meðferð á að vera lokið. Það fer þó nokkuð eftir eðli og tegund krabbans.

Það veldur gjarnan togstreitu að árangur meðferða er með ýmsu móti og gjarnan lakur. Aðalsöguhetja bókarinnar, krabbameinslæknirinn, þjáist af þverrandi sjálfstrausti, hann er fráskilinn, smeykur við hringingar á bakvöktum, efagjarn, leiður og firrtur, spurning hvort hann sé hugsanlega viti firrtur í bókarlok. Endir sögunnar er nefnilega fremur óræður og líklega á valdi lesenda að túlka hann að vild. Alla vega er læknir þessi kominn á það stig að vilja kúpla sig burt frá vinnunni og kannski öllu heila klabbinu, og ekki síst krabbanum.

Sagan gerist skömmu fyrir hrun. Miklar bollalengingar eiga sér stað um uppbyggingu hins nýja þjóðarsjúkrahúss, mannauðsteymi spranga um ganga spítalans með skeiðklukkur og taka tímann sem tekur að sinna sjúklingum. Áherslan er á skilvirkni. Gallinn er sá að starfsfólk og að sjálfsögðu sjúklingar verða útundan í allri skilvirkninni.

Síður bókarinnar eru alsettar texta, sjaldan skín í hvítan pappír. Beinar ræður eru ekki inndregnar sem nýjar málsgreinar heldur feldar inn í megintexta. Þessi tilhögun getur fælt einhverja frá því að hefja lestur. Það væri þó synd að láta þessa sérvisku höfundar slá sig út af laginu og missa af þessari fyrirtaks skemmtun, undantekningu frá þessu fyrirkomulagi má finna á bls. 182 en það kann að vera óvart.

Fljótlega eftir að lestur er hafinn kemur í ljós að kommur hafa verið gerðar útlægar úr textanum, eða því sem næst, því að nokkrar má finna á bls. 39, kannski er það óvart líka. Þetta kommuleysi veldur því að stundum þarf að lesa setningar aftur yfir til að ná úr þeim réttri meiningu. Dálítið truflandi. Þetta er sem sé önnur sérviska höfundar. Allt í lagi með það, það má alveg, enda er þetta bara tittlingaskítur miðað við ánægjuna sem hafa má af lestrinum.

Stétt lækna, stjórnmálamenn og alls kyns stjórar eru dregnir sundur og saman í háði. Ýmsar aukapersónur sér maður ljóslifandi fyrir sér; Aþena yfirlæknir, Gígja Harða(r) heilbrigðisráðherra, Sjúkrahúsforstjórinn og læknarnir Tómas og Kristján eru býsna sprækar persónur, samt er lítil samlíðan með læknunum (nema Tómasi), hún er frekar með sjúklingunum. Oft skjóta upp kollinum tilvísanir í íslenskan heimslitteratúr; „Stúlka með sægræn augu“, „Ár vas alda“, „Eigi skal höggva“, „Upp skal á kjöl klífa“ o.s.frv.

Krabbaveislan er fjörlega skrifuð og verulega fyndin ádeila á íslenskt samfélag með heilbrigðisstofnanir og heilbrigðiskerfið í forgrunni. Alger snilld á köflum. Það er, svei mér þá, talsvert síðan maður hefur skemmt sér jafn rækilega við bóklestur.

Nú er bara að bíða eftir framhaldi. Nei, djók! Í bókartexta kemur nefnilega skýrt fram andúð á bókaseríum, ekki síst þessum með kvöldu söguhetjunni með gullhjartað, misheppnaða hjónabandið og börnin í ruglinu. Kannast einhver við svoleiðis?

Ingvi Þór Kormáksson, maí 2015