Hafbókin: Eða listin að veiða risaháfisk á gúmmíbáti fyrir opnu hafi árið um kring

Hafbókin eftir Morten A. Strøksnes í þýðingu Höllu Kjartansdóttur
Ár: 
2016
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Marglitt haf og dimm djúp

Tebollinn minn er kínverskur og utan á honum siglir örsmá mannvera um blán sjó á litlum báti. Í fjarska er hátt fjall en í forgrunni lítið hús og ávaxtatré. Fyrir ofan tebollan gnæfir hákarlshaus á blýantsenda sem stingst upp úr krús. Þetta gæti verið mynd af söguþræði Hafbókarinnar eftir norska höfundinn Morten A. Strøksnes, utan að þar eru tveir menn á bátkænu og engin ávaxtatré í grennd. Tveir gamlir vinir ákveða að veiða risaháfisk, grænlandshákarl sem einnig nefnist hákerling. Þeir leggja upp í veiðitúrana frá húsi sem annar þeirra býr í og sigla um Vesturfjörð í Norður-Noregi, sem er umlukinn afar háum fjöllum. Farkosturinn er yfirleitt gúmmíbátur, en einu sinni leggja þeir upp á plastbát.

Einu sinni sat ég á hárgreiðslustofu og las bók meðan hárið á mér litaðist fagurblátt. Hvað ertu að lesa? spurði hárgreiðslunemi kurteislega. Gamla manninn og hafið svaraði ég, bók um aldraðan sjómann á litlum báti sem veiðir risastóran fisk. Og fjallar öll bókin um það? spurði drengurinn undrandi. Já, sagði ég, og svo það hvernig hann siglir til baka með risafiskinn í eftirdragi. Gamli maðurinn og hafið eftir Ernest Hemingway er stutt skáldsaga sem kom út árið 1952 og var þýdd á íslensku tveimur árum síðar. Hún er sú bók sem mér kom fyrst í hug þegar ég byrjaði að lesa Hafbók Mortens, en er hinsvegar hvergi nefnd. Kannski gleymdi höfundurinn sér í þeim gnægtum tilvísana sem finna má í bókinni, eða kannski vildi hann ekki líkja sér við gamlan mann.

Hafbókin er allavega þrefalt lengri en Gamli maðurinn og hafið og því enn furðulegra að söguþráðurinn sé ekki meiri. Þó er hún ekki jafnlöng og Moby Dick eftir Hermann Melville, sem er tæpri öld eldri en saga Hemingways, en hún segir líka frá manni og sjávardýri. Og Moby Dick kemur við sögu í Hafbók Mortens, svo og sagan bakvið hana – sem nýlega var kvikmynduð með þrumuguðnum Þór (Chris Hemsworth) í aðalhlutverki.

Hvað er þetta með karla og fiska?

Þýðandinn Halla Kjartansdóttir bendir á í eftirmála að hún hafi valið að nota orðið hákerling í staðinn fyrir hákarl í þýðingu sinni. Hákerling er bein þýðing á norska orðinu yfir hákarl, en finnst einnig sem „nóaorð eða feluorð“ yfir skepnuna á íslensku, en slík orð eru tilkomin vegna ótta við fyrirbærið (252). Og hún segir að þannig glatist „ekki mikilvæg kvenleg merkingarvídd í þýðingu á frásögn sem í grunninn fjallar um tvo karlmenn á hákerlingaveiðum“ (253). Ég styð ákvörðun Höllu eindregið, en þýðingin ber ennfremur merki mikillar fundvísi á sérstæð orð sem tengjast hafinu og sjómennsku og á þýðandinn mikið lof skilið fyrir það.

Því líkt og Moby Dick og Gamli maðurinn og hafið fjalla ekki ‚bara‘ um karla að fást við fiska, þá er Hafbókin ekki einungis saga af köllum og kellingu. Eins og titillinn gefur til kynna er hafið sjálft viðfangsefnið í öllum sínum margbreytilegu myndum. Strøksnes lýsir lífríki hafsins, bæði því sem vitað er um og því sem menn hafa ímyndað sér fyrr og nú. Þar er sjálf hákerlingin auðvitað mest áberandi, en einnig er sagt frá hvalfiskum og marglyttum, djúpsjávargróðri og svifi. Hann fjallar um tengsl hafs og lands, hafrekskenningar, strandir, eyjar, fjöll, grynni og djúp. Bókmenntir tengdar hafinu koma víða við, í bland við rannsóknir og vísindi og sögu sjómennsku á þessu svæði Noregs. Litir hafsins eru ræddir og hafið sem upphaf mannverunnar: fóstur eru í upphafi einskonar fiskar enda hófst allt þetta með því að eitthvert kvikindi skreið á land. Hafið er uppspretta lífs og lífgjafi, fóstra og vagga mannkyns. Og svo fjallar hann um mengun og súrnun hafsins og óhjákvæmilegar afleiðingar hennar. Sem eru eyðing alls lífs á jörðu, bara svo það sé á hreinu.

En auðvitað er bókin líka um karla að fiska, menn sem njóta þess að sanna karlmennsku sína með því að drolla á bát og njóta kyrrðar og næðis í félagi við bjór og viský, fjöll og öldur. Karla sem draga fiska upp úr hafdjúpunum og blóðga þá og fylla bátinn svo hann næstum sekkur. Og líkt og gamli maðurinn og Ahab skipstjóri eru þeir haldnir þráhyggju gagnvart bráð sinni, þeir ætla að veiða hafkerlingu.

Öllu þessu er fyrirkomið inni á milli lýsinga á veiðitúrunum, en þeir eru nokkrir og dreift yfir árið. Að auki felur hver veiðiferð í sér nokkrar atrennur, svo að við siglum reglulega fram og til baka frá höfn og út á fjörð. Fróðleiknum er svo haganlega smeygt inn þegar við á, eftir tilefni og stemningu. Þetta er því engin upptalning eða leiðindaromsa, þvert á móti er bókin bráðskemmtileg og fimlega saman sett.

Um þessar mundir er mikil umræða um mörk bókmennta og sögu (þá sérstaklega æviskrifa og sögulegra viðburða), meðal annars útfrá þeirri staðreynd að oft eru þessi skil óljós, rithöfundar hafa ýmiskonar fyrirmyndir (bæði Melville og Hemingway byggðu sín skáldverk á fyrirmyndum) og sjálf sagan er ekki einhöm, heldur sífellt í endurmótun eftir því hver skrifar, hvernig og hvenær. Þetta minnir Strøksnes reglulega á með því að vísa í fyrri tíma hugmyndir um hafið og lífríki þess og þá ýmist frá fornöld og miðöldum eða þær sem eru nokkurra áratuga gamlar. Þannig hafa á síðustu árum orðið frábærar uppgötvanir á dýraríki hafsins sem, eins og höfundur bendir á, sýna lífverur sem eru mun ævintýralegri en ímyndunarafl helstu skrýmslaáhugamanna fiskaði fram.

Hafbókin er því að hluta til einskonar fræðirit um hafið, menningarsögu þess og líffræði, bókmenntasögu og jarðfræði, trúarbragðasögu og áhrif mengunar. Sem slík er hún afskaplega skemmtilegt dæmi um skörun bókmennta og fræða, nokkuð sem allt of margir landamæraverðir vilja aðskilja, en hefur í raun alltaf verið til staðar. Að þessu leyti minnir hún á aðra bráðskemmtilega nýlega þýdda norræna skáldsögu, Flugnagildruna eftir Fredrik Sjöberg sem kom upphaflega út í Svíþjóð árið 2004. Sögumaður hennar er líffræðingur með sérstakan áhuga á flugum og þá sérstakri gerð flugna og samhliða því sem hann segir (frekar fábreytilega) sögu sína lýsir hann ýmsu því sem tengist skordýrasöfnun og flugnafræðum, með áherslu á sögu eins fræðimanns og flugnagildru sem sá hannaði.

Báðar bækurnar ættu í raun að vera kennslubækur í líffræði, sem og eina íslenska hliðstæða þeirra sem ég man eftir í augnablikinu, Vargatal Sigfúsar Bjartmars frá árinu 1998, en þar er einnig fjallað um dýr útfrá sjónarhóli veiðimanns.

Hafbókin flæðir þó yfir enn fleiri mörk, því hún er að hluta til sjálfsævisöguleg og ævisöguleg. Höfundur er sjálfur önnur persónanna en aðalpersónan er þó vinur hans sem á húsið við hafið og gúmmíbátinn. Hugo er listmálari en ættaður af sjómönnum. Strøksnes segir frá honum og kemur þar inn á listina og sögu staðarins. Loks fjallar hann um vináttu þeirra tveggja. Öllu minna er fjallað um konur þeirra. Metta, kona Hugos, kemur aðeins við sögu en kærasta Strøksnes sjálfs er fjarri þartil fóstrið í kviði hennar dúkkar upp.

Þetta kvenmannsleysi er, eins og þýðandi bendir á, athyglisvert og því mikilvægt að halda háfiskinum kvenkyns. Hafið sjálft er svo þekkt fyrir sínar kvenlegu hliðar, tengsl við móður og undirvitund í skilningi sálgreiningarinnar, tælandi konur í trúarbragðasögu og þjóðsögum og svo er það þetta með vöggu lífsins og allt það. Hin ‚kvenlega merkingarvídd‘ er því víðfem, eins og hafið, sem hinum norska Morten Strøksnes hefur tekist svona líka dáindisvel að fanga á bók.

Ég drakk í mig Hafbókina eins og fiskur á þurru landi, sökkti mér í allar hennar villur og völundarhús og naut hverrar ölduhreyfingar. Þó ég sé ekki karl þá hef ég alltaf verið heilluð af sambandi veiðimanns og bráðar og þegar þeim samskiptum er drekkt í hafsjó af skemmtilega framsettum fróðleik þá er auðvelt að stinga sér á kaf. Já, þó ég sé sjóveik þá er ég íbúi eyjar sem er umlukin hafi og tala tungumál sem gegnsýrt af myndlíkingum tengdu því. Helst grunar mig að þessi bók hafi verið skrifuð sérstaklega fyrir mig. Vel gæti ég þó trúað að fleirum þætti gaman af að lesa hana, jafnvel mörgum.

úlfhildur dagsdóttir, mars 2017