Hægt og hljótt til helvítis

hægt og hljótt til helvítis
Ár: 
2021
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Banvænir eftirskjálftar

Við látum stundum eins og við séum búin að bíta úr nálinni með efnahagshrunið 2008. Fórnarlömbin náð að sleikja mestu beiskjuna úr sárunum, einhverjir af sökudólgunum tekið út refsingu, þó mörgum finnist málagjöldin hafa verið í mildasta lagi. Og oftast nær tökum við því eins og hverju öðru kapítalísku hundsbiti að drjúgur hópur þeirra sem báru þyngsta ábyrgð eru enn að sligast – ekki undan henni heldur þeim digru sjóðum sem þrátt fyrir allt urðu eftir. Eða urðu til í þeim möguleikum sem rústir eftirhrunsáranna sköpuðu hinum útsjónarsömu og ófyrirleitnu.

Í hugleiðingum af þessu tagi er rétt að bora eftir eldsneytinu í bók Magnúsar Guðmundssonar, Hægt og hljótt til helvítis. Fyrri skáldsaga Magnúsar, Sigurvegarinn, kom út fyrir tuttugu árum, sem bendir til að siðfræðilegar og sálrænar hliðar græðgi og eigingirni nútímamannsins hafi fangað athygli hans vel fyrir hrun. Og nýja bókin hefst vissulega á lýsingu kjarnafjölskyldu þar sem heimilisfaðirinn predikar í sönnum nýfrjálshyggjuanda yfir börnum og guðhræddri eiginkonu milli þess sem hann tæmir hverja bjórflöskuna af annarri. En þetta er árið 1998 og næst fréttum við af predikaranum þar sem hann hefur fallið fyrir eigin hendi eftir að hafa misst allt sitt áratug síðar.

Hægt og hljótt til helvítis er ekki predikunarbók eða sálgreiningarrit, þó undir- og yfirtóna úr þeim áttum megi greina í textanum. Hér er á ferðinni sakamálasaga. Um flest nokkuð dæmigerður „skandíkrimmi“, og alveg ágætlega heppnaður sem slíkur.

Fjárfestirinn og athafnamaðurinn Gísli Þór, einn af ófyrirleitnustu sigurvegurum hrunsins, finnst myrtur í bílskúrnum við glæsihús sitt við Bergstaðastrætið. Skömmu síðar finnst lík náins samstarfsmanns hans og leitin að morðingjanum þrengist utan um framgang þeirra í viðskiptalífinu. Ljóst er að eitt af því sem þessa menn skorti ekki voru óvildarmenn, en þegar rannsóknarlögmanninum Aroni berast smáskilaboð um að það sé framgangur þeirra í loftslagsmálum sem hafi knúið morðingjann til verka beinist athygli lögregluteymisins í þá átt. Vanir krimmalesendur reikna líklega flestir með að þetta sé villljós. „Rauð síld“ eins og það er stundum kallað. En svo gæti líka verið að það sé einmitt verið að afvegaleiða vönu lesendurna og það sé einmitt þannig sem í öllu liggur.

Það er engum mögulegum lesendum greiði gerður með að rekja söguþráðinn til neinnar hlítar. Sá sem hér skrifar taldi sig snemma hafa komið auga á morðingjann og reyndist hafa rétt fyrir sér í þeirri ágiskun. Svoleiðis spillir vitaskuld lestraránægjunni eitthvað, en góðu heilli hefur bókin ýmislegt við sig sem bætir þau vonbrigði upp.

Persónusköpunin er prýðilegt verk hjá Magnúsi. Galleríið er dálítið stórt, lögguteymið telur að mér sýndist að minnsta kosti sex manns, og vitaskuld þarf slatta af misgrunsamlegu fólki í kringum fórnarlömbin. Flest þetta fólk er dregið skýrum dráttum. Lögreglumaðurinn Aron fær viðamestu lýsinguna og öðlast persónuleg sérkenni þó grunntýpan sé eins dæmigerð og frekast má verða: skapþungur, drumbslegur og vansvefta vinnualkaþurs. Ágætis tilbrigði við staðalmyndina er hve samband hans við konu sína virðist gott og heilbrigt, sem Magnúsi tekst að gera sannfærandi skil í örfáum setningum.

Almannatengslameistarinn Kristín Eva er líka skýrt mótuð og trúverðug persóna, með vonda samvisku eftir vinnu sína fyrir aflandsskúrkana. Magnúsi tekst engu að síður að gera lesandann henni hliðhollann og fær hann til að óska henni alls hins besta, en fljótlega vaknar grunur um að hún gæti verið á dauðalista morðingjans. Magnúsi er umhugað um að gera persónur sínar hvorki of svartar né of hvítar og ferst það að mestu vel úr hendi.

Óvirki alkóhólistinn í næsta húsi við fyrsta fórnarlamb morðingjans verður líka hugstæður, sérstaklega myndin af einsemd hans og stöðugu stríði við veikleikann með hjálp AA-funda. Það sækja reyndar ansi margar persónur sögunnar í að nota – og misnota – efni til að tryggja sér vellíðan, sálarró eða hreinlega svefn. Skandíkrimmaþunglyndið þjakar bæði seka og saklausa, eins og hefðin krefst. Annað sem þarf helst að hanga á spýtunni líka er samfélagslegt samhengi atburðarásarinnar og það er algerlega miðlægt í sögunni. Bæði hvað varðar hrunið og eftirskjálfta þess – við fylgjumst með ræðu Geir Haarde með fjölskyldunni sem nefnd var í upphafi – en COVID-19 faraldurinn og fall ferðamennskunnar kemur líka við sögu, sem og gosið í Geldingadölum.

Magnús dregur upp skýrar skyndimyndir af fyrirferðarminni aukapersónum. Tengdafaðir Gísla Þórs heitins er snyrtilega teiknaður auðhrokagikkur af gamla skólanum og kjarnyrtur trillukarl sprettur ljóslifandi fram í stuttu samtali við Aron. Almennt er texti bókarinnar góður. Sum samtöl eru þó ívið bóklegri en þau væru í raunheimum, nokkuð sem er frekar viðtekið á krimmasmíðadeildinni og Magnús fráleitt barnanna verstur hvað þetta varðar. Og vel til fundið og óvenjulegt að láta sálminn góða, “Heyr himna smiður”, skipta máli í fléttunni.

Nokkur smáatriði trufla smá. Það er ekki koltvísýringur (CO2) sem drepur þá sem starta bílum í loftþéttum bílskúrum heldur kolsýrlingur (CO). Og það er engin leið að skilja SMS morðingjans til Arons þannig að löggan eigi að gerast málpípa hans í loftslagsmálum. Nokkuð sem virðist á tímabili ætla að taka yfir atburðarásina en gerir það síðan góðu heilli ekki.

Hvorugt kemur þó alvarlega að sök. Hægt og hljótt til helvítis er ágætur krimmi. Vel stílaður og skemmtilega fléttaður, og ljóst að kjósi Magnús Guðmundsson að hasla sér þar völl með Aroni, Jóhönnu og félögum þeirra í rannsóknarlögreglunni er honum ekkert að vanbúnaði.

 

Þorgeir Tryggvason, nóvember 2021