Apakóngur á silkiveginum: Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum

Höfundur umfjöllunar: 

Klækir og kynjaverur í Kína

Það er eins og að komast í fjársjóðskistu að opna sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar, Apakóng á silkiveginum. Bæði er bókin fallegur gripur, bundin inn í rautt efni með kínverskum myndum og að hluta til hulin hálfgegnsærri kápu að austrænum hætti. Textinn er vel upp settur með breiðum spássíum og kínverskum leturtáknum hér og þar, nokkuð er um myndir sem meðal annars þjóna því hlutverki að greina að bókakaflana. Innihaldið er svo algerlega í takt við þetta vel unna útlit, allur frágangur á texta er með miklum ágætum og án þess að geta týnt til samanburð við kínverska frumtexta þá leyfi ég mér að fullyrða að þýðing Hjörleifs Sveinbjörnssonar á sögubrotunum sé vel unnin. Tungumálið er sérlega læsilegt og liðlegt og fangar saman ólíkar bragðtegundir nútíma og fortíðar, íslensks miðaldamáls og myndlíkinga sem kalla fram fjarlægar slóðir. Eitt þessa verka hafði ég lesið í enskri þýðingu (eða hluta úr verkinu réttara sagt) og í þeim samanburði kemur íslenska þýðingin áberandi betur út, er bæði fyllri og áhrifameiri.

Sögurnar sjálfar eru svo misskemmtilegar eins og gengur - eða réttara sagt, mis-frábærar, því allar ná þær að heilla og hrífa þrátt fyrir að virðast á stundum allóárennilegar. Það tekur dálítinn tíma að komast inn í fyrsta sögubútinn, úr Þríríkjasögu, því þar er sagt frá ákaflega flóknum stríðsrekstri og átökum fjölda herforingja og ráðgjafa. Inngangur þýðanda hjálpar hér, líkt og víðar, en hann bendir lesanda á ýmsar leiðir til að takast á við textann. Þríríkjasaga setur svo tóninn fyrir það sem koma skal, því þar er mikið fjallað um kænsku og klæki hverskyns, en slíkir eru rauður þráður verksins og tengjast ýmiskonar valdabaráttu karla jafnt sem kvenna. Annað þema er fláræði og fals, eða hræsni, sem spilar sundur og saman við hugmyndir um tryggð og trúfestu. Eins og þýðandi bendir á er margt hér sem minnir á Íslendingasögurnar og sú tungumálaflétta sem hann býr til úr völdum orðum íslenskra fornrita í samhengi kínverskra miðalda er sérlega vel heppnuð.

Bútarnir úr Fenjasögu draga fram annað einkenni miðaldabókmennta, en það er tengsl þeirra við þjóðsagnir og ævintýralegar frásagnir, auk goðsagna sem koma við sögu í þáttunum úr Vesturferðinni, en þar kemur Búdda sjálfur við sögu, þó aðalgoðið sé gyðjan Guanyin. Hér hlýtur lesandi einnig að hugsa til grískra fornrita þar sem goðmögn blanda sér reglulega í málefni manna. Þegar kemur að köflum úr Hinni lærðu stétt erum við farin að færast nær raunsæum samfélagslýsingum og enn og aftur eru inngangar Hjörleifs ómissandi í því að setja lesanda inn í söguna og víkka merkingu hennar.

Draumurinn um rauða herbergið færir lesanda meira yfir á svið hins kvenlega, en kaflarnir þar fjalla aðallega um konur sem hafa hingað til verið næsta fátíðar. Síðustu sagnirnar eru síðan komnar enn nær nútímanum, smásagan “Du tíunda og skartgripaskrínið” er dramatísk ástarsaga og ótrúlega nútímaleg smíð miðað við að vera samin á fyrri hluta átjándu aldar. Draugasögurnar sem fylgja á eftir henni eru kannski léttvægasta efnið af þessu, en bjóða uppá kærkomna skemmtun áður en kemur að átakamiklum köflum frá fyrri hluta tuttugustu aldar, smásögunni “Sápu” og kafla úr skáldsögunni Loutuo Ziangzi. Lokaorð þeirrar sögu virkuðu á einhvern hátt sérlega táknræn, en það er kannski fyrir það að þau reka lestina í langri röð söguþátta sem krefjast þess að lesandinn haldi sér vel við efnið. Sögurnar eru þéttar og efnismiklar, hlaðnar táknum og vísunum sem eru vissulega á stundum kunnugleg en ansi oft fjarlæg, útheimta nokkra einbeitingu og geta jafnvel afvegaleitt lesanda um stund.

Það er hinsvegar ekki neitt að því að láta afvegaleiðast á þessari ferð um silkiveginn með apakónginum, fyrr eða síðar leiðir leiðsögumaðurinn lesanda inn á rétta braut óvæntra atburða, forynja og fláræðis - vináttu, ástar og menntunar. Sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar frá fyrri öldum er einn feitasti fengurinn í þessari bókavertíð, spriklandi og sprelllifandi verk sem kitlar í fingur og tær.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008