Ég hef séð svona áður

Ár: 
2018
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Óræður hversdagsleiki

Hversdagurinn er höfundi Ég hef séð svona áður hugleikinn. Persónurnar hafa (líkt og lesandinn) einmitt séð svona áður. En hversdagurinn er ekki endilega bara hversdagslegur, hann er dulur, óþægilegur, óljós og órökréttur. Í hverju hversdagslegu samtali liggur eitthvað ósagt, í hverri hversdagslegri athöfn falin önnur ókunnugleg athöfn. Ferðalög eru ákveðin þungamiðja smásagnanna, bæði þau landfræðilegu en ekki síður hin, þau sem eiga sér stað innra með fólki – og þau skapa ekki síður framandleika.

Þetta er þriðja bók Friðgeirs Einarssonar sem einnig hefur getið sér gott orð sem leikskáld, leikstjóri og leikari og er skemmst að minnast sýninga hans með leikhópunum Sextán elskendum og Kriðpleiri. Eins og í fyrri bókum hans, smásagnasafninu Takk fyrir að láta mig vita og skáldsögunni Formaður húsfélagsins, er látleysi texta og atburðarsásar blekkjandi við fyrstu sýn. Eftir að hafa rölt í gegnum kunnugleg umhverfi og hitt fyrir kunnuglegar persónur sem jafnvel segja kunnuglegar setningar er lesandinn skyndilega sleginn óhug. Eitthvað stemmir ekki alveg, en það er erfitt að setja fingur á hvað það er. Í viðtali við Stundina fyrir nokkrum árum sagði Friðgeir: „Það er þessi framandleiki sem maður upplifir stundum, eins og maður sé útlendingur í eigin lífi. Persónurnar í sögunum mínum eru oft á ferðalögum, túristar í bókstaflegri merkingu, en þær eru það líka þegar þær eru heima hjá sér.“ Það má til sanns vegar færa að persónurnar upplifi nokkurs konar framandgervingu og þá um leið lesandinn líka – allt virðist „eðlilegt“ þegar litið er yfir sögusviðið en þó um leið ekki. Þessi tilfinning fylgir manni út fyrir bókina – hið kunnuglega verður ókunnuglegt. 

Hugmyndin um hið hversdagslega sem leikmynd eða sviðsetningu stingur ítrekað upp kollinum. Í sögunni „Þjálfun nýrra leiðsögumanna“ koma fyrir manngerð ísgöng í jökli, þau eru bara gerð fyrir ferðamenn – en ferðamennirnir mega helst ekki vita það: „Þegar þeir skoða manngerð fyrirbæri vilja þeir gjarnan að þau hafi upprunalega haft einhvern annan tilgang en ferðaþjónustu, þeim finnst það meira „ekta“. Framboð á þannig stöðum – á Íslandi og í heiminum öllum – er takmarkað, en ferðamönnum er alltaf að fjölga. „Það er ekki til nógu mikið ekta fyrir alla.“ (bls. 63) Í síðustu sögunni „Sólsetur í Oía“ kemur þessi hugmynd aftur fyrir – nú varðandi manngerðu eyjarnar í Títíkaka-vatni þar sem enginn býr lengur, fólkið er allt flutt í land en klæðir sig á hverjum degi í búninga og mætir á eyjurnar fyrir ferðamenn. Sögupersónan hefur skráð eyjarnar á lista yfir staði sem hún ætlar að sjá áður en hún deyr – en meintur óraunveruleiki þeirra truflar hana ekki: „sumum finnst verra að þetta sé gert svona, að fólk sé að leika sig sjálft, en það breytir mig engu hvort fólk sefur þarna eða ekki.“ (bls. 165). Hér er komin ákveðin sátt við óþægilega en sannfærandi framtíðarsýn sem er í senn kunnugleg og fáránleg. Í framtíðinni mun jafnvel enginn munur verða á híbýlum og lífum fólks eftir menningarheimum – alls staðar svipuð húsakynni, svipuð fæða, svipaður klæðnaður – allur menningarmunur verður settur á svið og leikinn – eins og Shakespeare sýning í Globe leikhúsinu.

En það er ekki bara ókunnugleiki á milli lína heldur ekki síður kómík – eins og í fyrri verkum Friðgeirs og ekki síður í leikverkunum má hér finna sérstaka skraufþurra kómedíu sem hefur sig upp úr hinu daglega amstri og læðist jafnvel inn á svið fáránleikans. Í sögunni „Þjálfun nýrra leiðsögumanna“ er aðalpersónan mætt á kynningarfund hjá fyriræki sem býður uppá ferðir gegnum ísgöng. Vanur maður þjálfar leiðsögumannaefnin og útskýrir: „Í dyngju Oksins var minnsti jökull landsins þangað til fyrir örfáum árum, þá hvarf hann. Ég myndi ekki tala mikið um það. Hlýnun er ákaflega viðkvæmt mál, það eru ekki allir sammála. Fólk fer ekki í frí til að hafa áhyggjur af heiminum. Það sem skiptir máli er að Langijökull verður á sínum stað í áttatíu ár í viðbót, að minnsta kosti.“ (bls. 59) 

Sögurnar eru missterkar, sumar í ætt við brosleg hliðarspor á meðan þung undiraldan í öðrum ýtir duglega við lesandanum. Í sögunni „læknir“ hittum við fyrir hjón sem eru komin á eftirlaun og flutt til sólarstrandar. Eiginmaðurinn, sem er fyrrverandi læknir, stærir sig af því að óttast ekki dauðann, hann sé vanur að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Það kemur svo í ljós að það eru aðrir hlutir sem hann óttast, svo sem nánd, tilfinningar, vesen og fyrirhöfn – og ísmolar – sem geta innihaldið stórhættulegar bakteríur. Afstaða læknisins gagnvart fjölskyldu sinni og samferðafólki, afskiptaleysið og vanhæfnin eru í senn kunnugleg og óhugnanleg, einhvern veginn brosleg og ófyrirgefanleg í senn. 

Persónurnar ná mismiklu flugi og stundum getur skáldskapurinn jafnvel virkað rislítill. Það liggur þó mun meira milli línanna en gæti virst við fyrstu sýn og myndir úr frásögnunum stinga ítrekað upp kollinum í huga lesanda löngu eftir að lestri lýkur. Þá dansa sumar sögurnar á barmi grótesku og fantasíu sem er þó alltaf sprottin beint úr raunveruleikanum. Þótt viðfangsefni sagnanna séu eins og áður sagði hversdagurinn og alúðin við smáatriði gríðarleg þá krauma undir niðri stórar spurningar um tilvist mannsins og jafnvel erindi hans á jörðinni. Það er einhvern veginn eins og þetta nostur við hið smæsta kalli fram hugrenningatengsl við hið hæsta. Forgengileiki mannsins, tengslaleysi hans og firring hanga öll á spýtunni og lesandinn nemur í senn harminn og kómíkina sem felst í samhenginu.

 

Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018