Beint í efni

Skáldastígur

Garðastræti

Við Unuhús, sem stendur við Garðastræti 15, liggur örlítill stígur, svokallaður „Skáldastígur“ sem liggur niður að Mjóstræti í Grjótaþorpi.

Skáldastígur er hvorki malbikaður né hellulagður og er hann nánast óbreyttur frá þeirri tíð er Unuhús var athvarf skálda, listamanna og alls kyns utangarðsfólks í tíð Erlendar Guðmundssonar og móður hans Unu Gísladóttur á fyrri hluta 20. aldar. Stígurinn var kallaður svo vegna þess að þar gengu skáldin upp að Unuhúsi, enda var hann ein aðalleiðin um Grjótaþorpið, en hann gekk líka undir nafninu Götuhúsastígur eftir hjáleigunni Götuhúsum.

Unuhús er meðal annars frægt úr verkum skáldanna Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar en það var athvarf og samkomustaður ungra listamanna á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Stígurinn hefur nú verið friðaður.

Una var ekkja og hafði hún tekjur af því að leigja út frá sér herbergi auk þess að hafa kostgangara en þau mæðgin tóku einnig að sér alls kyns utangarðsfólk. Erlendur var eina barn Unu sem komst á legg og tók hann við húsinu af móður sinni.

Erlendur var þekktur sem víðsýnn og menntaður maður þótt skólagangan væri fátækleg, og hafa skáldin sem sóttu húsið heim mært hann í skrifum sínum. Hann er sagður vera fyrirmyndin að organistanum í skáldsögu Halldórs Laxness, Atómstöðinni.

Úr Ofvitanum

eftir Þórberg Þórðarson

„Svona viðkunnanlega vistarveru hafði ég aldrei séð áður. Hún var skínandi björt, og allir litir í henni voru hreinir og tærir, og það var eins og hver fjöl í þiljum og lofti og hver hlutur, sem þarna var inni, talaði lifandi tungu og andaði móti manni vingjarnleik og hlýju. Þetta var líkast sjálflýsandi heimi, óháðum gráma og rigningum landsins. Og hér var enginn hlutur, sem minnti á eignarrétt. Það var eins og enginn ætti þessa stofu. Það var eins og hún stæði hér í þjóðbraut heimsins til þess að allt mannkynið gæti gengið óboðið inn í hana. Hér kunni ég vel við mig. Hér fannst mér ég ætti alltaf að eiga heima.“

Reykjavík : Mál og menning, 1993

 

Garðastræti
Þórbergur Þórðarson