Glæpurinn: ástarsaga

Ár: 
2013
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Ást og glæpsamlegt athæfi

Í nýjustu bók sinni, Glæpurinn, lýsir Árni Þórarinsson einum degi í lífi fjölskyldu sem árum saman hefur þurft að kljást við óskemmtilegt vandamál. Sagan greinir frá því á hve mismundandi hátt parið sem um ræðir hefur brugðist við þeim óvenjulegu aðstæðum sem þau hafa þurft að glíma við. Annað þeirra ákveður að fara eftir gildum samfélagsins, lögum og reglum; hitt hefði gjarnan viljað bjóða öllum siðvenjum birginn og hlýða tilfinningum sínum en fær ekki vilja sínum framgengt. Annað þeirra koðnar niður í einhvers konar lífsleiða og eftirsjá en heldur þó fast við ákvörðun sína; hitt verður alkóhólisma að bráð. Gefið er í skyn að sjúkdómur sá kunni að vera ættgengur eins og oft er raunin en gæti í þessu tilviki allt eins verið afleiðing áfalla, streitu og röskunar. Lýsingin á niðurlægingu þessarar manneskju er býsna mögnuð.

Á einmitt þessum degi sem um ræðir á dóttir þeirra hjóna átján ára afmæli. Hún hefur aldrei skilið hvers vegna foreldrar hennar skildu og komu henni fyrir hjá föðurömmu sinni. Henni var ætíð verulega illa við þá skipan mála. Á sínum tíma var talið að hún væri of ung til að skilja hvernig í hlutunum lá en meiningin var að hún fengi að vita allt á átjánda afmælisdegi sínum. Sá dagur er nú runninn upp. 

Það er að vísu eilítið undarlegt að þeir sem vissu og í hlut áttu skyldu aldrei hafa lætt því út úr sér við stúlkuna um hvað málið snerist, jafnvel óvart. En það er kannski smáatriði.

Undirtitill bókarinnar er ástarsaga. Vissulega er þetta ástarsaga, saga um stóra ást og ástfangið fólk sem lendir í miklum ógöngum. Höfundur veltir upp spurningum, býður lesendum að hugleiða málin og taka afstöðu. Hann segir ekki skoðun sína á hvað kunni að vera rétt eða rangt. Eigum við að taka afstöðu með ástinni eða með skráðum og óskráðum reglum samfélagsins, sem eru á skjön við vilja hjartans. Er rétt að ganga svo langt að brjóta lög til að fara eftir hjartans sannfæringu? Það er mikil óhamingja á þessum blaðsíðum. Hvers vegna verður saga af ást að harmsögu?

Frásögnin er skilmerkileg, hæfilega mikið látið uppi til að vekja forvitni um framhaldið, að hætti glæpasagnahöfunda. Að hætti slíkra höfunda er líka heldur ekki mikið skilið eftir handa ímyndunaraflinu, ekkert óljóst. Um miðja bók fá lesendur að vita um hvað málið snýst og eftir það viljum við vita hvernig allt fer. Titillinn á vel við bók sem einmitt er ekki glæpasaga þótt hún fjalli um einhvers konar glæpsamlegt athæfi. Að vísu kemur undirheimalýður aðeins við sögu en aðeins á hliðarlínunni.

Árni er orðinn bærilega vel sjóaður í að koma frá sér læsilegum bókum. Honum tekst að vanda vel upp í þessari stuttu sögu. Flestir munu eflaust lesa hana í einum rykk. Vel að verki staðið.

Ingvi Þór Kormáksson, október 2013