Fimmtíu og eitt skáld frá 27 Bókmenntaborgum koma saman í bókinni Poetic Encounters - Greetings from UNESCO Cities of Literature og leggja þar lið þeim samstarfsanda sem liggur til grundvallar Samstarfsneti skapandi borga UNESCO. Um leið er fjölbreytileika tungumála heimsins fagnað með ljóðum frá öllum heimshornum sem rituð eru á móðurmáli hvers skálds. Bókin er tileinkuð fólki um allan heim sem trúir á mátt orðlistarinnar og styður frelsi til tjáningar og hugsana. Ljóðin eru öll rituð eigin hendi af skáldunum á handgerðan folio pappír frá Fabriano, sem er ein af Handverks- og alþýðulistaborgum UNESCO.
Skáldin Bragi Ólafsson og Soffía Bjarnadóttir tóku þátt f.h. Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur. Ljóð Braga er "Tuttugu línur um borgina" úr bókinni Öfugsnáði og ljóð Soffíu er úr bók hennar Ég er hér.
Pappírinn var sendur frá Fabriano til Heidelberg og þaðan til Bókmenntaborganna víða um heim og fór hann svo aftur til Fabriano eftir að skráldin höfðu ritað ljóð sín, hvert á sína örk. Í Fabriano var bókin bundin inn í leðurband og er allur frágangur hennar í samræmi við ævagamalt handverk.
Myndband: Tel Aviv, Margmiðlunarborg UNESCO.
Tónlist: Úr verkefninu "Mix the City - Mannheim" framleitt í Mannheim, Tónlistarborg UNESCO.
Skrautskrifari: Maestro Amanuense Malleu.
Bókband: Giuseppe Baldinelli.
Hugmynd og framkvæmd:
Heidelberg, Bókmenntaborg UNESCO (Dr. Andrea Edel, Phillip Koban) & Fabriano, Handverks- og alþýðulistaborg UNESCO (Giorgio Pellegrini, Vittorio Salmoni, Carlo Pesaresi).
Verkefnastjórn: Phillip Koban, Heidelberg.
Skrautritari í Heidelberg: Kornelia Roth.