Hinir réttlátu

Hinir réttlátu
Ár: 
2013
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Hvalavinir og golfarar

Nú í nóvember var haldin glæpasagnahátíð í Reykjavík sem nefndist Iceland Noir. Þar komu fram bæði innlendir og erlendir höfundar og spjölluðu saman í pallborðsumræðum og lásu upp á upplestrarkvöldum. Þrátt fyrir að hátíðin hafi ekki verið skipulögð með miklum fyrirvara heppnaðist hún vel, var vel sótt, fjölbreytt og skemmtileg í alla staði. Á vissan hátt má segja að Iceland Noir hafi virkað sem staðfesting á íslensku glæpasögunni, mikilvægi hennar, vinsældum – bæði heima og heiman – og ekki síst fjölbreytni hennar, en höfundarnir sem þarna komu fram eru afar ólíkir. Það að sjá þá alla samankomna ítrekaði á skemmtilegan hátt hvað flóra íslensku glæpasögunnar er fjölbreytt, þrátt fyrir að hún eigi sér tiltölulega stutta sögu (allavega hvað varðar þessa síðustu vinsældabylgju).

Einn höfundanna sem þarna kom fram er Sólveig Pálsdóttir, en hún er nýliði á sviði glæpasögunnar. Í fyrra sendi hún frá sér Leikarann, áhugaverða sögu sem fjallar um morð á leikara í miðri kvikmyndaupptöku, og í vor kom frá henni nýr krimmi, Hinir réttlátu. Glæpasögur Sólveigar tilheyra hefð lögreglusögunnar, og í Hinum réttlátu hittum við aftur fyrir sama lögregluteymi og í fyrri bókinni. Þar ber hæst þau Guðgeir og Særós, en blóðslettusérfræðingurinn Andrés er einnig með. Í Leikaranum var Andrés mjög áberandi, en nú er það Særós sem fær meiri athygli.

Sagan hefst á því að Guðgeir er í golfi og bókstaflega gengur fram á lík af karlmanni. Staða líksins er mjög sviðsett og ýmsar undarlegar tilvísanir gera lítið til að skýra málið. Á sama tíma verður sprenging í hvalbát við Reykjavíkurhöfn, og stuttu síðar er tilkynnt um hópa ungmenna sem hafa hlekkjað sig fyrir framan nokkra veitingastaði í bænum, að því er virðist til að mótmæla hvalveiðum.

Hinn myrti reynist vera vel stæður viðskiptagaur, nýfráskilinn og afar gefinn fyrir veiðar. Hann á í ástarsambandi við konu sem er gift lögfræðingi, einum golffélaga Guðgeirs. Sá hafði lent í slysi sem ungur maður, en sprengja hafði sprungið framan í hann og skaddað andlit hans illa.

Eins og vera ber bendir ýmislegt til þess að málin séu tengd (á líkinu liggur til dæmis matseðill og hinn látni hafði átt hlut í veitingastöðum), og í ofanálag tengist hvalamálið Særósu persónulega, því yngri hálfsystir hennar er einn mótmælenda. Hún er eitthvað í vandræðum með sig, hætt í skóla og á leiðinni út á villugötur eiturlyfja og álíka vandræða. Særós reynir að koma henni aftur á beinu brautina, með hjálp bróður síns. Við fræðumst því í leiðinni heilmikið um Særós og bakgrunn hennar, en Særós er allsérstæð og hefur mikla þörf fyrir að hafa gott skipulag á hlutunum. Að mörgu leyti minnir hún dálítið á Sögu í dansk/sænsku sjónvarpsþáttunum Brúnni, án þess þó að vera jafnýkt. Mér fannst það líka athyglisvert að sjá nálgun Sólveig á átök um umhverfisverndarmál, en þau eru einnig til umfjöllunar í nýjustu þáttaseríu Brúarinnar, og eins og þar þá er ekki allt sem sýnist. Hér vil ég þó taka fram að ekki er um neina eftirhermu að ræða, frekar má sjá þetta sem gott dæmi um hvernig glæpasagnahöfundar nýta sér þau mál sem efst eru á baugi í samfélaginu og varpa á þau ljósi á áhugaverðan hátt.

Lausnin er svo nokkuð óvænt og hefði mögulega mátt vera aðeins betur undirbyggð, en það kemur ekki að sök því sagan í heild er liðlega skrifuð, persónurnar almennt skemmtilegar (ég hafði til dæmis mjög gaman af því hvað hin agaða Særós er viðkvæm fyrir myndarlegum mönnum), og vísanirnar í fyrri bókina hæfilega miklar; Hinir réttlátu er ekki bundin fyrri bókinni, en hlýtur að vekja forvitni á henni, fyrir þá sem hafa ekki fylgst með frá upphafi.

Glæpasagan er það svið bókmennta sem konur hafa hvað mest sótt í, og náð þar jafnmiklum – og jafnvel meiri – vinsældum en karlar, en hér á landi hefur borið minna á konum og meira á körlum. Fyrir utan Birgittu H. Halldórsdóttur sem ein hélt uppi merkjum hasarsagna hér í áratugi – og á einmitt 30 ára rithöfundarafmæli í ár – þá hafa karlkyns höfundar verið meira áberandi á íslenskum markaði. Yrsa Sigurðardóttir kom fram árið 2005 (og virðist hafa tekið við keflinu af Birgittu, því hún sendi síðast frá sér glæpasögu árið 2004) og árið 2009 gaf Lilja Sigurðardóttir úr sína fyrstu glæpasögu. Það er því sérlega ánægjulegt að fá fleiri konur inn á þetta sívinsæla bókmenntasvæði, og Sólveig hefur alla burði til að verða öflugur þátttakandi í íslenskri glæpaflóru.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2013