Brjálsemissteinninn brottnuminn

brjálsemissteinninn brottnuminn
Höfundur: 
Þýðandi: 
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Með offorsi hjartans

Mitt rauða grundvallandi ofbeldi lét undan. Sköpin á yfirborði hjartans, vegur alsælunnar milli læranna. Ofbeldi mitt af rauðum vindum og grænum vindum. Hinar sannkölluðu hátíðir eru haldnar í líkamanum og í draumum.

(úr „Brjálsemissteinninn brottnuminn“)

Argentínska ljóðskáldið Alejandra Pizarnik (1936-1972) er hálfgerð goðsögn í bókmenntasögu Rómönsku Ameríku þrátt fyrir að hafa lengi vel verið nánast óþekkt meðal almennings. Ljóðaúrvalið Brjálsemissteinninn brottnuminn í þýðingu Hermanns Stefánssonar rithöfunds úr spænsku er fyrsta heildstæða útgáfa af ljóðum Pizarnik á íslensku. Eins og kemur fram í frábærum eftirmála Hermanns um ævi og verk Pizarnik — „Búrið og fuglinn“ — var hún af austur-evrópskum ættum en ólst upp í Argentínu og bjó þar lengst af. Hún skrifaði fjölda ljóðabóka, allt frá því þegar hún gaf út sitt fyrsta verk aðeins nítján ára gömul árið 1955 til dauðadags árið 1971, þegar hún féll fyrir eigin hendi. Pizarnik var ekki mikið þekkt lengi vel en frægðarstjarna hennar hefur risið stöðugt eftir andlát hennar.

Pizarnik fór sína eigin leið í ljóðlistinni og eftir því sem leið á feril hennar fjarlægðist hún alla helstu bókmenntahópa síns tíma. Ljóð hennar voru samt sem áður vinsæl í bókmenntasenu Rómönsku Ameríku og hún átti vingott við marga af þekktustu rithöfundum álfunnar á borð við Octavio Paz og Julio Cortázar. Enn þann dag í dag þykir Pizarnik dularfull persóna þrátt fyrir að ógrynni fræðimanna hafi skrifað og rýnt í líf hennar og ljóðlist. Þó dulúð ríki enn yfir ákveðnum hlutum ævi Pizarnik er víst að hún átti ekki sjö dagana sæla og glímdi meðal annars við átröskun, amfetamínfíkn, þráhyggjuáráttu og langvarandi svefnleysi. Sársaukinn og átökin sem virðast hafa einkennt líf hennar eru áberandi í ljóðunum sem Hermann hefur safnað saman í Brjálsemissteinninn brottnuminn.

Ljóðaúrvalinu er skipt upp í þrjá hluta ásamt eftirmála Hermanns. Í fyrsta hlutanum kynnist lesandinn stíl Pizarnik sem einkennist af taumslausri örvilnun, grimmri heift og tortímingu. Ljóðin krafsa sér leið inn í huga lesandands og bera með sér tæran sársauka vonleysis og gætu verið öskruð í ölæði út í dimma nóttina. Myndir af vætlandi blóði og veikleiki holdsins eru áberandi í ljóðum fyrsta hlutans og sál ljóðmælandans gapir eins og opið sár gagnvart heiminum.

Ekkert

Vindurinn deyr í sári mínu.
Nóttin betlar sér blóð mitt.

Blóð ljóðmælanda og kjarni hans tilheyra ekki honum sjálfum lengur og svo virðist sem óþekkt innri og ytri öfl stjórni tilveru hans — hvort sem það er myrkur heimsins eða djöfullinn sem býr í hjarta hans.

Sárið eina

Hvaða skepna af furðu fallin
ólmast í blóði mínu
og vill frelsa sig?

Hið örðuga er þetta:
að ganga um göturnar
og benda á himininn eða jörðina.

Fuglar koma einnig mikið fyrir en í stað þess að vera mynd frelsis verða fuglar Pizarnik tákn sviptingar; frelsisins sem mannskepnan fær ekki að njóta. Þrúgandi vald búra gnæfir einnig yfir verkinu þar sem stöðugt er þrengt að lífi ljóðmælandans. Búrin eru aldrei langt undan og undirstrika svartsýni fuglaminnisins þar sem eina hlutverk frelsis er að vera vitnisburður um fjarveru þess.

Áður

          Fyrir Evu Durrell

tónlistarskógur

fuglarnir teikna í augu mín
lítil búr

Pizarnik grefur líka undan fleiri jákvæðum minnum. Til að mynda verður ,söngur’ í meðförum hennar að tragísku fyrirbæri sem ber með sér tilgangsleysi og minnir helst á ,svanasöng’. Söngur í ljóðum hennar er sársaukafullt öskur út í tómið, einhliða bón þar sem ljóðmælandi betlar og biðst vægðar gagnvart hryllingi lífsins. Sjaldan er neitt svar við söngnum annað en meiri harmur.

Söngur

í tímanum er ótti
í óttanum er tími
óttinn

gengur um blóð mitt
tínir mína bestu ávexti
brýtur mína aumu borgarmúra

tortíming á tortímingu
tortímingin ein

og ótti
mikill ótti
ótti.

Fyrsti hlutinn einkennist mestmegnis af styttri ljóðum og brjálsemi þeirra en tónninn tekur stakkaskiptum í öðrum hluta. Þar kemur fyrir „Blóðuga greifynjan“, röð prósaljóða — eða öllu heldur kaflaskipt „póetísk ritgerð“ eins og Hermann kallar þau í eftirmála sínum — sem segja frá ungversku greifynjunni Erzébet Bathory sem var uppi á 16. og 17. öld. Greifynjunnar hefur verið minnst fyrir óslökkvandi blóðþorsta en hún er talin hafa myrt í það minnsta 650 stúlkur til að fullnægja eigin sadisma. Blóðhitinn í frásagnarmáta Pizarnik dvínar milli fyrstu tveggja hlutanna en eftir liggur kaldur pollur af blóði og grótesku.

Ljóðmælandinn tekur á sig hlutverk fræðimanns og hvert ljóð hefst á tilvitnun í fræg skáld eða hugsuði fyrri alda. Sagt er frá voðaverkum greifynjunnar með fjarlægum og köldum tón þar sem limlestingum ungra kvenna er lýst af mikilli nákvæmni. Stúlkur eru stungnar, bitnar, og pyntaðar og svo loks drepnar með hrottafengnum hætti í járnmeyjum, dauðabúrum og öðrum drápstólum. Greifynjan nagar hold stúlknanna og baðar sig upp úr blóði þeirra til að viðhalda eilífum þokka og fegurð. Gróteskar lýsingar af pyntingum taka líka á sig kynferðislega blæ er Pizarnik kafar inn í þennan kvennaheim sem er fullur af hryllingi og þjáningu — en greifynjan pyntaði og myrti einungins ungar stúlkur, og þjónustukonur hennar voru þær einu sem tóku þátt í ódæðinu. Brot úr ljóðinu „Klassískar pyntingar“ gefur betri mynd af blöndu hins erótíska og sadíska og fræðimannslega tónsins í rödd ljóðmælanda:

Í kynósa krísum sluppu af vörum hennar blygðunarlaus orð sem hún beindi til hinna pyntuðu. Klámfengnar svívirðingar og úlfsleg vein voru tjáningarmáti hennar, þar sem hún hljóp, upptendruð, myrkra skúmaskota á milli. En ekkert var eins skelfilegt og hlátur hennar. (Ég dreg saman: Miðaldakastalinn, pyntingasalurinn, meyrar stúlkurnar, afgamlar og hryllilegar þernurnar, frávita fegurðin hlæjandi innan úr andsetinni alsælunni sem þjáningar annarra vöktu með henni).

… hinstu orð hennar, áður en hún hneig í hið endanlega óvit, voru: „Meira, enn meira, fastar!“

Eftirmáli Hermanns segir „Blóðugu greifynjuna“ vera eitt þekktasta og merkasta verk Pizarnik en hún hafi samt sem áður gælt við að afneita textanum og úthýsa honum úr höfundarverki sínu. Eftir útgáfu verksins þótti henni ljóðin vera of mikil „vitfirring, alltof stórt skref út fyrir skynsemi og siðmenningu“ (98).

Í þriðja hlutanum má svo aftur finna styttri ljóð ásamt lengra prósaljóði sem er titilljóð verksins, „Brjálsemissteinninn brottnuminn“. Lokahlutinn er mun lágstemmdari og fjölbreyttari en þeir fyrri þar sem slaknar á sársaukaöskri ljóðmælanda og hryllingi heimsins. Dauði, sársauki og tóm eru enn áberandi en sýna allt aðra nálgun Pizarnik en í fyrri hlutunum. Myrku stefin eru ekki sett fram með sama offorsi og í fyrsta hluta ljóðaúrvalsins né umvafin sömu grótesku og í öðrum hluta. Þess í stað má greina friðsæla uppgjöf gagnvart dauðanum og ljóðmælandinn gefur sig á vald þagnar eilífðarinnar. Einnig má sjá glitta í von í fyrsta skipti innan verksins — að minnsta kosti á mælikvarða Pizarnik. Vonin er vanmáttug og veik en það eitt að sjá megi mögulega endurlausn eða frið, sama hversu fjarri þau virðast, er gífurlegt stökk frá fyrri ljóðum verksins. Líkt og í „Uppruna“ er vissulega engin jákvæðni og ógn steðjar enn að, en björgun er nefnd sem viðrar möguleika á endalokum svartnættisins sem fela ekki í sér algera tortímingu.

Uppruni

Það þarf að bjarga vindinum
Fuglarnir brenna vindinn
í hári einmana konu
sem snýr aftur úr náttúrunni
og vefur angist
Það þarf að bjarga vindinum.

Brjálsemissteinninn brotnuminn er blóðheit geggjun og hamslaus tortíming. Ljóðin ráðast fram með offorsi og rífa sannleikann úr hjartanu með blóði drifnum krumlum. Mér kæmi ekki á óvart að útgáfa þessa ljóðaúrvals muni kveikja sömu áráttukenndu hughrifningu hér á Íslandi eins og skrif Pizarnik hafa nú þegar vakið um heim allan. Það er sönn ánægja að lesendur megi núna njóta ljóðlistar Alejöndru Pizarnik á íslensku og þýðing og eftirmáli Hermanns eru hreint út sagt framúrskarandi. Íslenskan er sannarlega ríkari í dag en hún var í gær.
 

Már Másson Maack, desember 2020