Djöflastjarnan, Sumardauðinn og Skurðlæknirinn

Djöflastjarnan eftir Jo Nesbø í þýðingu Bjarna Gunnarssonar
Höfundur: 
Þýðandi: 
Ár: 
2011
Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Sumardauðinn eftir Mons Kallentoft í þýðingu Ísaks Harðarsonar
Höfundur: 
Þýðandi: 
Ár: 
2011
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Skurðlæknirinn eftir Tess Gerritsen í þýðingu Hallgríms H. Helgasonar
Höfundur: 
Ár: 
2011
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Glæpir í glampandi sól

Sumarið er tíminn sem margir hafa til að lesa - allt það sem ekki hefur gefist tími til. Hvíldardagar sumarleyfisins kalla beinlínis á bækur og þá er ekki úr vegi að snúa sér um stund frá fjölskylduamstri, garðhúsgögnum og veðuráhyggjum og hverfa inn í heim myrkraverka. Þetta virðast glæpasagnahöfundar hafa verið að uppgötva, því þrjár þeirra nýju sagna sem út komu á þessu ári gerast að sumri til, með tilheyrandi hitamistri.

Í Djöflastjörnu norska glæpasagnahöfundarins Jo Nesbø er sem fyrr sagt frá drykkfellda rannsóknarlögreglumanninum Harry Hole, sem nú hefur hallað sér alfarið að flöskunni eftir að hafa mistekist að leysa morðið á samstarfskonu sinni og vinkonu. Hinn grunaði er nefnilega samstarfsmaður Hole og því ekki sérlega hægt um vik. Í Djöflastjörnunni er Hole enn með hugann við harm sinn en að auki rannsakar hann dularfull morð sem virðast eiga sér einhverskonar táknræna merkingu. Ekki svo að skilja að Hole sé eitthvað áhugasamur um starf sitt, en honum hefur verið tilkynnt um uppsögn. Þó er hann neyddur til að taka þátt í þessari rannsókn, því það eru sumarleyfi og lögreglan fámenn. Hole ráfar um, ýmist drukkinn eða timbraður, en hæfileikar hans virðast þó ekki með öllu heillum horfnir. Og enn nýtur hann mikillar kvenhylli, jafnvel illa lyktandi og timbraður. Osló er flottur vettvangur glæpasögu og persónusköpun Nesbø skemmtileg að vanda, auk þess sem hann heldur vel utanum ýmsa þræði málsins - eða málanna, öllu heldur. Veðrið er vel nýtt, bæði sumarhitinn sjálfur og svo breytingin sem verður við hvörfin. Stíllinn er hæfilega fyndinn og hæfilega töffaralegur, líkt og söguhetjan sjálf og þýðingin er lipur.

Sumardauðinn eftir Mons Kallentoft, gerist, eins og titillinn gefur til kynna, um sumar, að þessu sinni í bænum Linköping í Svíþjóð, en þar er hitabylgja. Unglingsstúlka finnst nakin í skemmtigarði og í ljós kemur að henni hefur verið misþyrmt kynferðislega. Stúlkulík finnst í grunnri gröf, henni hefur verið misþyrmt á sama hátt og líkaminn þveginn vandlega. Malin Fors, sem birtist í Vetrarblóði á síðasta ári, er hér snúin aftur, en öllu léttklæddari. Fjölskyldumálin vefjast enn fyrir henni en dóttirin er mestalla bókina á Bali með föður sínum, og að auki er Malin upptekin af einhverskonar upprifjun / uppgjöri á sambandi sínu við foreldra sína. Þetta virðist gera hana næmari fyrir örlögum stúlknanna, allavega fylgir andi gröfnu stúlkunnar henni eftir og er sagan að hluta til sögð frá hennar sjónarhorni. Þriðja sjónarhornið er svo morðingjans. Hér er sumarleyfisfílingurinn í algleymi og skapar áhugaverða umgjörð um myrkraverkin. Sá símskeytastíll sem einkennir frásögnina er stundum á mörkum þess að vera tilgerðarlegur, en sleppur. Í heildina er þó eitthvað við söguna sem gengur ekki alveg upp, kannski vegna þess að lesandi finnur of mikið fyrir tilraunum höfundar til að vera frumlegur.

Kynferðislegt ofbeldi gegn konum er einnig til umfjöllunar í Skurðlækninum eftir Tess Gerritsen. Sögusviðið er Boston, að sumarlagi, í hita og raka, en hitinn gerir það að verkum að konur opna glugga til að fá ferskt loft og glæpamenn nýta sér það. Í félagi við misfjandsamlega karlkyns samstarfsmenn sína vinnur rannsóknarlögreglukonan Jane Rizzoli að óhugnanlegu morðmáli, en glæpurinn minnir um margt á samskonar morð sem framin voru fáum árum fyrr í annarri bandarískri borg. Sá glæpamaður er þó dauður, skotinn niður af einu fórnarlamba sinna sem tókst að sleppa. Konan sú er nú flutt til Boston og vinnur sem læknir á bráðamóttöku. Hún er svo önnur aðalsöguhetja bókarinnar en fljótlega kemur í ljós að ofbeldismaðurinn, sem líklegast er einhverskonar hermikráka, ætlar sér að ráðast á hana. Lýsingar á morðunum eru afar grafískar og sagan í raun á mörkum þess að vera spennusaga og hrollvekja, enda er vitnað til ummæla Stephen King aftan á kápu. Sem slík sver hún sig í ætt við það sem nefnt hefur verið hryllings-klám, eða pyntinga-klám, og hefur aðallega grasserað í kvikmyndum - og er ákaft fordæmt þar. Verk af þessu tagi gera út á kvöl og pínu, yfirleitt með það að yfirlýstu markmiði að höfða til lægstu kennda áhorfanda og ganga fram af honum, en stundum með einskonar skinheilögum yfirtónum ádeilu. Skurðlæknirinn hallast meira að því síðara. Svo virðist sem þessi tegund óhugnaðar líðist frekar í rituðu máli, allavega hafa ekki borist nein sérstök mótmæli vegna bóka af þessu tagi, bóka sem margir lesendur gleypa í sig sem annars myndu aldrei láta sjá sig á hryllings-klám-kvikmyndum. Eitthvað átti ég erfitt með að komast inn í þessa bók, kannski vegna þess að þýðingin var dálítið stirðleg, en alveg eins vegna þess að persónurnar eru óþarflega klisjaðar og sagan einfaldlega ekki sérlega góð.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011.