Farþeginn

Ár: 
2006
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Farþeginn

Leigubílstjórinn Arnar ekur farþega á nýjársdag. Farþeginn er svona dæmigerður íslenskur kaupsýslumaður sem maður kannast við úr ótal öðrum eldri skáldsögum. Hann er fullur, hegðar sér undarlega og lætur aka sér vítt og breitt um Reykjavík með viðkomu í kvikmyndahúsi. Ferðin endar á Þingvöllum þar sem voveiflegir atburðir eiga sér stað. Arnar liggur hálfpartinn undir grun um morð í fyrstu. Hann fer að rannsaka málið sjálfur og í ljós kemur að hann tengist því meira en halda mátti í upphafi.

Sagan gerist í Reykjavík og nánasta umhverfi. Fortíð og fjölskyldumál Arnars og farþegans hafa áhrif á atburði þá sem Arnar flækist í. Sögupersónur birtast úr eldri bókum höfundanna. Rannsóknarlögreglumaðurinn guðrækni, Haukur, kom við sögu í bókinni Í upphafi var morðið og Einar blaðamaður og Jóa ljósmyndari úr bókum Árna um þann fyrrnefnda eru hér á höttunum eftir fréttaefni. Arnar og Einar mata til dæmis hvor annan á upplýsingum.

Arnar segir söguna í fyrstu persónu. Lesandinn fær að vita það sem hann veit. Alls ekki meira en stundum minna því að hann er ekki alveg áreiðanlegur sögumaður framan af. Smám saman tengjast þræðir sögunnar og öll kurl koma til grafar eins og vera ber í glæpasögu.

Þetta er önnur bókin sem Árni Þórarinsson og Páll Pálsson skrifa saman. Sú fyrri var Í upphafi var morðið, spennandi saga með viðamikilli og kannski svolítið ótrúlegri fléttu. Þessi saga, Farþeginn, er styttri saga og snaggaralegri. Þetta er sannkallaður reyfari, spennandi glæpasaga með hraðri atburðarás, og nokkuð fyrirferðarmikilli ástarsögu. Hún tekur fljótt flugið og heldur lesanda föstum tökum mestallan tímann sem er ekki langur því að bókin er fljótlesin og svo spennandi að flestir hljóta að lesa hana í einum rykk. Helsti gallinn er of mikil fljótaskrift á bókinni, of mikil áhersla á snögga lausn gátunnar. Lesendur fá ekki að dvelja nógu lengi með sögunni til að öðlast verulega samlíðan með Arnari og Þóru, stúlkunni sem hann elskar, og öðrum persónum bókarinnar. Fjölskyldur beggja eru til að mynda áhugaverðar og kannski hefði maður viljað vita meira um föður Arnars, útgáfumál þeirra feðga og ýmislegt annað sem virkar áhugavert. En það er krafa um öðruvísi bók sem hefði orðið langdregnari og hugsanlega leiðinlegri.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2006