Beint í efni

Sumarborgin í Gröndalshúsi

Gröndalshús í Fischersundi er opið alla daga í júní, júlí og ágúst frá kl. 13 – 17 og einnig er boðið upp á fjölbreytta viðburði í húsinu í sumar. 

Þar er sýning um ævi og störf Benedikts Gröndals og Reykjavík um aldamótin 1900. Gröndal bjó í húsinu ásamt Helgu dóttur sinni síðustu tuttugu æviárin og vann þar að sínum þekktustu verkum, svo sem sjálfsævisögunni Dægradvöl og teikningum af íslenskum fuglum og öðrum dýrum sem birtust síðar í bókunum Íslenskir fuglar og Dýraríki Íslands. Gröndalshús var endurgert af Minjavernd og var haldið í upprunalegt útlit hússins eins og kostur var. 

Frítt er inn á sýninguna og alla viðburði í húsinu í sumar. Athugið að Gröndalshús er lítið og sætafjöldi á viðburðum takmarkaður svo það borgar sig að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti. Bóka þarf þátttöku í smiðjum. 

Gestir geta litið við hvenær sem er á opnunartíma hússins eða komið á viðburðina sem sjá má hér fyrir neðan. Fleiri viðburðir gætu átt eftir að bætast við dagskrá sumarsins.

Dagskrá í Gröndalshúsi sumarið 2020
 

Laugardagur 6. júní kl. 17:

Skandali í Gröndalshúsi
Þriðja tölublað menningarritsins Skandala er komið út og er því fagnað með upplestri höfunda og kynningu.
 

Sunnudagur 21. júní kl. 14 – 16:

Bókagerð fyrir börn og fjölskyldur
Búum til bók á okkar máli. Börn hafa 100 mál, sagði Loris Malaguzzi, en við tökum frá þeim 99 þeirra. Loris er faðir hugmyndafræði sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Ítalíu og byggir á því að barnið fæðist með hæfileika til að lesa í umhverfið sitt, rannsaka það og gera tilraunir. Í smiðjunni geta krakkar reynt sig við bókagerð og skapandi skrif á hinum ýmsu tungu- og/eða táknmálum. Efniviðurinn er eitt og annað nýtilegt, svo sem eggjabakkar, gjafapappír, pappakassar, borðar og bönd.
Umsjón með smiðjunni hefur Anna Valdís Kro.

Skrá þarf þátttöku þar sem sætafjöldi er takmarkaður.

Skráning og upplýsingar: bokmenntaborgin@reykjavik.is
 

Þriðjudagur 23. júní kl. 20 – 22:

Jónsmessuljóðakvöld
Skáldin Viktoría Blöndal og Þorvaldur S. Helgason standa fyrir ljóðakvöldi í Gröndalshúsi kvöldið fyrir Jónsmessunótt. Einvalalið skálda kemur fram, þar á meðal Brynja Hjálmsdóttir, Brynjar Jóhannesson, Jón Kalman Stefánsson og Karítas M. Bjarkadóttir. Boðið verður upp á kaffi og ef til vill eitthvað með því og eru gestir hvattir til að velta sér upp úr dögginni að dagskrá lokinni.
 

Laugardagur 27. júní kl. 14 – 16:

Frásagnir / Narratives - Ritsmiðja með Ewu Marcinek

Tveggja tíma ritsmiðja með Ewu Marcinek. Unnið verður með sögur sem takast á við eða ögra skilunum á milli opinbers og persónulegs veruleika. Leiðsögnin verður á ensku en þátttakendur geta skrifað á hvaða tungumáli sem er. Ewa, sem er pólsk að uppruna, er einn af stofnendum útgáfufélagsins Ós pressunnar auk þess sem hún er rithöfundur og einn af stjórnendum leikhópsins Reykjavík Ensemble.

Smiðjan er ókeypis en bóka þarf þátttöku þar sem plássið er takmarkað.

Upplýsingar og bókanir: bokmenntaborgin@reykjavik.is. 
 

Laugardagur 4. júlí kl. 14 – 15:

Partítur plús - stofutónleikar með Unu Sveinbjarnardóttur
Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og tónsmiður heldur sólótónleika í Gröndalshúsi laugardaginn 4. júlí og spilar m.a. tvær af einleikspartítum Johanns Sebastian Bachs. Einnig mun hún spinna út frá partítum Bachs á fiðlu Benedikts Gröndals sem fjölskylda hans gaf húsinu.
 

Föstudagur 10. júlí kl. 18 – 19:30:

Útgáfu fyrstu ljóðabókar Viktoríu Blöndal verður fagnað en bókin kemur út í sumar hjá Signatúra Books. Signaútúra er vettvangur fyrir bókverk, plaköt, listaverkabækur og prentaðar hugleiðingar.
 

Laugardagur 11. júlí kl. 14 – 16:

Náttúrulífsteiknismiðja með Rán Flygenring
Smiðjan er fyrir fólk á öllum aldri. Rán  er einn þekktasti myndhöfundur landsins. Hún á það sammerkt með Benedikt Gröndal að hafa m.a. lagt fyrir sig fugla- og dýrateikningar en meðal verka hennar er bókin Fuglar, sem hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018. Í ár hlaut hún sömu verðlaun fyrir bókina Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann.

Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
 

Fimmtudagur 16. júlí kl. 20 – 22:

Svikakvöld - ljóðadagskrá
Ný og reyndari skáld koma fram. Svikakvöldin, sem eru skipulögð af skáldahópnum Svikaskáld, eru vettvangur fyrir nýjar raddir höfunda sem vilja spreyta sig á flutningi eigin skáldskapar í félagsskap reyndari skálda.
 

Laugardagur 18. júlí kl. 14 – 15:

Stofutónleikar með Elínu Hall
Elín er ungur lagasmiður frá Reykjavík. Tónlist hennar er best lýst sem látlausu „indí-poppi“ með gítarundirleik. Áhersla er lögð á íslenska texta og einfaldan og einlægan hljóðheim. Elín gefur út sína fyrstu plötu, Með öðrum orðum, nú í júní.
 

Laugardagur 1. ágúst kl. 14 – 15:30:

Hin kindin
Menningar- og útgáfufélagið Hin kindin frumsýnir vefsíðu félagsins og kynnir nýjar bækur.
 

Laugardagur 15. ágúst kl. 14 – 15:

Kvikmyndaspjall með Oddnýju Sen
Úr þögn í þrívídd – helstu áhrifavaldar í kvikmyndagerð frá upphafi til okkar tíma. Fjallað verður um ýmis stórvirki kvikmyndanna og tengingu við kvikmyndagerð nútímans.

Oddný Sen kvikmyndafræðingur hefur séð um kvikmyndafræðslu Bíó Paradísar um árabil.
 

Fimmtudagur 20. ágúst kl. 20 - 22:

Svikakvöld - ljóðadagskrá
Ný og reyndari skáld koma fram. Svikakvöldin, sem eru skipulögð af skáldahópnum Svikaskáld, eru vettvangur fyrir nýjar raddir höfunda sem vilja spreyta sig á flutningi eigin skáldskapar í félagsskap reyndari skálda.
 

Fimmtudagur 27. ágúst kl. 20

Stofubíó - Húsið
Kvikmyndin Húsið frá 1983 verður sýnd og boðið upp á popp og kók.  Fyrir sýninguna flytur Sigrún Margrét Guðmundsdóttir stutt inngangspjall en doktorsritgerð hennar, „Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The Shining og þremur íslenskum hrollvekjum“ fjallar m.a. um myndina. Húsið segir frá ungu pari sem flytur inn í gamalt hús í Reykjavík. Þau verða þess fljótlega vör að húsinu og sögu þess fylgir eitthvað sem er þeim yfirsterkara.

Frítt er inn en bóka þarf sæti þar sem plássið er takmarkað. 
Upplýsingar og bókanir: bokmenntaborgin@reykjavik.is