Götumálarinn

Ár: 
2011
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Flökkulíf

Í sögunni Götumálaranum segir Þórarinn Leifsson frá ævintýrum sínum á Spáni og í Marokkó þar sem hann bráðungur þvældist um og hafði í sig og á með betli og með því að mála myndir á gangstéttar og torg. Bókin skiptist í stutta, nokkuð hnitmiðaða kafla og í upphafi hvers kafla eru skemmtilegar myndir eftir höfundinn sem gefa tóninn fyrir það sem á eftir fylgir. Sagan er í nokkurs konar dagbókarformi og Þórarinn skrifar því sig hér inn í ýmsar hefðir, ferðabókina, vegabókina, og ‚líf-mitt-á-jaðri-samfélagsins-bókina‘, svona eins og þær sem hafa fylgt í kjölfar Down and Out in Paris and London eftir George Orwell.

Hann hleypir lesandanum inn í heim sem fæstir hafa aðgang að, þótt allir sjái hann. Veröld fólks á götunni er nefnilega svo bundin þessari mótsögn – hún er vel sýnileg öllum, en fáir sjá hana samt eða hafa aðgang að henni. Borgirnar á Spáni sem Þórarinn flakkar um eru miklar túristaborgir, t.d. Sevilla og Cádiz (sem af einhverjum ástæðum er ávallt nefnd með viðhenginu, Kádisborg), en geyma einnig mikla fátækt, sem er svo að sjálfsögðu enn skelfilegri í Marokkó. Fátæktin er þó ekki beinlínis umræðuefnið, þetta er ekki félagsleg eða pólitísk úttekt á vanda götufólks í Andalúsíu, heldur einmitt frekar ferðasaga; sögumaður er nokkurs konar túristi í heimi götunnar– og eins og túristi er hann kallaður eftir landi sínu, Íslendingurinn. Og það er kannski einmitt af því hann er túristi – viljandi heimilislaus, ungur flakkari í ævintýraleit – sem angistin og hörmungin sem getur fylgt þessu lífi er ekki í aðalhlutverki.

Bókin er miklu frekar eins konar skálkasaga (novela picaresca) þar sem sagt er frá ýmiss konar spaugilegum og á stundum hættulegum kringumstæðum sem okkar maður lendir í. Dregnar eru upp skemmtilegar myndir af fólkinu sem verður á vegi hans, ýmiss konar svindli og klækjum sem hann er beittur og tilviljanakenndum ákvörðunum um hvert skal haldið næst. Ávallt er eitthvert fyrirheitið land í augsýn, eins og Kanaríeyjar, sem hverfur svo sjónum þegar sveigt er af leið – oft fyrir einhvern misskilning, fávísi eða óheppni hjá okkar manni.

Annar þráður í bókinni er leit systur hans og móður að flakkaranum unga sem hefur ekkert látið í sér heyra um langa hríð. Þeirra ferðalagi er ekki síður lýst á spaugilegan hátt, því einnig þær taka ýmsar ófyrirséðar sveigjur og beygjur og virðast jafn háðar tilviljunum og heppni eins og sögumaðurinn.

Helsti kostur bókarinnar er frásagnargleðin, en ekki síður sá eiginleiki að sögumaður tekur sig mátulega alvarlega. Í ferða/vegabókum af þessu tagi er nefnilega sögumaður stundum í mikilli leit að sjálfum sér, merkingu í tilverunni eða einhverju slíku, sem getur orðið nokkuð uppskrúfað. Það kemur þó kannski nokkuð á óvart hversu áreynslulaust þetta ævintýri virðist hafa verið í þessari lýsingu, þótt það sé alls ekki laust við hættur og vissulega verður sögumaður hræddur við ýmsar aðstæður sem hann lendir í. Það er þó ekki fyrr en á síðustu síðunum þegar hann lýsir því að hann hafi gert aðra tilraun að þessu líferni seinna á lífsleiðinni og þá hafi þrotið úthald. Eins og vinur hans Sjan-Klot hafði varað hann við, var hann ekki lengur stikkfrí. „Allar hugsanlegar útgáfur af mannlegri eymd lögðust á mig eins og mara, þær drógu mig niður. Lömuðu mig“ (bls. 274). Og heim snýr hann þjakaður af næringarskorti, sem lesandi gleðst nokkuð yfir, því bækur um götuna verða ekki til fyrr en götufólk kemst í húsaskjól.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, janúar 2012