Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus

Höfundur umfjöllunar: 

Það lifir!

Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus er án vafa ein frægasta skáldsaga allra tíma. Höfundur hennar, Mary Shelley, var ekki nema nítján ára þegar bókin kom út árið 1818, en margir eignuðu hana þá eiginmanni hennar, skáldinu Percy Shelley. Rúmum áratug síðar, árið 1831, var sagan endurútgefin í endurskoðaðri mynd og það er sú útgáfa sem almennt er þekkt í dag.

Skáldsagan gerist síðla á átjándu öld og segir frá hinni svissnesku Frankenstein fjölskyldu. Barón Frankenstein er hjálpsamur maður og þegar hann fréttir af vini sínum í nauð þá drífur hann sig strax til hans, en áður en hann nær að aflétta nauðinni deyr maðurinn. Baróninn tekur unga dóttur hans að sér og giftist henni. Þau eignast saman tvo syni og taka í fóstur munaðarlausa stúlku. Með tíð og tíma fella eldri sonurinn, Viktor, og fósturdóttirin, Elísabeth, hugi saman. Elísabeth tekur illvíga sótt, en vegna linnulausrar hjúkrunar móðurinnar lifir hún af, móðirin tekur hinsvegar sóttina og deyr. Síðasta verk hennar var að sameina hendur fóstursystkinanna og þau ákveða að giftast. (Í upphaflegri útgáfu Shelley munu þau hafa verið hálfsystkin.) En fyrst fer Viktor til Ingolstadt í læknisnám. Fljótlega tekur nám hans á sig heldur óvenjulega mynd, því Viktor er upptekin af því að skapa líf. Kennarar hans gera gys að honum en ekkert fær stöðvað Viktor sem leggur nótt við dag við vinnu sína. Og eina nöturlega nótt í nóvember uppsker hann árangur erfiðis síns og hinn tilbúni maður vaknar til lífsins. En þegar hann opnar gulleit augun blöskrar Viktori ljótleiki verunnar og hann neyðist til að horfast í augu við athæfi sitt, sem er andstyggilegt bæði guði og mönnum.

Skrýmslið, sem aldrei er gefið nafn, þó það sé iðulega kallað nafni skapara síns, sleppur út. Síðan lýsir skáldsagan því hvernig óvættin kemst til sjálfsvitundar um sjálfa sig, sköpun sína og stöðu sína í mannlegu samfélagi. Gervimennið upplifir útskúfun og höfnun og reiðist skapara sínum svo að það ræðst á fjölskyldu hans og drepur yngri bróðurinn. Frankenstein leitar skrýmslið uppi til hefnda, en óvættin er honum yfirsterkari og fær hann til að lofa að skapa handa sér konu. Þegar Frankenstein er hálfnaður með verkið fallast honum hendur við tilhugsunina um að saman myndu þessi tvö skrýmsli eignast fleiri, og þannig yxi von bráðar upp nýtt kyn, sem yrði sterkara mannkyninu og myndi eyða því. Ekki ógnar honum síður sú hugmynd að kannski yrði konan alls ekki hrifin af tilætluðum maka sínum, sem er heldur ófrýnilegur, og sneri sér þess í stað að æðri fegurð mennskra karla. Við þessar tvær ægilegu tilhugsanir fallast Frankenstein hendur og hann sundrar hálfmótuðum líkama konunnar. Þetta gleður ekki skrýmslið sem hótar hefndum.

Það er ágætt að staðnæmast hér og ítreka þetta, því fyrir utan að kalla skrýmslið Frankenstein þá er þetta með kvenskrýmslið, ‘brúðurina’, algengasti ruglingur samtímans þegar kemur að skáldsögu Shelley. Því þótt Frankenstein skáldsögunnar og skáldkonan sjálf hafi hafnað sköpun kvenveru, þá hefur slík verið framleidd í hópum í kvikmyndunum á skáldsögunni, svo og í skáldsögum sem byggðar eru á henni og vísa til hennar (nýlegasta dæmið er þriggja bóka sería Dean Koontz, Frankenstein).

Utanum þessa sögu er sögð saga heimskautafarans Waltons sem ætlar sér að finna siglingaleið gegnum norðurheimskautið, árangurslaust, augljóslega. Þegar skip hans er fast í ísnum finnur hann Frankenstein, nær dauða en lífi, sem segir honum sögu sína. Inni í sögu Frankensteins er saga skrýmslisins, sem á ferðum sínum um Evrópu hittir fjölskyldu nokkra, sem hann dvelst hjá, að þeim óafvitandi, og inni í sögu hans, er saga þeirra. Þannig er skáldsagan samsett úr mörgum frásögum, líkt og líkami skrýmslisins er samsettur úr margvíslegum líkamsleifum manna og dýra.

Í frægum formála höfundar að endurskoðaðri endurútgáfu sögunnar frá árinu 1831 lýsir Shelley tilurð sögunnar. Bakgrunnurinn eru nokkrir dagar sem hún eyddi í Villa Diodati við Genfarvatn í félagi við eiginmann sinn, skáldið Percy Shelley, og annað frægt skáld, Lávarðinn Byron, auk annarra. Mary lýsir því hvernig rigningarveður ýtti þeim út í draugasögusamkeppni, en þrátt fyrir að hún hafi þá ekki samið neina, þá sé skáldsagan sprottin upp úr umræðum sem áttu sér stað meðan rigningin dundi á villunni; samræðum um eðli lífsins og vangaveltur möguleika þess að lífga dautt efni. Þetta voru málefni sem voru mjög til umræðu á þessum tíma og rómantísku skáldin Byron og Shelley fylgdust vel með tækniþróun samtíma síns. Þessi rammasaga hefur einnig orðið uppspretta kvikmyndunar og afleiddra skáldsagna og hefur sem slík öðlast sjálfstætt líf, rétt eins og Frankenstein og skrýmsl hans. Réttmæti hennar hefur hinsvegar verið dregið í efa og hafa fræðimenn fært rök fyrir því að sagan sé meira eða minna rómantískur uppspuni Mary Shelley, í það minnsta mjög rósrauð minning. Hvernig sem það nú er þá er þessi formáli orðinn að órjúfanlegum hluta sögunnar, enn einn ramminn utan um hana og þarmeð viðbót í líkama ófreskjunnar.

Það er erfitt að leggja einhverskonar bókmenntalegt mat á skáldsögu af þessu tagi, sem hefur fyrir löngu hafið sig yfir allt slíkt. Ég man að þegar ég las söguna fyrst, þá fyrsta-árs nemi í bókmenntafræði, fannst mér hún afskaplega vond, stíllinn yfirdrifinn og æsingslegur. Þegar ég las hana svo aftur, fáum árum síðar, fannst mér hún hinsvegar afar góð. Að lesa hana nú, í égveitekkihvaðaskipti, í íslenskri þýðingu er því eins og að hitta góðan vin og taka upp þráðinn úr spjalli frá í gær. Ég fæ ekki betur séð en að þýðing Böðvars sé vel unnin, enda löng hefð hér fyrir þýðingum á því flúraða tungutaki sem Shelley beitir. Textinn er læsilegur og dramatíkin skilar sér vel, þó einhverju sé til slakað í harðasta orðagjálfrinu. Skrýmslið sjálft birtist svo í tréristum Lynd Ward frá árinu 1934, sem, þrátt fyrir að vera rúmri öld yngri en sagan, ná andrúmlofti hennar ágætlega, auk þess að minna skemmtilega á stíl expressíónískra kvikmynda.

Fyrir rúmum tíu árum var mér bent á að það þætti alls óviðeigandi að kalla menni Frankensteins alltaf neikvæðum nöfnum á borð við skrýmsli, óvætt eða ófreskju, að orð eins og ‘vera’ ætti þar betur við. Þetta viðhorf er í takt við áherslu margra aðdáenda skáldsögunnar að líta fyrst og fremst á hana sem heimspekilega vísindaskáldsögu en hafna hrollvekjuþáttum hennar. Þýðandi sögunnar, Böðvar Guðmundsson, nefnir í viðtali (Blaðið 24. október 2006) að mögulega hafi hrollvekjan eyðilagt fyrir hinum þáttum sögunnar, eins og til dæmis heimspekilega hlutanum. Hefðbundin stigveldisskipting á borð við þessa (hrollvekja er léleg, heimspeki góð) er skaðleg sögunni því þar er ekki tekist á við þá grundvallarspurningu sem hlýtur að vakna við lestur sögunnar, en hún er: Af hverju er sköpun ‘verunnar’ óhugnanleg? Ennfremur hlýtur lesandi að velta fyrir sér af hverju slík ‘vera’ virðist svo auðtengd hinu illa, þ.e. þrátt fyrir að læra ýmislegt gott um heiminn þá velur hún braut hins illa, líkt og slík leið liggi betur fyrir ‘verunni’. Þetta eru mikilvægar spurningar sem ekki má líta framhjá, en það er óhjákvæmilegt að tengja útkomu Frankenstein á íslensku, og endurnýjaðan áhugi á verkinu almennt, við það sem er að gerast í erfðavísindum og líftækni í dag.

Hina hrollvekjandi þætti má að einhverju leyti skýra með því að rekja rætur verksins til hinnar gyðinglegu goðsögu um góleminn, auk sögunnar um Faust, en báðar byggja þær sögur á hugmyndinni um að taka sér guðlegt vald og að slíkt sé af hinu illa. En hví skyldi þessi hugmynd halda áfram að vekja ógn, af hverju er skapnaður Frankensteins stöðugt tengdur hryllingi, þrátt fyrir að tímarnir hafi breyst og guð sé löngu lýstur dauður? Á miðri tuttugustu öld reyndi rithöfundurinn Isaac Asimov að sporna við þessum straumi og hóf ritun róbótasagna sinna sem ganga útá að það að búa til gervimenni þurfi ekki endilega að vera illt í sjálfu sér, en þrátt fyrir miklar vinsældir náði hugmyndin aldrei að festa rætur: Asimov sjálfur rekur endurkomu demóníseringar gervimennisins til skáldsögu og kvikmyndahandrits höfuðkeppinautar hans innan vísindaskáldskapar, Arthur C. Clarke, 2001: A Space Odyssey (1968). Þar brjálast gervigreind tölva með dramatískum afleiðingum.

Með tilliti til þessa, stöðu guðs og stöðu mannsins í ört breyttu (líf)tæknilandslagi er það ljóst að sem bókmenntaverk á Frankenstein ekki síður erindi við nútímann en sinn eigin samtíma og heldur áfram að bjóða lesanda uppá knýjandi spurningar jafnframt því að hrylla og trylla.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2006