10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp

Ár: 
2008
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp

Í nýjustu skáldsögu Hallgríms Helgasonar fylgjumst við með ævintýrum króatíska leigumorðingjans Tomislav Bokšic, sem gengur undir nafninu Toxic, sem eftir nokkuð ‘farsælan’ feril sem leigumorðingi í Bandaríkjunum neyðist til að leggja á flótta og endar á Íslandi fyrir slysni. Þar taka kristnir trúboðar á móti honum fyrir misskilning og úr verða ýmsir menningar- og tungumálaárekstrar á meðan hann fótar sig í nýju umhverfi.

Leigumorðingjar eru gríðarvinsælar persónur í bíómyndum og oftar en ekki eru þetta kaldranalegar týpur sem lifa í nafnleysi eins og skuggar, segja sjaldnast orð og aldrei kemst upp um þá. Ekki síður algengar eru ýmis konar grínversjónir af leigumorðingjaminninu, s.s. eins og Grosse Point Blank og nú nýverið In Bruges. Toxic er einhvers konar sambland af þessu, hann hefur framið fjölmörg morð eftir pöntun sem virðast hafa gengið hnökralaust, en á hinn bóginn er hann líka hálfgerður klaufi og fáti, sem segir fyrstu ljósku sem spyr frá öllu saman… Hvörfin í leigumorðingjabíómyndunum eru svo annað hvort þau að hætta er á að upp um þá komist, eða þá að morðinginn hyggst leggja vopnin á hilluna, sem verður svo misvinsælt hjá yfirboðurunum. Okkar maður gerir mistök og þarf að leggja á flótta, en lendir óvart á Íslandi eins og áður sagði, þar sem hann þarf að horfast í augu við fortíð sína og mögulega hætta öllu saman, enda ekki pláss fyrir leigumorðingja í landi þar sem engar eru byssurnar og varla nokkrir glæpir.

Eins og Alda Björk Valdimarsdóttir bendir á í bók sinni Rithöfundur Íslands: skáldskaparfræði Hallgríms Helgasonar sem er væntanleg innan skamms, þá hættir gagnrýnendum stundum til að rugla saman Hallgrími og sögupersónum hans. Það er kannski ekki stórhætta á að maður rugli saman persónu höfundarins við króatískan leigumorðingja, en orðfærið er þó altént mjög ‘hallgrímskt’. Toxic er sögumaður skáldsögunnar og sem slíkur er hann álíka málglaður og líkingaduglegur og fyrirrennarar hans í skáldsögum Hallgríms. Hann er stundum fyndinn, stundum óþolandi, stundum væminn eins og rokkballaða. Hann er yfirþyrmandi og stundum fatast honum flugið í líkingunum, þegar allt verður svo mikið ‘eins og’ eitthvað annað að lesandinn týnist í líkingaþoku. Hann er útlendingur á Íslandi, misskilur öll nöfn og götuheiti, sem fá ýmsar missannfærandi enskar útgáfur. Hann er karlremba - viðhorf hans til kvenfólks er eftir einföldum hjásofanleikastaðli - og a.m.k. framan af algjörlega samviskulaus morðingi.

Ýmis biblíuminni og trúarvísanir koma víða fyrir, enda Tómas kominn í slagtog með sjónvarpstrúboðum. Hann háir t.d. nokkurs konar glímu við djöfulinn, þó reyndar megi segja að hann sé hið illa afl í þeim bardaga; hann ber einnig nafn þess lærisveins sem á einum stað í biblíunni er nefndur tvíburi, sem er nokkuð viðeigandi þar sem Tómas hefur að einhverju leyti klofnað frá sjálfum sér vegna þeirrar hörmulegu reynslu sem hann varð fyrir í heimalandinu; og fleiri vísanir í baráttu góðs og ills er að finna í textanum.

Hann er leigumorðingi í afturbata og þarf að ráða framúr samböndum við þrjár stúlkur. Það er ekki alveg ljóst hvað lokkar þær að honum, sköllóttum og vambmiklum, afbrýðisömum og karlrembulegum. En út frá þessum samböndum tvinnast ýmsar frásagnarlegar flækjur og standa þau að vissu leyti fyrir þá þrjá þætti sem hann þarf að takast á við; fortíð sína tvískipta og framtíð. Frásögnin öll er svo skemmtilega römmuð inn af Eurovisjón, svo skyndilega öðlast það undarlega fyrirbæri nýja vídd.

Í seinni hlutanum eru það stríðsminningarnar frá borgarastyrjöldinni í Júgóslavíu sem hrjá okkar mann meira og meira. Hann rifjar upp skelfilega atburði þessa stríðs sem hafa gert hann ónæman fyrir drápum, lokað fyrir tárakirtla hans og flæmt burtu fortíðina. Með þessu breytir að nokkru marki um tón í verkinu – æsingslegur bíómyndastíllinn víkur að einhverju leyti fyrir meiri vigt og dýpt sem stríðsumræðan óhjákvæmilega veitir.

Framvindan er nokkuð jöfn og hröð í gegnum allt verkið og, einkum í upphafinu, mjög hressilega bíómyndaleg, grafísk, blóðug og ofbeldiskennd. Blöndun gríns og grimmdar er kunn úr kvikmyndunum, eflaust er þar Tarantino meistarinn, enda svífur andi hans hér yfir vötnum. Það er ákveðin kúnst að láta lesendur/áhorfendur flissa að grimmilegu ofbeldi; það er eins og að vera á einhvers konar hengibrún þess hlægilega – má ég hlæja að þessu? spyr maður undir hláturrokunum og það sama á við hér. En eftir því sem sögumaður dregur okkur lengra inn í fortíð sína dregur úr flissinu og sá gamli sannleikur sannast enn að alvöru ofbeldi er ekkert fyndið.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2008