Dimmar rósir

Höfundur: 
Ár: 
2008
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Dimmar rósir

Fáir skrifa eins lipran og læsilegan texta og Ólafur Gunnarsson. Dimmar rósir er þar engin undantekning. Í bókinni er fylgst með lífi tveggja fölskyldna í Reykjavík á árunum 1969 til 1971. Í báðum fjölskyldunum er um að ræða þrjár kynslóðir; fólk sem er um miðjan aldur, uppkomin börn þeirra og afar þeirra. Ömmurnar eru fjarri góðu gamni og kannski ekki rétt að tala um gaman, því að ýmis óhamingja ber að dyrum og miklar sviptingar eiga sér stað í lífi þessa fólks. En það er ekki leiðinlegt að lesa um það. Allar eru persónurnar málaðar sterkum litum og einnig þær persónur utan fjölskyldnanna sem hafa áhrif á söguþráðinn.

Í upphafi sögu er okkur dembt í Glaumbæ þar sem The Kinks eru með tónleika og hljómsveitin Hljómar að hita upp. Rúnar Júlíusson á eina replikku og Ray Davies nokkru fleiri. Í bókinni virkar Davies einstaklega altillegur, og er það eflaust, þótt þeir sem lesið hafa bók hans X-Ray geti trúað öllu upp á hann. Á fyrstu blaðsíðum bókarinnar hafa sem sagt fyrrnefndir verið kallaðir til auk Alberts Guðmundssonar, og fleiri persónur úr veruleikanum, bæði lífs og liðnar, eiga eftir að bætast við. Fleiri hljómsveitir koma einnig við sögu, svo sem Led Zeppelin enda tengjast helstu straumhvörf sögunnar frægri heimsókn þeirrar hljómsveitar hingað til lands. Þar með eru Jimmy Page og félagar einnig orðnar persónur í bókinni en nokkru áður höfðu Chris Squire (Yes) og Ginger Baker (Cream) átt fund með Guðna trommara. Sá fyrrnefndi ræður Guðna í hljómsveit sína, The Balls. Ekki held ég að sú hljómsveit hafi verið til í rauninni þótt finnsk hljómsveit hafi starfað með sama heiti. En þessir atburðir eiga sér stað áður en Yes gera garðinn frægan.

Guðni þessi er kærasti Hörpu en systir hennar, Hrafnhildur, rekur hljómplötuverslunina Plötuportið. Þótt einhvern tíma hafi verið til verslun sem hét Plötuportið og jafnvel á þeim sama stað og þetta uppdiktaða plötuport, þá var það ekki til á þessum tíma en hins vegar muna margir eftir Fálkanum á Laugavegi. Hljómsveitin Tatarar var starfandi 1969 og hljóðritaði lagið „Dimmar rósir” um þær mundir. Þeir eru þarna í bakgrunni en Ólafur notar nafnið Eik yfir þessa hljómsveit, kannski til að geta notað Guðna trommara og aðra meðlimi sem sögupersónur. Hippakynslóðin man svo náttúrlega eftir proggrokk hljómsveit Gests Guðnasonar sem bar þetta nafn en hún var ekki stofnuð fyrr en 1972 ef marka má sögubækur. Það kemur ekki illa út að blanda svona saman staðreyndum og skáldskap, alla vega hrekkti það ekki þennan lesara. Og að lesa þessa bók er svolítið eins og að lenda í tímavél eða vera jafnvel í stöðugu flassbakki þótt stundum sé eilítið frjálslega farið með sögulegar staðreyndir. Það kann líka að vera að minni okkar sumra sem lifðum (af) þessa tíma sé, af ýmsum ónefndum ástæðum, fremur gloppótt.

Það yrði allt of langt mál að rekja söguþráð og nefna til sögu hinar fjölmörgu persónur sem birtast í bókinni. Þær hafa allar sitt vægi í framþróun sögunnar og er varla hægt að tala um neina ákveðna aðalpersónu þótt örlög Ásthildar snerti lesendur eflaust mest enda tengist lokaþáttur sögunnar henni. Það er óskaplega erfitt að leggja þessa bók frá sér. Helst vill maður gleypa hana alla í einu. Á hverri blaðsíður eru atburðir sem gera lesandann spenntan eftir framhaldinu. Í raun má segja að Dimmar rósir sé meira spennandi en nokkur glæpasaga. Þótt ýmis glæpsamleg atvik eigi sér stað í sögunni þá lýtur hún allt öðrum lögmálum heldur en hefðbundnar glæpasögur gera. Þetta er ákaflega dramatísk saga og liggur við að nálgist að vera sápuópera en það hangir bara svo miklu meira á spýtunni og eftir á veltir maður fyrir sér lífi fólksins sem maður kynntist á síðum bókarinnar. Er allt undir tilviljunum komið og því best að láta skeika að sköpum, flýr enginn örlög sín, hvað með guðlega forsjón?

Orðfæri í samtölum er dáldið uppskrúfað á stundum en ákaflega íslenskt og væri gaman ef fleiri töluðu svona alla jafna. Ég held samt að árið 1970 hafi fáir orðað hugsun sína eins og Vagn bróðir Brynhildar leikkonu gerir á bls. 302 „Hjá engum okkar eru hagir slíkir (að við getum tekið hann pabba inn á heimilið)”. En það er gaman að þessu.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2008