Blóðengill

Ár: 
2018
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Réttlæti og hasar: Að fullkomna klisju

Og ummerkin á lakinu bentu til þess að fórnarlambið hefði barist um. Blóðförin báðum megin við stærsta blettinn í miðjunni voru útmökuð. Blóðugir handleggirnir höfðu hreyfst upp og niður. Hilma starði á dýnuna og sá núna myndina: Snjóengill. Nei, ekki engill í snjó -- blóðengill. Síðan hættir fórnarlambið að berjast um -- allt verður hljótt. (Bls. 39)

Blóðengill er önnur skáldsaga Óskars Guðmundssonar en hann þreytti frumraun sína árið 2015 með Hilmu. Í Blóðengli, sem er beint framhald fyrri skáldsögu Óskars, fá lesendur að endurnýja kynni sín við óþreytandi og ómótstæðilegu lögreglukonuna Hilmu sem tórir enn eftir átök fyrstu bókarinnar. Aðeins vika líður milli bókanna og Hilma er nýkomin aftur til Íslands eftir átakanlega ferð til Oslóar þar sem hún kljáðist við erkióvin sinn, glæpaforingjann Vladas. Hún er gjörsamlega uppgefin en skyldan kallar þegar símtal berst Neyðarlínunni á snjóþungri desembernóttu frá sex ára stúlku sem tilkynnir að mamma hennar sé dáin. Þegar lögreglan kemur á staðinn eru mæðgurnar horfnar sporlaust úr blóði drifinni íbúðinni. Með hverri mínútu sem líður verður ólíklegra að mæðgurnar finnist á lífi. Upp frá þessu hefst æsispennandi saga þar sem Hilma verður að hafa hraðar hendur ef hún ætlar sér að leysa málið og finna mæðgurnar heilar á húfi.

Að bjarga mæðgunum er þó ekki eina áskorunin sem Hilma þarf að kljást við. Vladas er enn í hefndarhug eftir að Hilma kom upp um glæpastarfsemi hans. Vladas er nánast klisjukennt illmenni sem gerir átök hans og Hilmu að klassískri baráttu góðs og ills. Þetta kann að hljóma fráhrindandi fyrir sumum en er í raun fullkomið dæmi um styrkleika Óskars sem spennsusagnahöfundur. Ég á oft erfitt með að takast á við klisjur á íslensku sem ég myndi ekki fetta fingur út í við lestur erlendra spennusagna. Þetta er vissulega ósanngjarnt viðmót en mig grunar að margir Íslendingar deili því með mér. Fyrir mér er það því merki um frásagnarleikni ef höfundur nær að sannfæra mig um að njóta klisju, frekar en að agnúast út í hana -- en það er nákvæmlega sem Óskari tekst í Blóðengli. Það er gífurlega ánægjulegt þegar höfundar kunna að fara með klisjur, því sagnaminnið er ekki svo langlíft að ástæðulausu. Við þráum að sjá okkar lið sigrast á vonda liðinu, við viljum réttlæti og hasar -- og það er einmitt þetta sem barátta Hilmu og Vladasar gefur okkur. Vladas pyntaði Hilmu, veitti henni einkennandi andlitsör, og fyrirskipaði árásir á hennar nánustu. Heiftarleg illskan gefur átökum þeirra kraft og það hafa eflaust margir lesendur fyrri bókarinnar beðið spenntir eftir uppgjöri milli hetjunnar og skúrksins í Blóðengli.

Í gegnum verkið er barátta Hilmu og Vladasar þó að mestu leyti óbein. Vladas leikur lausum hala í Noregi en handbendi hans leynast víða í Reykjavík og Hilma og hennar nánustu eru því aldrei örugg. Rannsóknin á hvarfi mæðgnanna er megináhersla Hilmu og meginefni bókarinnar, en þrúgandi nærvera Vladasar er samt alltaf til staðar. Það leiðir til þess að á sama tíma og lesandinn er að kljást við flækjustig máls mæðgnanna -- og stöðugt að geta sér til um hver þeirra sem eru yfirheyrðir beri í raun ábyrgð -- deilir hann áhyggjum Hilmu um að Vladas skjóti skyndilega upp kollinum og blandist inn í atburðarásina.

Verkið er býður upp á hasar en aðdáendur rannsóknarmiðaðra glæpasagna fá einnig eitthvað fyrir sinn snúð. Óskar gefur sér góðan tíma í að rekja rannsókn Hilmu á hvarfi mæðgnanna og stendur sig prýðilega í að lýsa lögreglustörfunum á sannfærandi hátt. Langir og vel skrifaðir kaflar um yfirheyrslur gefa smáatriðum rannsóknarinnar líka aukinn lit og veita innsýn inn í persónur bókarinnar. Óskar leggur gífurlega áherslu á sennileika þegar kemur að framvindu málsins og það er greinilegt að hann er vel kunnugur starfsháttum lögreglunnar á Íslandi. En mikilvægast er að hann lætur það ekki aftra góðri sögu. Fallegar ,sviðsetningar’ einkenna verkið, þar sem Óskar leyfir sér að hægja á atburðarásinni til að kalla fram kyrrláta en um leið þjakandi stemningu -- sem mætti kalla einkennismerki norræna glæpasagna. Lýsingar á umfangsmikilli leit á Seltjarnarnesi á snjóþungri nóttu og átökum við frosið Þingvallavatn eru ljóslifandi og hrífa lesandann með sér. En þegar tækifærið gefst, hikar Óskar ekki við að sleppa fram af sér beislinu og hendist af fullum krafti í hasargír.

Þessi blanda leiðir líka af sér mun betri takt í gegnum bókina en í Hilmu (um 450 bls. löng) sem þrátt fyrir mikið lof var gagnrýnd fyrir að vera langdregin á köflum. Það er greinilegt að Óskar hefur tekið á helstu vanköntum fyrri bókar sinnar og lagt sig allan fram við að endurtaka þau ekki í Blóðengli. Hann var sagður hafa stimplað sig inn í íslensku glæpasagnasenuna með Hilmu en að mínu mati er fyrst nú hægt að halda því fram. Blóðengill sýnir gífurlega framför og að höfundur, sem og aðalpersónan Hilma, geti staðið undir nýjum sagnabálki -- og þar með fest sig í sessi. Góð notkun á klisjum og samblanda hasars og rannsóknarfrásögn, ásamt fallega sviðsettum senum inni á milli, gerir Blóðengil að skemmtilegum lestri og er frískandi viðbót við íslensku glæpasagnasenuna.

 

 

Már Másson Maack, 2018