Árleysi alda

Ár: 
2013
Flokkur: 
Höfundur umfjöllunar: 

Afi á honum Rauð og fleira fínt

Með hárugum lófum í harðdrægum glófum var hagnaður marður,
á samfélagsþjófum, siðblindum, grófum, var svipurinn harður,
fleygt var þá skófum að fólki og tófum en fögnuður sparður,
í kræsingahófum hjá kauphallarbófum kraumaði arður.

Þetta erindi er úr „Þúsaldarhætti“ Bjarka Karlssonar sem finna má fremst í bókinni Árleysi alda. Þetta er heimsósómakvæði í anda „Aldarháttar“ Hallgríms Péturssonar. Þarna má sjá runurím og tvöfalt innrím sem sýnir að dýrt er ort. Dálítið virðist textinn líka forn eins og við á. Uppsetning erinda gæti verið með öðrum og venjubundnari hætti:

Með hárugum lófum í harðdrægum glófum
var hagnaður marður,
á samfélagsþjófum, siðblindum, grófum,
var svipurinn harður…

- o.s.frv.

Það eru sem sagt aldnir bragarhættir sem helst fá rúm í þessari ljóðabók – eða á maður að kalla þetta kvæðabók. Það er eins og orðið kvæði lýsi betur innihaldi en orðið ljóð. Á baksíðu gerir bragfræðingurinn og rímdoktorinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson stuttlega grein fyrir innihaldinu og það gerir skáldið líka hér og hvar og er svo sem ekki miklu við það að bæta.

Stór hluti bókarinnar fer í að gera skil vísunni frægu „Afi minn fór á honum Rauð“. Bjarki yrkir þessa vísu upp á nýtt á ýmsa lund. Fyrst er kvæði, „Einn afar sorglegur flokkur um það grátlega kynjanna misrétti sem forðum daga tíðkaðist og þekkist því miður enn“, sem segir frá því hvað amma var að bjástra heima við meðan afi frílystaði sig og fór um sveitir á honum Rauð. Síðan er vísan um afa endurort með ýmsum bragarháttum og skína í gegn þekkt kvæði þjóðskáldanna; „Óhræsið“ (Jónas Hallgrímsson), „Trúðu á tvennt í heimi“ (Steingrímur Thorsteinsson), „Skúlaskeið“ (Grímur Thomsen), „Þorraþræll“ (Kristján Jónsson), „Áfangar“ (Jón Helgason), „Tíminn og vatnið“ (Steinn Steinarr), „Gamli, sorrý Gráni“ (Megas) og mörg fleiri. Reynist það hin besta skemmtun að lesa sig í gegnum þennan bálk.

Ýmis fleiri kvæði eru í bókinni og víða litið við í íslenskri bókmenntasögu; við fáum snert af rímnagerð, snúið kvæði úr þýsku, fimm stórskemmtilega limrubálka, þar á meðal „Höfuðlausn“ Egils Skallagrímssonar í limruformi, og kvæðið „Lífrænt“, þar sem kinkað er kolli til „Lysthúskvæðis“ Eggerts Ólafssonar. Í stað ljóðlínunnar kunnuglegu, „fagurt galaði fuglinn sá,“ kemur „ferlega þefjaði fiskur sá-“. Spaugið er sem sagt í öndvegi uns kemur að síðasta kvæði bókarinnar sem er alvarlegs eðlis.

Ekki er Bjarka stirt um stef og fer hann víða á kostum. Það er vart annað hægt en hrífast af þessum kveðskap enda hefur þessi upphafning hefðbundins kveðskapar fallið vel í kramið hjá flestum sem lesið hafa.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2013