Daloon dagar

Höfundur umfjöllunar: 

„Kjötætublómin hafa flutt í annað póstnúmer“

Ljóðabókin Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er afrakstur nýtilkominnar námsbrautar í ritlist við Háskóla Íslands, en henni stýrir rithöfundurinn og þýðandinn Rúnar Helgi Vignisson. Áður hefur komið út bókin Með mínum grænu augum eftir Sverri Norland (og mögulega fleiri sem ég hef ekki frétt af) og af þessum tveimur bókum má auðveldlega álykta að þarna eru góðir hlutir að gerast.

Bók Bergþóru er tilraunakenndari en bók Sverris, en þar eru alfarið ljóð í því nútímaformi sem gengur illa að skilgreina, laus við hefðbundna hætti og hrynjanda, en að öðru leyti afar fjölbreytt í laginu. Meirihlutinn er í einhverskonar prósastíl, ýmist sem örstuttar fáeinar línur, eða þéttari ‚frásögn‘, öðrum er raðað upp í því sem fyrir flesta er dæmigert nútímaljóð þó útfærslur Bergþóru falli ekkert endilega að slíkum.

Það má greina ákveðinn framúrstefnutón í bókinni, súrrealískt myndmál stingur víða niður kollinum og ljóðin einkennast mörg hver af hraða og ákafa, einskonar ofhlæði og ágangi sem getur komið afar vel út – en ekki alltaf, eins og gengur.

Bókin skiptist í fjóra hluta sem eru nokkuð þematengdir. Þremur síðari hlutunum fylgir mynd eftir Rakel McMahon sem einnig gerir forsíðumyndina og er hér um sérlega vel heppnaða myndræna útfærslu að ræða. Forsíðumyndin er nokkuð súrrealísk enda eru súrrealískustu ljóðin í fyrsta hlutanum, sem hefst á ljóðinu „Fyrsti kafli (ÓKEI)“:

Svo þú vaknaðir með kónguló í rúminu og munninn fullan af hnífapörum? já já járnseyðingurinn í maganum er andstyggilegur ég vei ég veit ég veit! en byrjaðu á því að taka út úr þér gafflana svo ég skilji hvað þú ert að mplrhreyhhnaadswhejah. Ó-KEi?

Þetta fannst mér skemmtilegt og gaf strax góð fyrirheit.   Eitt þema er ítrekað, en það er „Póstkort til herra Li“, þau eru alls þrjú, eitt í fyrsta hluta og tvö í þeim síðasta. Fyrsta kortið gefur til kynna andblæ úr öðrum heimi og reyndar má segja það sama um mörg ljóðanna, þau eru ánægjulega framandleg í íslenskri ljóðlist og vekja forvitni og eftirvæntingu hjá lesanda. Á stundum verður æsingurinn dálítið mikill og tilgerðin vomar yfir, en það kemur ekki að neinni alvarlegri sök: ég hef oft sagt og segi enn og aftur að ljóðabækur kalla einfaldlega á annarskonar lestur, og ef ljóðabók inniheldur þó ekki væri nema örfá fín ljóð þá er ferðalagið þess virði. Vissulega er þetta erfiðara þegar í hlut eiga þematengdar ljóðabækur eins og bók Bergþóru, en við fyrsta lestur fannst mér hlutar tvö og þrjú, „Þriðjudagur og smokkfiskar hanga á spýtunni“ og „Það er eitthvað að fara að gerast“ allslakir. En við annan lestur sá ég að ég var að láta stök ljóð trufla mig um of og að þarna er ýmislegt skemmtilegt um að vera.

Í „Það er eitthvað að fara að gerast“ er til dæmis dálítið fyndin romsa af einskonar vinkvennaslúðri sem síðan endar á dásamlega súrrealískri mynd. Fyrst fregnum við af Guðnýju sem fékk ástarbréf frá manni sem „er víst áhugaverður en þarf að laga sig / þurfa þeir þess ekki allir“, svo poppar æskuvinur Freyju „upp á spjallinu á þriðjudegi og bauð henni að koma að ríða hún afþakkaði að sjálfsögðu svo óforskammað boð (og það á þriðjudegi)“. Fleiri álíka sögur fylgja en svo erum við alltíeinu komin út í heim og heyrum um einræðisherra sem stela gulli og þá fara skrýtnir hlutir að gerast því „Sveinbjörg á ekkert gull hún býr ein í búri í stofunni sátt með sand og stöku flugu hún hefur það örugglega best af okkur öllum hahaha...“ Sveinbjörgu er gefin hálfétin Berlínarbolla „en passaðu þig á sultunni sem lekur úr henni miðri við viljum ekki að sultan leki á stofuborðið hún gæti skilið eftir blett“. Hér má náttúrulega bara finna hversdagslega skýringu og álykta að Sveinbjörg sé fugl (eða eitthvað annað gæludýr), en það er eitthvað sláandi skemmtilegt við þetta hversdagslega kvenmannsnafn sem fylgir í kjölfar allra hinna kvenmannsnafnanna, og tilheyrir samt ekki þeirra hversdagslega veruleika skyndikynna og ástarsambanda.

Lokaljóðið er ljóðabálkur sem nefnist „Þau voru hér bæði“ og virðist gerast á einhversskonar stofnun, mögulega fyrir geðsjúka, en síðasta ljóðið lýsir sólblómum sem vaxa ekki villt heldur „eru vafin á bláan bakgrunn“ sem gæti vísað til málverks Van Goghs. Þetta ljóð er sett fram í einskonar dagbókarformi og er dæmi um þau ‚hefðbundnari‘ nútímaljóð sem finna má í bókinni. Dagbókaformið er ekki óalgengt bragð og þjónar því hlutverki að skapa nálægð milli ljóðmælanda og lesanda, opna einskonar glugga inn í hugleiðingar annarar manneskju á annan hátt en ‚venjulegt‘ ljóð gerir. Þetta er svo ítrekað með því að láta einhverskonar gæslukonu í fyrsta ljóðinu afbaka nafn skáldkonunnar: „Bergbora Snípursdóttir“. Slík innsetning höfundar í skáldskap á sér fjölbreytta hefð og hér er þessu nokkuð fimlega fyrir komið og spilar á athyglisverðan hátt saman við ýmis persónulega ágeng ljóð sem finna má hér og þar í bókinni, meðal annars póstkortin til Herra Li.

Pólitíkin er líka til staðar, en svo virðist sem nú verði ungt listafólk að sýna pólitíska meðvitund. Eitt ljóðanna heitir „Heimsóttablús“ og er meðal þeirra ljóða sem rambar ítrekað á mörkum þess að verða tilgerðarlegt en inniheldur jafnframt öflugar og fallegar myndir: „eggjarauðurnar springa á öskugráum himni“ er ein, meðan pólitíkin nýtur sín vel í línunni „hlustaðu og þú heyrir skjalatöskusvartnættið éta sig að kjarna jarðarinnar“, svo tekur súrrealisminn yfir með nokkuð elegant pólitískum snúningi:

Náttúrunni verður ekki lengur haldið í öruggri fjarlægð frá áhorfandanum.
     Kjötætublómin hafa flutt í annað póstnúmer og brátt
         munu lemúrar gæða sér á tarantúlum bakvið Habitat sófann þinn
              á meðan tvöþúsund tonna kettir háma í sig Balkanskaga
                    þjóðarbrotin brenna upp í magasýrunum

Öllu þessu er beint til Dívu le Monde sem situr „á kaffihúsi í Hyde Park“, „með mjólkina freyðandi á vörunum“.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2012