Álabókin

álabókin
Ár: 
2020
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Allra kvikinda líki

Ég held að það sé einmitt þess vegna sem állinn heldur áfram að heilla svo marga. Vegna þess að það er eitthvað heillandi á landamærum þess sem við trúum og þess sem við vitum, þar sem þekkingin er ekki fullkomin og leyfist þess vegna að innihalda bæði staðreyndir og snefil af goðsögnum og ímyndunum. Vegna þess að jafnvel sá sem trúir á vísindin og lýsingu okkar á skipulagi náttúrunnar vill stundum halda lítilli, örlítilli glufu opinni fyrir hinu óskiljanlega. (33)

Líkt og umfjöllunarefnið skreppur Álabók sænska höfundarins og menningarblaðamannsins Patrik Svensson fimlega undan skilgreiningum. Hvað er þetta eiginlega? Af hverju hagar þessi texti sér ekki eins og prúður skáldskapur? Eða þá skilmerkileg fræði, jafnvel hefðbundin og öguð endurminningabók? Eitt er víst: hér er unnið af fimi með efni úr fræðum og persónulegri reynslu til að skapa eitthvað sérstakt og heillandi með aðferðum bókmenntanna.

Sérstakt, en ekki alveg einstakt. Bækur á borð við Hafbókina eftir Morten Ströksnes, Flaubert’s Parrot eftir Julian Barnes og H is for Hawk eftir Helen Macdonald koma upp í hugann. Og kannski Out of Sheer Rage eftir Geoff Dyer, þó ekki væri nema til að draga úr þeirri tilfinningu að dýr séu samnefnarinn, en ekki bókmenntaform og tilraunagleði með þau. Með fullri virðingu fyrir hákörlum, páfagaukum og gáshaukum þá stendur enginn þeirra álnum á sporði hvað varðar furðulega og dularfulla lífshætti.

Svensson rekur tvo meginþræði í bókinni og fléttar þá skipulega saman. Eftir að hafa sagt okkur í stórum dráttum frá lífshlaupi og umbreytingum álsins (eða því sem við teljum okkur vita um þær) fer hann í nokkuð strangri tímaröð yfir rannsóknar- og þekkingarsöguna; hvernig ráðgáturnar um lífshætti álsins létu smám saman undan ástríðu mannsins til að skilja alla skapaða hluti. Samhliða þeirri sögu segir hann okkur af sínu persónulega sambandi við álinn, en þó einkum sambandinu við föður sinn sem undir sjónarhorni bókarinnar kjarnast í veiðiferðum þeirra að ánni við æskuheimili Svenssons eldri til að leggja línu, en seinna prófa sig áfram með aðrar veiðiaðferðir með misjöfnum árangri.

Þessar veiðiferðir eru greinilega dýrmæti í minningu höfundar, tími nándar og samvinnu þó orðin sem falla séu ekki mörg og næstum öll praktísk og þáttur í verkefninu: að veiða í matinn fyrir föðurinn, en sjálfur er Patrik ekki sérlega sólginn í þennan feita fisk. Síðar í bókinni setur hann sögu fjölskyldunnar í samhengi, segir frá fátæktarbasli og erfiðri lífsbaráttu forfeðranna og hvernig velferðarþjóðfélagið gerir gerir verkafólkinu foreldrum hans á endanum kleift að eignast sitt eigið hús. Og síðar sumarhús við vatn þar sem álaveiðarnar halda áfram þó ekkert veiðist. Aflinn var kannski aldrei aðalmálið.

Saga einstaklinganna er óneitanlega litlausari en hugmyndasaga fisksins sem Aristóteles taldi að yrði til úr botnleðju en tímgaðist ekki að hætti annarra dýra. Það tók margar aldir að skera úr um það að állinn færi (næstum) hefðbundnar leiðir að viðhaldi stofnsins. Eftirminnilegur kafli segir frá ungum náttúruvísindamanni, Sigmund Freud að nafni, sem árið 1876 krufði um fjögur hundruð ála á rannsóknarstofu í Trieste í leit að eistum – og fann engin. Karlkyns æxlunarfæri álsins fundust ekki fyrr en undir aldamót og þá var hugur Freuds komið á annan, jafnvel enn dularfyllri rannsóknarvettvang.

Töfrar álabókarinnar eru ekki síst fólgnir í því að vekja lesandann til vitundar um furður þar sem þær blasa ekki við. Maðurinn vissi af þessum gómsæta fiski í ám og vötnum löngu áður en hann sá ástæðu til að velta fyrir sér hvernig hann væri vaxinn niður, meira að segja áður en makedónski fjölfræðingurinn kvað upp úr um að hann væri úr mold. Furðurnar verða til þegar við byrjum að leita þeirra, og það á líka við um mannlífið. Hverskonar maður var malbikarinn Svensson eldri? Af hverju var lífshlaup hans eins og það var? Af hverju gerði hann það sem hann gerði?  Dulur eins og állinn, en elskaður líka. Elskaður samt.

Þetta sem er kannski aðalerindi bókarinnar: að vekja lesandann til vitundar um hve dularfullt og „dulstýrt“ okkar eigið atferli er. Er það ekki eitt aðalerindi alls skáldskapar?

Höfundurinn fer mjög yfirvegað og smekklega með að draga athygli lesandans að hliðstæðum manns og áls, og skilur alla jafnan verkefnin eftir hjá honum. Einhver allra magnaðasti kafli bókarinnar er saga Johannesar Schmidt sem upp úr aldamótunum 1900 sýndi fram á að hrygningastöðvar álsins væru í Þanghafinu, í Atlantshafi undan sunnanverðum Bandaríkjunum. Um tuttugu ár sigldi Scmidt um Atlantshafið og veiddi álalirfur og eftir því sem minni lirfur komu í pokann því nær upprunanum komst hann.

Þetta er stórfengleg saga, en auðvitað hugsar lesandinn líka: sök sér með álinn, en hverskonar lífsferill var þetta eiginlega hjá manninum? Hvor er óskiljanlegri, Daninn eða állinn?

Þess má svo geta að þó hrygningastöðvar álsins hafi verið í Þanghafinu síðan Schmidt lauk rannsóknum sínum þá hefur enginn enn séð ál tímgast eða hrygna þar. Reyndar hefur enginn séð fullvaxta, kynþroska ál bregða fyrir á þessum slóðum. Ráðgátan er þrjósk og næstum jafn lífsseig og állinn sjálfur: að sjálfsögðu veit enginn hversu gamlir þeir geta orðið.

Bókinni líkur – eðlilega – á dauða og hugleiðingum um dauða. Glímu Svenssons eldri við krabbamein, sorgarferli höfundar og framhaldslíf hins látna í minningum. Og á hinn bóginn í þeim blikum sem eru á lofti um tilvist álsins sem tegundar. Þótt hver og einn þeirra sé með eindæmum lífsseigur er lífsferli þeirra ógnað úr öllum áttum: hinu nána sambýli við manninn á ferskvatnsskeiðinu og óvissunni um framhald hafstraumanna sem bera glerálinn úr Þanghafinu upp í árnar.

Er hægt að ímynda sér álalausa veröld? [...] sú hefur verið tíðin að einhverjum hefur þótt álíka erfitt að ímynda sér veröld án dúdúfugla eða steller-sækýrinnar. Alveg eins og ég gat einu sinni ekki ímyndað mér heiminn án ömmu og pabba.
Þrátt fyrir það eru þau farin. Og heimurinn er enn á sínum stað. (229)

Álabókin er einstaklega falleg og hugvekjandi bókmenntaverk. Þýðing Þórdísar Gísladóttur lipur og hnökralaus. Ég sé enga smekklega leið til að koma merkingu sænska titilsins „Ålevangeliet“ til skila, og látleysi íslenska titilsins fellur vel að efninu þó ekki sé það beinþýðing, sérstaklega kannski bernskuminningunum kyrrlátu og fallegu. Fagnaðarerindið er á hverri síðu, þar sem hvert kraftaverkið vekur annað, hver dæmisagan kveikir nýja hugleiðingu. Upprisan í lokin er síðan óvænt, blátt áfram og snjöll.
 

Þorgeir Tryggvason, desember 2020