Fyrir kvölddyrum

Höfundur: 
Ár: 
2006
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fyrir kvölddyrum

Það eru sannarlega stórtíðindi að ný ljóðabók eftir Hannes Pétursson hafi litið dagsins ljós. Síðasta ljóðabók Hannesar, Eldhylur, kom út árið 1993 en í millitíðinni hefur hann sent frá sér bækurnar Lauf súlnanna (1997), með þýðingum á ljóðum Friedrichs Hölderlin, og Birtubrigði daganna (2002) sem hefur að geyma stutta texta í lausu máli. Auk þess hefur heildarljóðasafn Hannesar tvívegis verið prentað á þessu tímabili. Óþarft er að fjölyrða um stöðu Hannesar í íslenskum bókmenntum, enda er höfundarverk hans samtvinnað þróun íslenskrar ljóðagerðar á síðari helmingi 20. aldar. Nýja bókin kallast Fyrir kvölddyrum og ég held að óhætt sé að fullyrða að hennar hafi verið beðið af mikilli eftirvæntingu síðan kvisaðist út að hennar væri von.

Ljóðin bera ekki sérstaka titla en í efnisyfirliti aftast í bókinni eru þau auðkennd með upphafslínum sínum. Fyrsta ljóðið slær á ýmsan hátt tóninn fyrir það sem fylgir í kjölfarið. Það má líta á þetta ljóð sem einskonar sviðsetningu fyrir ljóðin sem á eftir koma. Dregin er upp mynd af garði fyrir opnu hafi með litverpum trjám í birtu sem „er ekki beinlínis annarleg, þó / egghvöss“. Þarna eru líka bekkir sem ljóðmælandi og viðmælandi hans (eða viðmælendur) koma sér fyrir á:

[...]
En með því að okkur veittist heimild
til að halda kyrru fyrir í ró
á þessum garðbekkjum
og hjá þessum litverpu trjám

þennan dag, unz sól
sígur að fjöllum

þá skulum við förunautar
fagna þeirri bóngæzku
og skiptast eins og stundum endranær
á stökum spurningum
og fleiru
sem falla kann til, ef að vanda lætur.
(bls. 5)

Auk þess sem dregin er upp sviðsmynd fyrir þá samræðu sem í kjölfarið fylgir, er í þessu upphafsljóði skapaður ákveðinn tímarammi sem nemur einum degi „unz sól sígur að fjöllum“. Öll ljóð bókarinnar eru ort í fyrstu persónu fleirtölu á þennan hátt. Þetta „við“ vísar því ekki til þess að vitundarmiðja ljóðanna sé margsamsett, það er að segja að einhver fleirtala tali til lesandans. Ljóðin eru samræða þar sem ljóðmælandi vísar til sjálfs sín sem og viðmælanda síns (eða viðmælenda) með fyrstu persónu fleirtölunni. Það má jafnvel líta svo á að „við“ vísi til alls mannkyns, eða a.m.k. til Íslendinga eða vesturlandabúa. Um leið er þessu ávarpi beint á mjög afgerandi hátt til lesandans því ljóðmælandi ávarpar hann sem förunaut sinn og úr verður samræða. Því lestur er auðvitað samræða í þeim skilningi að þau orð sem lesandinn nemur af síðum bókarinnar vekja hugsanir og spurningar. Þetta á sannarlega við um orðin sem má nema af síðum þessarar bókar.

Gróflega má skipta ljóðum bókarinnar í tvennt. Annarsvegar ljóð sem vísa út fyrir þessa sviðsetningu sem upphafsljóðið dregur upp og hinsvegar ljóð sem vísa til smávægilegra atburða sem virðast eiga sér stað fyrir framan nefið á ljóðmælanda og viðmælanda hans þarna á garðbekkjunum:

Bjarma slær snöggt
á blikandi garðinn!

Sjá! þau tvö, ein saman
elskendurnir
ganga þarna ljósklædd hlið við hlið
og vefja hvort annað
öðrum handlegg sínum
en veifa hinum frjálslega frá sér í golunni.
[...]
(bls. 31)

Þau ljóð sem vísa út fyrir sviðsetninguna eru í flestum tilfellum kröftugri og beittari en hin. Þetta er þó ekki einhlítt, til dæmis má nefna ljóð sem hefst svona: „Takið eftir börnum / hjá tjörninni hérna sunnan við!“. Börnin nálgast skyndilega og stara svo í átt að „okkur“ orðlaus og grafkyrr og þá skyndilega víkkar sviðið:

[...]
Eitthvað sjá þau, lostin furðu.

Bjálkann?
Er bjálkinn svona greinilegur?
Skjagar hann út
úr augum okkar hvers um sig?
(bls. 45)

Náttúran hefur verið meðal helstu yrkisefna Hannesar Péturssonar allt frá upphafi ferils hans. Fyrir kvölddyrum býr því yfir mörgum sterkum náttúrumyndum eins og við var að búast. Þessar náttúrumyndir snúa samt flestar, á einn eða annan hátt, að manninum í náttúrunni eða að samskiptum mannsins við náttúruna:

Áttum við skilið í reynd
árvatnið kalt, tært sem rann
um hendur okkar á heiðarlöndunum grónu?

Vorum við sjálfir
samboðnir því?
[...]
(bls. 44)

Mörg ljóð þessarar bókar verða vart lesin öðruvísi en í tengslum við ýmislegt sem efst er á baugi nú um stundir. Þetta á ekki síst við um þau ljóð sem snúa að náttúrunni. Maður getur t.d. ekki annað en lesið ljóðið sem vísað er í hér að framan í samhengi við þá umræðu sem fram hefur farið undanfarin ár um umgengni okkar við náttúruna. Þarna er einfaldlega spurt hvort „við“ mannverurnar séum samboðnar náttúrunni, hvort við eigum skilið að njóta hennar. Ljóðið er ort í þátíð og það má hugsa sér að þátíðin hafi þá merkingu að eitthvað sé breytt í samtímanum, að miðað við það sem við höfum gert , höfum við í raun ekki átt skilið að njóta þá. Það er til marks um þá heildarhugsun sem einkennir bókina að þetta ljóð stendur á sömu opnu og ljóðið með börnunum sem vísað var til hér áðan. Bjálkinn sem ljóðmælandi telur að börnin sjái í augum okkar stendur því í beinu samhengi við fjallalækina sem hann veltir fyrir sér hvort við höfum í reynd verið þess verð að njóta.

Í bókinni koma líka fyrir fleiri yrkisefni en náttúran sem Hannes hefur áður fengist við með glæsibrag, því hún hefur líka að geyma ljóð sem fjalla um fortíðina og söguna í tengslum við nútímann. Sem dæmi má nefna ljóð sem vísar, á knappan og meitlaðan hátt, til sagna af írskum munkum og landnámi norrænna manna. Í ljóðinu er þessum tveim menningarheimum stillt upp andspænis hvor öðrum án þess að beinlínis sé minnst á átökin sem án efa urðu þegar menningarheimar heiðni og kristni rákust á:

Hafreknar súlur
úr sótugum eldskálum:
andlit guða, urin
af öldusjó og stormum

og krossholt
klukkuskörð, róðurgrundir ...

sú fortíð er ekki
fjarlæg neins staðar
[...]
(bls. 46)

Fyrir kvölddyrum er fáguð og hefðbundin módernísk ljóðabók, það má kannski segja að kveðskapur hennar beri merki ákveðinnar fullkomnunar þessháttar skáldskapar. Því ljóðin eru formviss, öguð, tálguð og knöpp, engu orði er ofaukið og hvert orð hefur vægi. Um leið er tungutakið á köflum óvænt, frjótt og skapandi. Í bókinni er að finna tilraun til að fjarlægja stirðnað ljóðmál sem e.t.v. á ekki erindi við samtímann. Ljóðmál sem að nokkru leyti einkennir einmitt hefðbundinn módernískan kveðskap:

Nú er þar komið! okkur væmir
við vissum ljóðorðum: blíðhúm...

Norðankæla, feyktu þessháttar
fúasilki
burt eins langt og þig lystir.
(bls. 26)

Í þessu felst skemmtileg írónía sem er þrátt fyrir það grafalvarleg fyrir skáldskap sem hefur raunverulega eitthvað að segja líkt og skáldskapur þessarar bókar. Í öðru ljóði, sem má setja í samhengi við þetta, minnist ljóðmælandi þess að einhvertíma lékum „við“ einir stef á lútuna „í indælum rjóðrum“ en bætir svo við:

[...] Kannski aðfinnsluvert eins og á stóð, nefnilega:

þær hugsjónir sem herrum jarðar þóknuðust og þóknast enn voru hlekkjaðar við herbúnað dag og nótt dag og nótt. Hvílíkur eiturkuldi, bruni og blik. (bls. 30)

Þannig er beinlínis tekist á við tungumál skáldskaparins og í þeim átökum má greina sjálfsgagnrýni og umfjöllun um skálskapariðkunina sjálfa, jafnvel má greina spurningar um tilgang skálskapar á tímum þegar hugsjónir valdamanna eru „hlekkjaðar við herbúnað dag og nótt“. Þótt ljóð bókarinnar séu hefðbundin, og í þeim skilningi tímalaus, eru þau í sama mund mjög samtímamiðuð. Hér hefur þegar verið minnst á umgengni mannsins við náttúruna og afstöðu til hörmunga stríðs og ofbeldis, en umfjöllunin um skáldskapinn sjálfan má einnig tengja við aðkallandi samtímamál.

Ljóðin í Fyrir kvölddyrum eru opin fyrir túlkun. Það er undir hverjum og einum lesanda komið að leggja út af þeim í hverja þá átt sem honum stendur næst. Hér hefur einkum verið bent á það samfélagslega sjónarhorn sem sum ljóðanna bjóða upp á, ég efast samt ekki um að einhverjir lesendur kjósi að líta þau ljóð allt öðrum augum. Í mínum huga er þetta verk samt afar beinskeytt varðandi aðkallandi samtímamál og í því er talað tæpitungulaust til „okkar“. Gagnrýnin kafnar ekki í skrúðmælgi eða torskildum líkingum þótt lesendur þurfi á köflum að leggja sig fram við lesturinn og hafa fyrir því að ráða í ljóðin og leggja merkingu í þau.

Ég hef að undanförnu velt því fyrir mér hvort hið fágaða móderníska ljóðform sé hugsanlega komið í svipað öngstræti og hefðbundinn rímaður og stuðlaður skáldskapur var kominn í undir miðja síðustu öld. Hvort þessi fágaði, formvissi, agaði og á stundum tormelti skáldskapur nái í raun að tjá samtímann? Ég hallast raunar enn að þeirri skoðun að þegar verst lætur sé slíkur skáldskapur trénaður og marklaus. Fyrir kvölddyrum hefur hinsvegar endurnýjað trú mína á möguleika þesskonar skáldskapar. Bókin sýnir hve kröftugur, beinskeyttur og áhrifaríkur hann getur verið þegar viðfangsefnin eru brennandi. Og jafnvel þótt þetta sé ef til vill ljóðlist sem er að renna sitt skeið á enda er hún áræðanlega undirstaða fyrir eitthvað nýtt, eins og dæmin raunar sanna.

Þótt einstök ljóð bókarinnar standi vel ein og sér er höfuðkostur hennar sá að hún er skýr fagurfræðileg heild. Í því samhengi skiptir fyrstu persónu fleirtalan miklu máli, en ekki síður það rými sem skapað er með upphafsljóðinu og lýst var hér í upphafi. Það rammar verkið inn með sterkri en einfaldri sviðsetningu sem heldur sér í gegnum bókina alla. Samræðan sem þar er boðað til eykur enn á þessa sterku heildarmynd. Þetta er bók sem er þess virði að melta lengi, lesa frá upphafi til enda og blaða svo áfram í. Maður er stöðugt að rekast á nýja hluti og nýjar tengingar innan verksins, ég hefði til að mynda getað farið í allt aðrar áttir í þessari umfjöllun, eytt meira púðri í þau viðfangsefni sem snúa að tímanum, skáldskapnum, sögunni og æviferli mannsins, svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir kvölddyrum er í stuttu máli sagt sannkallað listaverk sem fylgir manni áfram eftir að lestri lýkur og heldur uppi þægilegri en um leið krefjandi samræðu við lesandann. Ég hlakka raunar til þeirrar stundar þegar ég dreg þessa bók aftur fram einhvern daginn, tylli mér á garðbekkinn til að „skiptast eins og stundum endranær / á stökum spurningum / og fleiru / sem falla kann til, ef að vanda lætur“.

Ingi Björn Guðnason, desember 2006