Biðröðin framundan

Biðröðin framundan
Ár: 
2017
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

bíðum bíðum bambaló

Allt hlotnast þeim sem bíður“ segir í lok eins ljóðsins í bók Margrétar Lóu Jónsdóttur, biðröðin framundan. Setningin kemur upp í huga hennar „eftir draumfarir / næturinnar“, en þær eru frekar órólegar: „milli svefns og vöku fálma / krumlur óttans í átt til mín“.

Bið er klassískt viðfangsefni bókmennta af ýmsu tagi og á sér margar táknmyndir, allt frá hugmyndum um linnulausan leiða hversdagsins yfir í tilvísanir til lífs og dauða. Nýjasta birtingarmynd biðarinnar í kapítalískum heimi Reykvíkinga er þegar nýjar stórverslanir eða merkjabúðir opna, eins og Costco, H&M og Dunkin‘ Donuts. Í kringum þetta hefur myndast heilmikil menning sem ýmist vekur hneykslan eða hlátur. Á samfélagsmiðlum lifir umræðan um biðraðir af þessu tagi góðu lífi og vekur lukku og kveikir á skáldlegum útleggingum.

Bók Margrétar Lóu er dæmi um hvernig þessi nýja biðraðamenning verður viðfangsefni skáldskapar, en eins og titillinn gefur til kynna fjalla ljóðin að mestu leyti um biðraðir og bið. Margréti Lóu tekst sérlega vel að færa þetta ofurtáknræna og – í nútímasamhengi – ofurklisjaða fyrirbæri í skemmtilegan búning, en ljóðabókin er bæði vel smíðuð, áhugaverð og læsileg. Tóntegundin er hæfilega dramatísk og í ljóðin spanna léttilega breitt svið afslappaðra vangaveltna og alvarlegri augnablika.

Fyrsta ljóðið gefur til kynna kómíska sýn á biðröðina, því ljóðmælandi bendir á að það sé „ekki einsog ég sé að fara að klífa everest / gæti samt hugsað mér nýjan svefnpoka og langar / að kippa með mér myndavél ef ég kem auga á canon“. Hér er freistandi að velta fyrir sér vörumerki tækisins, en enska orðið ‚canon‘ merkir eitthvað sem hefur þungavikt og er til dæmis notað um veldi eða stofnanir: eins og til dæmis í hálfenska orðinu bókmenntakanónan.

Ólíkum heimum slær saman í næsta ljóði en þar er ljóðmælandi „á höttunum eftir handryksugu og / heimsins bestu jarðarberjum / hugsandi um fólksfjöldann á sínum / tíma á leiðinni upp í eiffelturninn“. Þar erum við minnt á það keppikefli ferðamanna að heimsækja útvalda staði, þar sem sama hjarðmenningin ræður ríkjum og í búðabiðröðunum: allt er þetta eftirsókn eftir því sem fólki er sagt að sé ómissandi upplifun.

Jarðarberin eru svo reglulegt stef, þau halda áfram í næsta erindi: „strawberry frosted sprinkles og sokkar í stíl: / seinna keypti ég kassa af kleinuhringjum / eftir að hafa beðið í röð á laugarveginum og / færði mömmu sem lá á spítala“. Við erum minnt á lífið, sem stundum hefur verið lýst svo að það sé aðeins bið eftir dauðanum. En Margrét Lóa er ekki á því: „lifi lífið / (enn ein biðröðin framundan)“ segir í næsta ljóði, „einn og einn ryðst fram úr / en mér liggur ekkert á“. Ljóðmælandi er sáttur við að bíða, „tek mér stöðu í röðinni / hugleiði muninn á uppgjöf og sigri“. Hér eru táknrænar merkingar farnar að lauma sér inn, en tónninn er samt léttur og hin táknræna byrði ekki of þung. Næsta ljóð lýsir biðröðinni sem fjölskyldu og fólk skiptist á sögum, aulabrandari laumar sér inn: „tónlistarmaðurinn fyrir aftan mig / leikur á alls oddi“.

Hverdagurinn fær sinn skammt:

hér kaupir fólk sitt
daglega brauð og
tekur bensín

kannski á ég eftir að snappa ...
senda skilaboð með myndum af innkaupunum

Annar orðaleikur, því það að ‚snappa‘ sem lengi hefur vísað til þess að missa (andlega) tökin, snögglega, lýsir nú vinsælum samskiptum á samfélagsmiðlum.

Og þannig rekur Margrét Lóa sig fimlega í gegnum hin ýmsu form biðarinnar, því hvernig hún tekur ýmist á sig form innhverfrar íhugunar eða áreiti endurtekningarinnar, minninga, vonar – og ótta. Inni á milli koma augnablik sjálfrar biðarinnar, refur á hlaupum og innkaupalisti sem fýkur framhjá:

hrísgrjón
hindber eða brómber
margengs og rjómi
rúmteppi fyrir líknardeildina

Biðröðin býður upp á sjálfsskoðun: „að vilja endurskapa sjálfan sig // á biðstöðu eða í biðröð / virða sig fyrir sér // einsog kökugerðarmaður sem stígur / nokkur skref aftur á bak í miðju verki“ og loks minnir hún á samhengi tilverunnar: „ég er hluti af öllu sem fyrirfinnst / hvorki stærri né minni en aðrir“. Hér má sjá tilvísanir til stríða og flóttamanna, sem lifa í stöðugri bið. Loks blæðir biðinni út í skáldskapinn:

að leita orða
skálda sól á þungbúinn himin

semja tungumál handa
ímyndaðri blekflugu ...

Þannig verður biðröðin að marglaga frjósamri fætlu sem gefur af sér ávexti og ber, hún er upplifun og reynsla sem hefur mátt til að sameina og opna nýja sýn á tilveruna, tilvistina – lífið, dauðann og svo auðvitað sjálfa biðina.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2017