Beint í efni

Brúðan

Brúðan
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Heldur leiðist mér þetta „konungs- og drottningartal“ um okkar vinsælustu og víðlesnustu glæpasagnahöfunda. Ég gæti trúað að það fari líka í taugarnar á Arnaldi Indriðasyni og Yrsu Sigurðardóttur. Enn líklegra er þó að hin sjálfvirka samspyrðing þeirra í hugum fólks, fjölmiðla og markaðssetjara pirri þau. Alla vega pirrar hún mig. Hún er líka ansi hreint villandi, vilji fólk njóta bókanna á forsendum þeirra sjálfra. Þetta eru nefnilega ansi hreint ólíkir höfundar. Það sama má líka segja um Wham og Duran Duran, um The Beatles og The Rolling Stones. Samsláttur og metingur gerir engum gott, hvorki listamönnum né neytendum. Svo við skulum bara tala um Brúðuna.

Yrsa Sigurðardóttir er fléttumeistari. Eða jafnvel flækjumeistari. Flestum flinkari í að kasta ótal boltum á loft og missa aldrei sjónar af neinum þeirra. Og henni tekst síðan einatt að láta brautir þeirra skerast áður en yfir lýkur. Stundum með herkjum og ólíkindum, jafnvel smáhjálp frá heppilegum tilviljunum og óbirtum upplýsingum. Svo má líka segja að fólknar fléttur séu í eðli sínu einatt í boði ólíkinda og heppilegra hendinga. En það er óneitanlega nautn að fylgjast með hvernig óreiðan lýtur að lokum boðum meistara síns. Þetta á allt við um Brúðuna. Flækjan er flókin, lausnin er fullnægjandi innan marka hefðarinnar þó með hreinum ólíkindum sé.

Í upphafi er fjórum boltum kastað á loft. Tveir starfsmenn Samgöngustofu draga illa farna brúðu af hafsbotni í veiðiferð. Fimm árum síðar hverfa tveir erlendir ferðamenn í tjaldferð, líkamsleifar finnast í sjónum og rannsókn fer í gang vegna ásakana um kynferðisbrot starfsmanns vistheimilis fyrir unglinga. Einn liður í þeirri rannsókn er leitin að Rósu, strokgjarnri unglingsstúlku sem er mögulegt vitni að brotunum, en á sjálf vægast sagt óvenjulega sögu. Smám saman verður ljóst að Rósa er samnefnarinn, skurðpunktur á flugi boltanna, þó við sögu komi einnig eiturlyfjafíkn og -smygl. Yrsa hefur í síðustu bókum sínum verið dugleg við að nýta sér heit mál í umræðunni við fléttusmíðina: einelti, hefndarklám og nú bæði ópíóðafaraldurinn og svo umtalað mál um handvömm við meðhöndlun meints kynferðisbrotamáls manns í barnaverndarkerfinu. Að ógleymdri vætutíðinni, sumrinu sem aldrei kom til höfuðborgarinnar í ár.

Styrkur Brúðunnar liggur þar sem hann liggur alltaf hjá Yrsu. Í flókinni atburðaféttu sem teygir sig milli fortíðar og nútíðar og virðist lengi vel verða órökvísari og skrítnari með hverri nýrri uppgötvun eða viðburði, en gengur á endanum upp á nokkuð fullnægjandi og næsta óvæntan hátt. Á hinn bóginn verður Brúðan aldrei beinlínis spennandi í bókstaflegum skilningi orðsins. Þar ræðum miklu að aldrei skapast tilfinning fyrir að einhver persónanna sé í alvarlegri eða yfirvofandi hættu. Drifkraftur lesandans er fyrst og fremst forvitni en ekki hrollur eða spenna. Einnig spilar þarna inn í að stúlkan Rósa, sú persóna sem nærtækast er að líta á sem aðalpersónu (fyrir utan söguhetjurnar Huldar og Freyju auðvitað), er utansviðs allan tímann. Við hittum hana aldrei í eigin persónu og upplifum því ekki atburðina í gegnum hana, heldur fréttum bara af leit hennar að morðingja móður sinnar eftir því sem rannsókn annarra þráða vindur fram. Segja má að tilfinningalegri miðju bókarinnar sé haldið utan hennar.

Burtséð frá hvaða illvirkjum er sagt frá fylgjast árvissir lesendur Yrsu auðvitað ekki síst með framvindunni í tilfinningalífi Huldars og Freyju frá bók til bókar. Þar glímir hún við sama verkefni og aðrir höfundar framhaldsverka; að láta helst ekkert breytast en blása samt í áhugaglæðurnar. Þrjátíu daga kynlífsbindindið sem Freyja hefur sett á sig þegar sagan hefst að þessu sinni er ágætisbrella til að skjóta sér undan því að láta sambandið þróast; dýpka eða springa. Ég spái því að enn séu nokkur jól þar til við sjáum þau fara saman í greiðslumat. Mér þykir Yrsa tefla á tæpasta vað með hvað Huldar og Freyja eru dæmigerðar, nánast algerlega séreinkennalausar, skandikrimmahetjur. Eins finnst mér þriðja hjólið undir vagninum, hin fúllynda yfirlögga Erla, heldur ótrúverðug. Skapofsaköst og ósanngirni hennar virðast ekki eiga sér neina náttúrulega rót í persónunni heldur stafa fyrst og fremst af þörf höfundar fyrir núning í samskiptunum.

Lengi vel þóttu mér stirð samtöl með óþarflega bóklegu málsniði helsti Akkilesarhæll Yrsu sem höfundar. Ég er ekki frá því að þetta hafi lagast talsvert, þó hversdagslegt talmál sé enn nokkuð fáséð. Hún er ekki ein um að fara ekki alla leið þangað. Hitt er verra hvað mikið ber á óþörfum málalengingum, sem ætti að vera hægðarleikur fyrir ritstjóra að benda á og fá fjarlægða. Hér er verið að útskýra hvers vegna Rósa er í umsjá barnaverndaryfirvalda:

Afi og amma hennar í föðurætt bjuggu í Noregi og komu ekki til greina vegna búsetu þeirra erlendis. Barnaverndaryfirvöld senda íslensk börn ekki úr landi í tilvikum sem þessum. (Bls. 89)

Fyrstu níu orðin hefðu dugað. Fyrstu fjórtán ef fyllstu nákvæmni er þörf. Eða þessi endir á langri efnisgrein sem ætlað er að skapa andrúmsloft:

Einstaka útlendingur með ferðatösku í eftirdragi leitaði uppi götumerkingar og húsnúmer, augljóslega í leit að Airbnb-íbúð. Litlar líkur voru á því að eigandinn hefði fengið öll tilskilin leyfi fyrir slíkri starfsemi en það kom Huldari og félögum ekki við. (Bls. 112)

Er seinni setningin að gera nokkuð einasta gagn? Og þurfum við virkilega allar þessar upplýsingar um ábyrgð og gang mála við þrif á lögreglubílum:

Hann tók Freyju og Sögu í það minnsta fram yfir að ferja ælandi gámabúann á sjúkrahús. Sem betur fór var ælan í aftursæti ómerkts lögreglubílsins ekki hans vandamál. Hann var bara feginn að hafa ekki þurft að þrífa bílinn. Hann hafði látið nægja að skila honum og láta vita að hann þyrfti að fara í þrif. Þá var klukkan orðin eitt að nóttu og hann of þreyttur til að vera næs. (Bls. 164)

Kostir Brúðunnar eru ótvíræðir. Sérkennilegir og spennandi viðburðir í upphafi fanga forvitni okkar og athygli, það er engin leið að hætta fyrr en fyrir liggur hvað eiginlega gerðist. Hvað varð um lánlausu túristana, hvaða bein voru dregin á land, af hverju maðksmogin og hrúðurkarlaþakin brúða er innbrots og manndráps virði. Gefst Huldari og Freyju tími og tilefni til að ylja hvort öðru undir sæng? En skortur á persónu til að „halda með“ dregur úr spennunni og of stór hluti blaðsíðnanna þrjú hundruð fimmtíu og níu fer í óþarfa til að Brúðan eigi sess meðal best heppnuðu bóka Yrsu Sigurðardóttur.

 

Þorgeir Tryggvason, 2018