Fólkið í kjallaranum

Ár: 
2004
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Samúð

Uppar og hippar, börn og foreldrar, eru umfjöllunarefni Auðar Jónsdóttur í skáldsögunni Fólkið í kjallaranum. Hún hefur áður tekið á þessu efni, í fyrstu skáldsögu hennar, Stjórnlaus lukka, sagði frá unglingsstúlku sem bjó úti í sveit hjá móður sinni sem er ráðskona og ''fyrrum'' hippi. Átakamálin voru meðal annars hugsjónir og lífstíll 68 kynslóðarinnar, og segja má að hér taki Auður aftur upp þann þráð, en setur hann í annað samhengi (hnykil?) og tekur sterkari tökum.

Það er óttaleg klisja að segja þetta en Fólkið í kjallaranum er margslungin skáldsaga sem greip mig svo fast og snerti mig svo sterkt að ég hreinlega táraðist á stundum. Þetta er heilmikill munur frá fyrri sögum höfundar sem hafa einkennst frekar af fjarlægð en tilfinninganánd af þessu tagi. Enda fjallar sagan um samúð, samhygð, samlíðan – kóun eða meðvirkni væri líka hægt að kalla það, og á vissan hátt finnst mér Auður einmitt vera að fjalla um mörkin þarna á milli. Fólkið í kjallaranum gerist á einu kvöldi, eða einni nóttu; einhversstaðar miðsvæðis í Reykjavík heldur ungt par matarboð fyrir vinahjón sín. Inní þessa frásögn blandast svo hugsanir og upprifjanir ungu konunnar, Klöru, sem er aðalpersóna bókarinnar, myndlistarkona og sveimhugi mikill, uppalin utanbæjar af alkahólíseruðum menningarvitum 68 kynslóðarinnar. Á einhverju stigi málsins sneri hún blaðinu við, tók saman við Svenna sem er uppi á uppleið og ætlaði með því að tryggja sér öryggi. Í gegnum upprifjanirnar kynnumst við ekki bara foreldrum hennar, heldur einnig foreldrum þeirra (ein móðirin var ráðskona í sveit). Aðrar persónur eru æskuvinkonan Fjóla, systirin Embla, Svenni sjálfur og vinir hans. Og svo má auðvitað ekki gleyma fólkinu í kjallaranum, en þar býr nú einn maður, fremur sjúskaður hálfgerður utangarðsmaður sem heitir Barði. Ástkona hans, einnig nokkuð slörkuð, hafði framið sjálfsmorð í baðkarinu hjá honum nokkru fyrr.

Þetta er ekki auðveld saga að takast á við, þó vissulega sé hún fyndin og skemmtileg á köflum. Persóna Klöru er sárt haldin heimsósóma, hún er í raun einskonar píslarvottur sem tekur á sig þjáningar annarra, ekki bara fjölskyldunnar heldur heimsbyggðarinnar allrar. Þannig hefur hún stöðugar áhyggjur, hún er stöðugt annars hugar – að hafa áhyggjur af einhverju – í stöðugu innra samtali eða debatti við sjálfa sig. Þessi ofvaxna samúð er síðan það sem gerir hana bæði heillandi og erfiða. Það er ekki hún sem stofnar til matarboðsins, enda er hún, eins og ljóst má vera, fremur einræn. Svenni er hinsvegar félagslyndur, og það er líka hann sem sér um eldamennskuna eins og sönnum gestgjafa sæmir. Við sjáum strax að Klara er orðin vön að halda sér fyrir utan hringiðu atburða, hún er áhorfandi, pælari, hún situr úti á svölum þegar gestirnir koma og fer svo í bað. Þegar hún loks tekur þátt í boðinu hafa þræðirnir í lífi hennar þegar byrjað að losna og flækjast, foreldrarnir hringja, hífaðir, og hún getur ekki bandað þeim frá sér. Þetta á svo eftir að ágerast, símhringingar og heimsóknir frá fjölskyldumeðlimum sem tæta Klöru upp. Og alltaf inni á milli fáum við hugsanir hennar, greiningu á lífi og lífstíl foreldranna samhliða greiningu á eigin lífi og lífstíl, upprifjun á vinskap hennar og Fjólu og vangaveltur um það hvernig þær fjarlægðust, og svo er það auðvitað litla systirin sem á soninn sem Klöru langar svo klárlega að eignast – en systirin og vinkonan eru greinilegar hliðstæður. Syninum er hent inn á einhverju stigi málsins og mamman fer í partý. Meðan barnið er í baði að lesa Andrésblöð gluggar Klara í vísindatímarit og les um samlíðan dýra, hvernig simpansi sem sér mynd af öðrum geispandi byrjar sjálfur að geispa. Niðurstaðan er sú að þeir sem "smitast gjarnan af geispum eigi betra með að sýna hluttekningu og þekki sjálfa sig betur en aðrir" (221). Á meðan heldur matarboðið áfram, gestirnir dansa við diskótónlist og maðurinn í kjallaranum kvartar yfir hávaða.

Að mörgu leyti er sagan byggð upp eins og smásaga, að því leyti sem hún gerist öll á einu kvöldi og fókusar á innra líf aðalpersónunnar. Þetta form er flott og virkar vel fyrir Auði, stíllinn er sömuleiðis öruggur og öll er bygging og taktur svo þétt að hvergi er hnökra að sjá. Fyrri bækur höfundar sýndu að hér var eitthvað áhugavert á ferðinni, að hér væri komin ung kona sem fjallar óhikað um samtíma sinn, ófeimin við að taka á viðkvæmum málum. Með Fólkinu í kjallaranum hefur hún náð taki á stíl og formi sem tryggir henni sæti meðal okkar bestu ungu höfunda.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004