Eldur í höfði

Ár: 
2021
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Nokkur orð um ritverk Karls Ágústs Úlfssonar

Ritferill Karls Ágústs Úlfssonar er langur og fjölbreyttur. Rúmlega tvítugur er hann farinn að þýða öndvegishöfunda á borð við Tolkien og Jan Terlouw. Þýðingar Karls Ágústs fyrir prent og svið eru ótalmargar og fjölskrúðugar, spanna allt frá smábarnabókunum um Bjarnastaðabangsanna til Péturs Gauts eftir Ibsen, þar sem hann tekur sér sæti hjá þeim Helga Hálfdanarsyni og Einari Ben. Fyrstu frumsamin verk Karls Ágústs byrja að birtast á fjölunum og hljóma í útvarpi um miðjan níunda áratuginn og skömmu síðar opnar Spaugstofan, þar sem hann var stórvirkur gamanþátta- og gamanvísnasmiður fram á annan áratug 21. aldarinnar.

Snemma á tíunda áratugnum leggur Karl Ágústs stund á háskólanám í leikritun og handritagerð í Ohio-háskóla og eftir það eru viðameiri sviðsverk meira áberandi í höfundaverkinu. Á allra síðustu árum birtast síðan verk sem vekja athygli í „hreinræktuðu“ bókmenntaformi; smásagnasafn og skáldsaga.

Hér verður reynt að þræða sig í gegnum þetta mikla höfundarverk og staldra við á völdum stöðum, og þá ekki aðeins þar sem afraksturinn er aðgengilegur lesendum, heldur líka að einhverju leyti við verk sem hvergi lifa nema í handritum og í minni þeirra sem fluttu og sáu.

I

Einn af sterkustu stólpunum í burðarvirki bókmenntanna er hermilistin. Höfundar eru sífellt að skrifast á við þá sem á undan þeim komu og jafnvel þá sem sitja við næsta borð. Skýrast birtist þetta ef til vill í því ritefni sem hefur þann tilgang einan eða helstan að skemmta okkur. Hreinar skopstælingar eru augljóst dæmi, sem og þegar formi og innihaldi er stillt upp sem andstæðum.

Þá er mikið kómískt eldsneyti í því að byggja á efni sem gera má ráð fyrir að allir sem sjá og heyra þekki. Skemmtilegt dæmi úr Spaugstofunni má nefna: þegar reiði kraumaði í samfélaginu á blómatíma þeirrar stofnunar vegna fjármálagerninga Sameinaðra verktaka. Karl og félagar birtu okkur höfuðpaurana umsvifalaust í gervi ræningjanna í Kardimommubæ Egners, og gátu verið þess fullvissir að hvert mannsbarn næði tengingunni á svipstundu.

Karl er flinkur að finna og hagnýta sér slík færi. Frábært dæmi er stuttur einleikur, Alveg að koma, sem Leikfélag Kópavogs hefur m.a. sýnt. Þar fylgjast áhorfendur með manni á þönum að pakka í tösku, búa sig undir ferðalag. Hann er orðinn mjög seinn, en illa gengur að klára fráganginn. Allskyns furðulegir hlutir afvegaleiða hann og halda athygli áhorfandans þó hann átti sig líklega ekki á hvert verið er að fara, hvorki höfundur né persóna. Það er síðan í blálokin að skýringin, hnykkurinn, „pönsið“ kemur, öllum að óvörum:

Síminn hringir. MAÐURINN hrekkur enn við. Hann horfir stjörfum augum á símann á meðan hann hringir nokkrar hringingar. Síðan stígur hann nokkur hikandi skref í átt að símanum. Hann stoppar. Horfir á töskuna. Bendir með fingri og telur í hljóði upp það sem hann hefur sett í töskuna. Síminn hringir enn. MAÐURINN gengur að símanum og lyftir tólinu hikandi.

(Í símann) Godot.

Löng þögn. MAÐURINN stendur með tólið í höndunum og hlustar. Kinkar kolli.

Segðu þeim að bíða.

Leggur tólið á. Snýr sér hikandi að töskunni og horfir á hana en nálgast hana ekki. Stendur hreyfingarlaus í þögn. Ljósin deyja hægt út.

Þarna er skrifast á við svo frægt leikrit að allir munu skilja grínið, hvort sem þeir hafa séð meistaraverk Samuels Beckett, Beðið eftir Godot, eða ekki. Eftir á geta svo þau sem eru handgenginn írska höfuðskáldinu skemmt sér við að rifja upp ýmsar smávægilegar vísanir í verk hans og líf í einræðu „Godots“.

En áhrifamáttur þess að nýta sér vísanir, tilbrigði og samræður við bókmennta- og menningararfinn er vitaskuld ekki bundinn við grín og útúrsnúninga. Það er ómaksins vert að skoða tvö dæmi, sem jafnframt eru vitnisburður um einn af sterkustu hæfileikum Karls Ágústs: hagmælskuna.

Árið 1999 var frumsýnd í Kaffileikhúsinu Ó, þessi þjóð!, listræn revía um eitt af helstu viðfangsefnum Karls Ágústs alla tíð: þjóðareðli Íslendinga í sögu og nútíð. Í verkinu rekja landvættirnir fjórir sögu þjóðarinnar, einkum upprunagoðsagnirnar, í skoplegu ljósi, um leið og þær skoða nútímaíslendinginn eins og hann birtist þeim í áhorfandahópnum. Lokasöngurinn er þetta mikilúðlega en grínaktuga ættjarðarkvæði::

Dagurinn rís uppúr dumbrauðu hafinu,
dregur upp kjóljakka, burstar af lafinu,
mundar svo sprotann og taktinn í telur hann
tóntegund, hraða og styrkleika velur hann.

[...]

Dátt syngur hlakkandi fuglinn í fjörunni,
fjörlega blístrar með lambið í pörunni.
Rís þá úr körinni eldgamla Ísafold
ættjarðarvinunum tekur að rísa hold.

Jöklarnir bresta við trumbuslátt tindanna
tóna i háloftum básúnur vindanna.
Öldurnar strengina þenja á ströndinni
stendur allt landið á gargandi öndinni.
Dimmradda velta fram fossarnir frussandi,
flauta fram lækirnir þversandi og krussandi,
hverirnir blása í trompet og túburnar,
tvíradda kór mynda gæsir og rjúpurnar.

Íslandi allt.

Íslandi allt. 

Söngurinn veldur í sjónvarpi truflunum,
svefndrukkin ris þá upp þjóðin úr mublunum,
lýkur upp eyrum og leggur við hlustirnar,
landvættahljómkviðan umvefur burstirnar.

[...]

Ó, Ísland, mitt ættland, ó, ævintýra’ eyjan mín,
okið mitt, gleði mín, brókin og treyjan mín,
fjallanna drottning, ó, föðurland, móðurland,
fósturjörð kappanna, systur- og bróðurland.
Þig vil ég dá jafnt um eilífð og alla tíð,
illa og góða tíð, heimska og snjalla tíð,
því daga og nætur er hugur minn hvíslandi:
Hjartað í brjósti þér tilheyrir Íslandi.

Íslandi allt.

Íslandi allt.

Ísland er best ískalt.

Vissulega skopstæling á ofsoðnum og hástemmdum stíl þjóðskáldanna. Vissulega fullt af hlálegu rími (Ísafold/rísahold) og kostulegum myndum (stendur allt landið á gargandi öndinni), vissulega með krassandi samslætti gamallar stemmingar og nútímalífshátta. Vissulega með „pönsi“ í lokin. En samt ekki endilega óeinlægt sem ástarjátning.

Karl Ágúst stígur síðan stórt skref út úr grínaktugheitunum með öðru ekki ósvipuðu ættjarðarljóði í nýlegra revíukenndu verki, Í skugga Sveins, sem sýnt var í Gaflaraleikhúsinu árið 2018. Verkið segir nokkurnvegin sömu sögu og „þjóðarleikrit“ Matthíasar Jochumssonar, en með róttækum aðferðum trúðleiksins, afar fámennum leikhópi og með annað augað á sögu sjálfs verks þjóðskáldsins. Þar er að finna þetta kjarnmikla kvæði, lagt í munn titilpersónunni:

Ég er vindur sem hamast og næðir og ber utan bæinn
Ég er beljandi regn eða Iðandi hríð allan daginn
Ég er frostið sem bítur og bylurinn kaldi og dimmi
Ég er brimið sem ströndina lemur og veturinn grimmi
Og þið skræfur í byggðinni, skjálfandi þar sem þið standið
Skiljið það kannski um síðir að ég er landið

Ég er landið - harðbýla Ísland
Hrjóstruga Ísland – það er ég
Ég er landið – blóðþyrsta Ísland
Ég er landið

Ég er fjöllin og heiðarnar, árnar og ólgandi fljótið
Ég er egghvassir klettarnir, sandarnir, melarnir, grjótið
Ég er jökullinn voldugi, dynjandi flúðirnar, fossinn
Sú fósturjörð sem ykkur veita mun síðasta kossinn
Ég er beygurinn, skelfingin sjálf sem þið að ykkur andið
Óttinn Í svefni og vöku – því ég er landið

Ég er landið …

Hér er vissulega hnyttni sem gleður og léttir harðneskjulegan boðskapinn (ber utan bæinn/hríð allan daginn) en alvaran er alveg skýr. En það er líka alveg skýrt að hér er áfram kveðið í anda horfinna skálda, inn í gamla hefð sem ljóðið speglast í. Það er jafnvel enn ljósara í lokasöngsútgáfu ljóðsins, þar sem hinar björtu, hlýju og nærandi hliðar landsins eru vegsamaðar eftir að ástin hefur sigrað hatrið og Ásta í Dal og útilegudrengurinn Haraldur náð saman að lokum. Þetta er augljóslega sama skáldið og sá þjóðina rísa upp úr sófunum, slökkva á sjónvarpinu og vegsama þjóðina í Kaffileikhúsrevíunni tveimur áratugum áður.

Hefðin er eitthvað til að skopast með, snúa út úr, hvolfa við, eins og skopskáld allra tíma vita mæta vel. En hún er líka næringarríkur jarðvegur og bakhjarl fyrir alvarlegri hugsanir, sannar tilfinningar og leit að kjarna málsins. ‚Ej blot til lyst‘, eins og þeir segja í Konunglega danska leikhúsinu.

II

Langflest viðameiri leikverka Karls Ágústs eru úrvinnsluverk af einhverju tagi. Leikgerðir á borð við Gosa (Borgarleikhúsið 2009), Umhverfis jörðina á 80 dögum (Þjóðleikhúsið 2016) og Benedikt búálf (Leikfélag Akureyrar 2020). Önnur þar sem frjálslegar er farið með efniviðinn á borð við Góða dátann Svejk og Hasek vin hans (Gaflaraleikhúsið 2016), en þar er ævibrotum og persónu tékkneska skáldsins fléttað saman við leikræna hápunkta úr höfuðverki hans. Þá má nefna Fögru veröld, leikverk sem fléttað er saman við skáldskap Tómasar Guðmundssonar (Borgarleikhúsið 1996). Sama leikár er frumsýnt í Þjóðleikhúsinu skýrasta dæmið í verkefnaskrá Karls fyrir leiksvið um frumsmíð án auðsjáanlegs uppruna í öðrum verkum.

Ekki þar með sagt að Í hvítu myrkri sé án skyldmenna í leikritaskápnum. Nokkuð hreinræktað raunsæisdrama sem gerist á afmörkuðum tíma á einum stað og sækir dramatískan kraft annars vegar til drauga fortíðar sem persónurnar þurfa loksins að mæta, og hins vegar í fjötrana sem átthagarnir leggja á okkur og sannfæringuna um að grasið sé mögulega grænna annarsstaðar.

Leikritið er haganlega upp byggt og mjög skýrt dæmi um verk af sínu tagi. Athygli vekur að Karl Ágúst hefur stillt sig um reyna að skrifa drama „í eitt skipti fyrir öll“, eins og vill henda höfunda sem annaðhvort eru að skrifa sitt fyrsta verk eða að stíga skrefið úr hálfkæringi grínsins yfir í „alvöruna“. Segja allt sem hann hefur að segja í eitt skipti fyrir öll og greiða sýningargestum tilfinningalegt rothögg í leiðinni. Frekar mætti segja að hér sé stigið óþarflega varlega til jarðar. Við eigum t.d. meira krassandi myndir af sjávarþorpslífinu, sem jafnframt virka trúverðugri. Engu að síður vel smíðað verk þar sem óvissan og spennan yfir að vita hvað nákvæmlega gerðist í lífi persónanna, og leiddi þær þangað sem þær eru komnar, helst og magnast þar til höfundur afhjúpar það.

Annað viðamikið leikverk sem á öllu flóknari upprunasögu og snúnari ættartölu er Sól og Máni, söngleikur í kringum lög Sálarinnar hans Jóns míns, sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu árið 2003. Þar lágu aðalpersónur og söguþráður fyrir að einhverju leyti, enda sviðsverkið byggt á tveimur konseptplötum hljómsveitarinnar; „Logandi ljósi“ og „Öðrum mána“. Þar er fyrir miðju ástarsaga fallins engils og stúlku sem ekki kann að brosa, en heimsmynd verksins er tilbrigði við kristnar og jafnvel þjóðlegar hugmyndir um líf eftir dauðann og forsendur sögunnar eru af ætt vísindaskáldskapar. Vel má þó greina fingraför kímniskáldsins Karls Ágústs í spaugilegum samræðum englanna sem fást við að afgreiða sálir inn í eilífðina og viðbrögðum engilsins þegar hann tekur á sig mannlegt form með öllu sem því fylgir.

Annar nýlegur söngleikur er frá grunni eigin smíð Karls Ágústs, að þessu sinni í samstarfi við Þorvald Bjarna Þorvaldsson tónskáld, en þeir hafa mikið unnið saman að viðameiri sviðsverkum, einkum fyrir börn. Söngleikurinn Reimt var sýndur af leikfélagi Fjölbrautaskólans í Garðabæ 2020 og er mikil skemmtun aflestrar. Söguþráðurinn er farsakenndur og snýst um afskekkt sveitahótel sem tveir aldraðir grínistar kaupa til að eyða þar ævikvöldinu. Þegar í ljós kemur að þar þrífst ýmislegt af öðrum heimi breytist þetta kyrrláta afdrep í ábatasama túristagildru. Merkilegt má teljast að stóru leikhúsin hafi ekki tekið Reimt upp á arma sína, svo vel heppnuð blanda af hinu þjóðlega og því alþjóðlega sem verkið er, frumleg og fyndin, með skírskotanir í þjóðararfinn og helstu mál samtímans í búningi vinsælasta og alþýðlegasta leikhússformsins.

III

Frumsamin útgefin prósaverk Karls Ágústs Úlfssonar eru þrjú. Hvert úr sínum geira, mætti segja.

Árið 2014 gaf Karl Ágúst út í bókarformi útvarpspistla sem hann samdi og flutti meðan fjölskyldan bjó í Ohio og hann stundaði nám í leikritun. Þar lítur hann með skopauganu í eigin barm, skoðar eigin fordóma og klisjuhugmyndir um gestgjafana og Íslendinga.

Í Aþena, Ohio bregður Karl Ágúst sér í hlutverk erkiíslendingsins sem hefur gleypt allar klisjur um ágæti eigin lands, menningar og siða hráar og reynir af kappi að innleiða þær eða í það allraminnsta óskapast yfir þeim muni sem hann sér á sinni menningu og (ó)menningu nýja umhverfisins. Mataræði, samskiptahættir, hátíðisdagar, veður. Allt verður kverúlantinum að yrkisefni. Hann lætur eins og hann sé að skammast yfir hinum, en svo er það yfirleitt hann sem stendur afhjúpaður sem vitleysingurinn.

Innan um eru síðan pistlar um málefni líðandi stundar: skautadrottningarnar Nancy Kerrigan og Tonya Harding koma til sögunnar, svo ekki sé minnst á Roseanne Barr og Tom Arnold eða heimilisógæfu Clinton-hjónanna.

Og enn má segja að Karl Ágúst sé að skrifast á við eldra efni. Að þessu sinni stíl og hefð fréttaritara útvarpsins hér og hvar, fólks að spjalla um daginn og veginn á öldum ljósvakann. Gjarnan með það erindi að halda lífi í gömlum og góðum siðum, vegsama lífsgildi Íslendingsins. Hér er hrist góðlátlega upp í þeirri hefð.

„Hreinræktaður“ prósaskáldskapur birtist fyrst með smásagnasafninu Átta sár á samviskunni (2019). Þar eru eins og nafnið bendir til átta sögur, sem sumar höfðu birst áður í tímaritum. Sögurnar eru af ýmsu tagi en að mestu hugmynda- fremur en persónudrifnar. Flétta og vendingar ráða för og oft fyrst og fremst grunnhugmyndin sjálf, sem atburðarásin leiðir í ljós og þróar.

„Rósi bróðir“ segir frá bræðrum sem bera sinn fatlaða bróður Rósa á höndum sér og ná að gera fullgildan í veruleika hinna ófötluðu. Þetta tekst þeim svo vel að hvorki Rósi né bræðurnir gera sér grein fyrir takmörkunum sem fötlunin setur honum.

Viðamesta sagan er „Virgill fer línuvillt“ og gerist í leikhúsinu. Hefst að lokinni frumsýningu á leikgerð upprennandi listamanna á Guðdómlegum gleðileik Dantes. Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis og kemur ekki í ljós fyrr en liðið er á söguna að þar hefur gamall stórleikari ruglast í ríminu og óvart fellt úr stóran hluta verksins. Eftir að fengið sér fullmikið neðan í því ákveða aðstandendur sýningarinnar að taka hús á mikilvægasta og vandfýsnasta gagnrýnanda landsins og útskýra fyrir honum hvað kom fyrir, sem reynist bæði flóknara mál og örlagaríkara en reiknað var með. Hér deilir Karl Ágúst örlátlega með lesendum sínum insæi í heim leikhússins með nokku staðalmyndalegum persónum sem vafalaust er hægt að rekja til einstakra leikhússmanna fyrri tíðar, hafi einhver gaman af slíku.

„Abraham og Ísak í IKEA“ er eins og nafnið bendir til sviðsetning hinnar fornu goðsögu úr fyrstu Mósebók og snjöll tenging við hina aðeins yngri siðvenju að kveikja í jólahafrinum. „Trúnó“ er mögulega sagan með áhugaverðasta grunnhugmynd. Í henni bera ung hjón sig upp við sameiginlegan vin, í trúnaði, með áhyggjur af drykkjuvenjum makans, en bæði virðast þau hægt og hægt nálgast hættustig laumudrykkju. Í „Jólaplöttunum“ eignast bláfátæk systkini eignast smám saman jólaplattasafn Bing og Gröndal, og að lokum hefur safnið dramatískar afleiðingar fyrir bróðurinn.

„Verndarengill lagermanna“ er önnur afbragðssaga, þar sem ungur skiptinemi lætur bjarta framtíð á sviði æðri raungreina á hilluna þegar hann kynnist lagerstörfum og nær dulrænu sambandi við vörunúmerin fyrir tilstilli heilags Bartólómeusar frá Bykov, en píslarvætti hans tengist einmitt skráningu.

„Eftir Hermann“ er skýrasta dæmið um hreinræktaða skopsögu. Efnistökin minna á Þórarinn Eldjárn í upphafi síns smásagnahöfundarferils. Sviplaus stjórnmálamaður fær hjálp frá landsþekktri eftirhermu við að koma sér upp „hermanlegum“ sérkennum svo báðir njóta góðs af, þar til brandari grínistans heggur of nærri raunveruleikanum. „Svipur Donnu“ er síðan dularfull og opin saga um verðmætt „týnt“ listaverk efir Urbino, einn af aðstoðarmönnum Michaelangelos.

Sögurnar í safninu eru flestar skemmtilega opnar, byggja ekki á hnykk eða „pönsi“ þar sem endar eru gerðir snyrtilega upp, heldur halda þær áfram að blómgast í huga lesandans. Það sama má segja um skáldsöguna sem kom í framhaldinu.

Eldur í höfði (2021) segir frá ævi og órum Karls Magnúsar Jósebssonar sem hefur týnt sjálfum sér í þráhyggjukenndri leit að skynsemi í heiminum og samhengi hlutanna, og er vistaður á geðspítala. Karl Magnús sér vísbendingar um þetta samhengi ekki síst í stærðfræði og tónlist.  Allt frá dögum Pýþagórasar, sem meðal annars uppgötvaði hlutföllin sem búa að baki vestrænni tónfræði, hefur tíðkast að skilja hinn skynjanlega heim sem nokkurs konar birtingarmynd stærðfræðilögmála. Hugmyndir og heimsmynd Karls Magnúsar eiga sér upptakt, ef svo mætti segja, í smásögunni um verndardýrling lagermanna, þar sem vörunúmerin koma í stað veruleikans í huga og skynjun þeirra sem helga sig þeim af alvöru.

Sagan er að mestu fyrstu persónu frásögn Karls Magnúsar, og rödd hans setur sterkan svip á bókina. Stuttar setningar, þar sem lykilorð eru endurtekin til áréttingar, eins og nákvæmnismaðurinn vilji ekki að neitt fari á milli mála, vitandi sem er að tungumálið er ólíkt margræðari miðill fyrir hugmyndir en táknmál stærðfræðinnar:

Ég heiti Karl Magnús Jósebsson. Jósebsson með b-i. Faðir minn hét Joseb brúarsmiður. Hann hét ekki brúarsmiður, hann var það. Brúarsmiður. Hann byggði brúna yfir Hvítá. Bogabrúna. Hann byggði hana ekki einn, það var vinnuflokkur með honum. (11)

Heimur verkfræðinnar byggir á því að hægt sé að segja fyrir um gang mála í náttúrunni með hjálp stærðfræðinnar. Aðeins þannig fást fyrirbæri á borð við brýr staðist. En órólegt manneðlið lætur sér ekki nægja þá praktísku þekkingu, heldur vill skilja hin hinstu rök. Þangað leitar hugur Karls Magnúsar, og vísbendingarnar finnur hann allsstaðar. Ekki síst í tónlist Jósefs Strauss, sem Karl Magnús kynnist hjá móður sinni, þýskri tónlistarkonu sem giftist brúarsmiðnum drykkfellda og á óhamingjusama ævi á hinu tónhefta Íslandi.

Eldur í höfði er óvenjuleg skáldsaga sem nær djúpum tilfinningatökum. Þó hugleiðingar og heimsmynd Karls Magnús taki mikið pláss í textanum verða persónurnar lifandi, minningar Karls Magnúsar um námsárin og ástina njóta sín ekki síður en snjallar og heillandi pælingarnar um hlutföll og talnaspeki. Og þá heillandi þverstæðu að birtingarmynd geðveikinnar hjá Karli Magnúsi er trúin á að lögmál reglu og skynsemi starfi að baki óreiðunnar í heiminum. Að heimur skynjunar okkar hvíli á burðarvirki stærðfræðinnar, á traustum undirstöðum hreinnar rökvísi.

Sagan er fimlega spunnin úr staðreyndum (sögulegum, vísindalegum og stærðfræðilegum) og frumsköpun. Í umfjöllunum um hana bar nokkuð á að fólk furðaði sig á öruggum efnistökum og valdi höfundar á verkefninu í þessari „frumraun“ sinni. En það er auðvitað ekki svo ýkjalangt frá hermi- og útúrsnúningalist grínistans yfir í þá endurbyggingu sem allur skáldskapur er, jafnvel sá alvöruþrungnasti. Ljóst er að Karl Ágúst Úlfsson hefur vald á öllum þessum tóntegundum. Sem þarf ekki að koma neinum á óvart, svo handgenginn hann hefur verið textum í öllum formum allan sinn starfsferil. Allt tal um frumraun þegar höfundur með slíkan feril sendir frá sér skáldsögu er næsta fánýtt, sérstaklega þegar um svo augljóslega þroskað og fagmannlega byggt verk og Eld í höfði er að ræða.

Að baki öllum verkum Karls Ágústs Úlfssonar, frá fáfengilegasta Spaugstofuskets til einlægustu krufningar á órólegu sálarlífi, frá galgopalegasta orðaleik til dýpstu tjáningar, skynjar lesandinn og áhorfandinn skarpan huga. Drifinn áfram af þörf til að rannsaka, kryfja og greina mannlegt atferli og innra líf. Sérstaklega þá undirtegund sem kallast „Íslendingurinn“. Endurvinnsla og endurmat þekktra minna úr menningarsögunni er áberandi bæði í leik- og prósaverkunum og ljóst að þar er endalaust hráefni fyrir leitandi huga með lipran penna.
 

Þorgeir Tryggvason, september 2021