Höfuðlausn

Höfundur: 
Ár: 
2005
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Leiðin til Hamsun

Samkvæmt snöggri talningu sýnist mér þetta vera 11. prósaverk Ólafs Gunnarssonar fyrir fullorðna og það er augljóst strax á fyrstu síðunum að lesandinn er í öruggum höndum. Sagan segir frá Jakobi Ólafssyni bílstjóra með meiru sem kemst í vinnu við tökur á myndinni Saga borgarættarinnar sem tekin var á Íslandi árið 1919. Verkið styðst sem sagt að hluta við sögulega atburði og raunverulegar persónur, því hér flakka um sviðið ýmsir leikarar, sem flestir bera sín réttu nöfn, og leikstjórinn Gunnar Sommerfeldt og auðvitað höfundurinn Gunnar Gunnarsson. Í þannig verkum vill stundum brenna við að sögulega hliðin, rannsóknirnar sem liggja að baki verkinu, verði helst til plássfrek, því oft er sitthvað skemmtilegt sem kemur í ljós við slíkt grúsk sem erfitt er að sleppa úr, og aragrúi smáatriða getur hrannast upp. Sú er þó alls ekki raunin hér, því Ólafur fer geysilega vel með efnið – hann nýtir sér það til að búa til skáldsögu, frekar en í uppfræðsluskyni. Svo er einnig með tilvísanir í raunverulegar persónur – þær koma víða fyrir, en alltaf snerta þær á einhvern máta okkar mann beint, en eru ekki eins og álímdar eins og stundum vill brenna við. Höfundinum tekst engu að síður að fræða mann um allskonar hluti svona í leiðinni og skapa úr þessu efni sterkan bakgrunn og lifandi andrúmsloft sögunnar.

Það skiptast á tveir sögumenn í verkinu, Jakob annars vegar og í seinni hlutanum, ástin hans Ásthildur. Þessi skipting tekst mjög vel – raddirnar eru keimlíkar en þó er á þeim nægur munur til aðgreiningar. Rödd Jakobs er skemmtilega naíf sérstaklega í byrjun, hann hleypur með okkur um frásögnina, kvikmyndaævintýri hans líður á fjörugum spretti, æskuárin eru tekin saman í einn afgerandi atburð og lýsingar á samböndum hans við konur á mörkum játningastíls og feluleiks. Ljóðrænir sprettir í köflum Ásthildar sem lýsa veikindum hennar eru einkar vel gerðir og draga lesandann inn í heim þjáningar og örvæntingar.

Þetta er líka skáldsaga um skáldskap, vísanir í bókmenntir má finna í mörgum lögum bókarinnar og 19. aldar skáldskaparhefð er fyrirferðarmikil. Sem fyrr er vel farið með þetta efni, svo úr verða margháttaðar og snjallar pælingar um skáldskap. Skáldskapurinn er hér að sumu leyti settur fram sem okkar vörn gegn dauðanum, og Jakob segir á einum stað að hann vilji með skrifum sínum „reisa fólkinu [s]ínu minnisvarða“ (bls. 146). Skáldskapurinn getur þá ekki einungis bjargað lífi höfundarins (sbr. titilinn), hann vekur til lífsins horfið fólk. En skáldskapurinn og þá ekki síst skáldskapardraumar eru líka varasamir og jafnvel tortímandi.

Höfuðlausn er skemmtilega margþætt verk, það er meðal annars ástarsaga, aldarfarslýsing, skáldsaga um skáldskap og söguleg skáldsaga. Allir þessir þættir koma saman í grípandi frásögn sem veður þó ekki áfram með bægslagangi, yfirkeyrðri dramatík eða útbelgdum vísdómi, heldur læðist að lesandanum og stelur honum um stund.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.