1900 og eitthvað

1900 og eitthvað
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Garnaflækja fullorðinsáranna

Ragnheiður Lárusdóttir (f. 1961) hlaut nýverið ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu bókina sína 1900 og eitthvað sem í kjölfarið er komin út hjá Bjarti. Ragnheiður hefur lengi skrifað og  kallar sig skúffuskáld, en lét vaða og sendi óútgefið handrit í ljóðakeppnina. Niðurstaðan er aldeilis glimrandi og falleg bók sem snertir lesanda djúpt og án tilgerðar. Bókin er ævisaga Ragnheiðar í brotum, stutt ljóð þar sem dregnar eru upp einfaldar en áhrifamiklar myndir.

Verkið hefst fyrir vestan, við Önundarfjörð þar sem Ragnheiður elst upp prestdóttir í Holti. Embættisverk föður hennar lita ljóðin en móðirin er líka alltaf til staðar í öllu sínu veldi. Það er eins og hún geti allt. Í ljóðinu „Barbie“ segir ljóðmælandi:

Þegar ég verð stór vil ég verða eins og mamma

Eða eins og Barbiedúkka

Þannig eru hlutföllin dregin upp strax í upphafi. Ljóðmælandi er agnarsmár gangvart tilverunni, fjöllunum, veðrunum og afleiðingunum.

Á heimavistinni leggur hún diskinn sinn efst í stafla með 130 öðrum og þeir hrynja allir (20) og í ljóðinu „Gleraugu“ verða tilraunir hennar til þess að fá garnaflækju að engu og hún týnir nýju gleraugunum í staðinn.

Til upplýsinga fyrir yngri lesendur þá er garnaflækja það sem foreldrar á síðustu öld sögðu að börn myndu fá ef þau snéru sér of mikið í hringi, í rólum eða brekkum. Þannig er garnaflækja ein af þessum duldu hættum barnæskunnar eins og að stíga á strik eða leika sér að kerti og dæmi um það hvernig athafnir sem virðast ósköp saklausar geta boðið hættunni heim. Ljóðmælandi reynir að fá garnaflækju, þar sem hugmyndin heillar hana og afleiðingin er að nýju gleraugun týnast. Allt fer þó vel og foreldrarnir kíma í lok ljóðs þar sem þau vita hvernig hlutum er háttað.

En hættan er alltaf til staðar fyrir vestan. Fjölskyldan einangrast í ofsaveðrum og  ósköp hversdagslegir hlutir eins og að sækja jólatré breytast fyrirvaralaust í lífsháska. Á unglingsárum glittir í frelsi undan aðstæðum þegar Ragnheiður lýsir því hvernig hún og vinkonurnar leika sér á traktorum á söndunum í ljóðinu „Vinkonur“:

við hossumst og hristumst
á marglitum blómskreyttum traktor
yfir þúfur og skurði
niður á hvítan sandinn

Það er samt eins og hin opna og mikla náttúra sé að fylgjast með þeim, að leyfa þeim þessa gleði og eins og það sé undir henni komið að þær fái að leika sér. Við erum alltaf meðvituð um kraft náttúrunnar í ljóðunum og hversu fljótt örlögin taka völdin. En það er vissulega líka mikil gleði í sveitinni og nánd við fjölskyldu og vini.

En svo er ljóðmælandi komin á mölina. Þó ekki alfarið, sumrin eru enn fyrir vestan og lífið því á einhvern hátt tvískipt eins og sést í þessum línum:

í vinnu, mikilvæg
hálf hér og hálf þar
utangátta
félagar mínir á sumarplani og vetrarplani
þekktust ekki  

Þannig lýsir hún því hvernig það er að búa á tveimur stöðum í senn, sem er staða margra sem þurfa að sækja sér nám eða vinnu fjarri heimabyggð en hafa samt aldrei í raun valið að flytja. Í ljóðinu verður reynslan til þess að ljóðmælandi upplifir að hún lifi tveim aðskildum tilverum sem ekki mætast. En framtíðin er samt fyrir sunnan og fyrr en varir birtist maður í ljóðinu „Hann“ og með honum börn og það er ljóst að hún hefur stofnað fjölskyldu í Reykjavík, En um leið og við kynnumst manninum er hann farin og ljóðmælandi er fráskilin kona.  Ljóðið „Ferðin“ kallast á við ljóð Steins Steinarrs og hefur Ragnheiður talað um hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Í ljóðinu eru tvö börn á göngu, leikandi létt í fögru landslagi þegar:

skyndilega var ég ein í aftakabyl á heiðinni
í mörg ár á leiðinni
förunautur minn orðinn annars ferðafélagi
ég geng í hringi um það sem var
ókunn slóð
hringur miðflóttans

Hér birtast þannig erfiðleikar í hjónabandi sem ofsaveður og ljóðmælandi sem barn að leik. Barnið sem gleymir sér í góðum félagsskap og lendir því óafvitandi í ógöngum. Barnið hefur ekki vald á aðstæðum sínum og getur ekki undirbúið sig undir breytingar sem það sér ekki fyrir sökum stöðu sinnar og reynsluleysis. Sama má segja um stöðu mannsins gagnvart íslenskri náttúru, þrátt fyrir háþróað tæknisamfélag getur ein rösk lægð skilið okkur eftir í einangrun og myrkri.

Það er áhrifamikið hvernig ljóðin stilla saman varnarleysi barnsins í heimi sem fullorðnir stjórna, varnarleysi manna gagnvart náttúru og varnaleysi konu gagnvart skilnaði. Maður ætlar auðvitað ekki að skilja, þá væri maður ekki að gifta sig. En af einhverjum ástæðum þarf að breyta um stefnu og ljóðmælandi skilur við manninn. Það eru í sjálfu sér engar hamfarir fólgnar í því og hjónaskilnaðir orðnir nokkuð eðlilegur hluti af lífi okkar. Þó er þetta engu að síður enn eitt dæmi um það hvernig plönum okkar er breytt oft að okkur sjálfum forspurðum. Sorgin fylgir í kjölfarið og ljóðmælandi lýsir því í ljóðinu „Ég“:

full af sorg
eins og ég hafi gleypt alla skammdegisnóttina

Það er samt mikil gleði í ljóðunum og dregnar upp margar fallegar einfaldar myndir úr hversdeginum. En það er engu að síður þetta grunnskilyrði mannsins að vera háður aðstæðum sínum sem tengir ljóðin saman. Og er það kannski meira áhrifaríkt nú en oft áður þegar öll heimsbyggðin situr einangruð með eyrað límt við viðtækið og bíður eftir að COVID hamförunum sloti.

Það er tilvalið að taka sér hlé frá fréttaflutningi og amstri og gefa sig á vald þessari fallegu bók sem í öllum sínum einfaldleika talar svo vel inn í samtíð sína.


Rósa María Hjörvar, október 2020