Kaldakol

Kaldakol
Ár: 
2017
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Kaldakol

Klukkan átta var siglt af stað frá höfnum út um allt land með rúmlega átta þúsund farþega. Þetta var bara byrjunin, stanslausir flutningar áttu sér stað allan sólarhringinn næstu daga og vikur.

Rýming Íslands var hafin. (9)

Skáldsagan Kaldakol eftir Þórarin Leifsson hefst á æsilegri atburðarás. Yfirvofandi eldgos ógnar öryggi allra á höfuðborgarsvæðinu og svefndrukknir landsmenn þurfa að horfast í augu við stærstu rýmingaráætlun sögunnar. Þökk sé vel undirbúnum almannavörnum og velviljuðum nágrannaþjóðum tekst að flytja flest alla af klakanum og yfir á tómt vallarsvæði Tempelhofs flugvallarins í Berlín. En ekki er allt sem sýnist og ýmsar flækjur í stöðunni. Við fylgjumst með Kötlu Rán, sem er ráðin til starfa sem fjölmiðlafulltrúi verkefnisins, og ferðalagi hennar frá Íslandi til Berlínar, úr kulnuðu sambandi og óspennandi starfi í nýjar áskoranir.

Þórarinn Leifsson er meðal annars þekktur sem myndlistamaður, barnabóka- og pistlahöfundur. Kaldakol er önnur skáldsaga Þórarins á eftir Götumálaranum (2011) sem er sjálfsævisögulegt verk og fjallar um reynslu höfundar af ferðalögum um Evrópu og Norður-Afríku.

Tempelhof flugvöllurinn í Berlín er eitt af aðalsmerkjum þriðja ríkisins. Hann var lagður af þar sem ekki þótti lengur hentugt að hafa flugvöll inni í miðri borg. Í kjölfarið hefur verið deilt um hvað skuli verða af þessu landflæmi á besta stað í Berlín og þeim sögufrægu byggingum sem fylgja því. Nú síðast hefur hann verið nýttur til þess að taka á móti flóttamönnum frá  Sýrlandi. Það er því freistandi að sjá fyrir sér sögu sem snúi dæminu á hvolf, láti Vesturlandabúa finna fyrir þeirri reynslu að vera flóttamenn og reyni þannig að mýkja afstöðu þeirra til þessa hóps. Það er klassískt ádeiluform að setja aðstæður fram með öfugum formerkjum til þess að leyfa lesendum að draga lærdóm af viðsnúnum heimi og ekki laust við að sum umfjöllun um Kaldakol hafi gefið til kynna að hún væri slíkt verk. En það er langt frá því að vera erindi höfundar í þessari bók. Þó honum sé örugglega vel til flóttamanna þá kemur reynsla fólks á flótta í raun furðu lítið við sögu í verkinu. Enda er þema sögunnar sjálfsskoðun af allt öðrum toga.

Verkið rannsakar meðal annars það flókna fyrirbæri sem 80-90% samstaða Íslendinga er, hvort sem það er 90% áhorf á söngvakeppnina, 90% mæting í stórmarkaði, tæplega 80% fylgi samsteypustjórnar eða sú staðreynd að við sem þjóð treystum á hvort annað í þeim harmförum sem geta brostið fyrirvaralaust á okkur.  

Svo samrýmd menning er vandfundin í hinum vestræna heimi, þar sem flestum þjóðum er hólfað niður í óteljandi menningarhópa. Í Kaldakolum fylgjum við þessum samstöðu-kúltúr út í ystu öfgar, í bæði neikvæðum og jákvæðum skilningi. Íslenska þjóðin snýr bökum saman en missir líka sjónar af því sem gerist fyrir framan nefið á henni.

Bókin er frábærlega vel skrifuð ádeila og sker sig úr með því hversu laus hún er við hroka og reiði. Höfundarröddin  bæði hlý og einlæg og pennanum er beint jafn hart að öllum stéttum og starfshópum og virðist knúin áfram af forvitni frekar en dómhörku. Svona lýsir höfundur útrás íslenskra listamanna til Berlínar:

Þessir viðburðir löðuðu að alls konar lukkuriddara frá Reykjavík; virðulegir rithöfundar sem höfðu lapið dauðann úr skel árum saman á listamannalaunum endurfæddust sem sendiherrar sögueyju á hjara veraldar. Þungbúin ljóðskáld breyttust í skellihlæjandi uppistandara í bjórgörðum Berlinar þar sem nýjustu íþróttaafrekum þjóðarinnar var varpað á risaskjái. (105)

Þó að kápan sé vel gerð og nafn bókarinnar tengist sögunni beint þá gefur hvort tveggja til kynna að um sé að ræða frekar drungalega bók. Það er líka tilfellið að einhverju leyti, því sú mynd sem teiknuð er upp af íslenskri þjóð og mannskepnunni er ekki beint til fyrirmyndar. En þetta ytra yfirbragð gefur engan veginn til kynna hversu drepfyndin sagan er. Eins og til að mynda í lýsingum á þeirri þjóðhátíð sem haldin er til þess að fagna komunni til Berlínar: „sá hún hvar krullhærður fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur tók þátt í nokkurs konar leiksýningu með Íslenska dansflokknum sem smám saman fékk á sig erótískt yfirbragð þegar birtan féll á nakta líkamana sem iðuðu í kös á breiðu sviðinu.“ Og hátíðinni lýkur auðvitað með því að Bubbi og Megas koma fram saman á sögulegum tónleikum.

Allt er þetta auðvitað fyndið á sama hátt og vel heppnað áramótaskaup, þar sem maður hlær meðvitaður um það að þetta gæti allt eins verið fréttaannáll. Þórarni Leifssyni tekst meistaralega að láta absúrd hugmynd vaxa inn í íslenskan raunveruleika þangað til að hún verður ósköp hversdagsleg. Sagan er mjög myndræn og líður áfram á svipaðan hátt og myndasaga. Það er engin vafi að hér er á ferðinni höfundur sem þekkir sitt fólk. En lesendur finna líka fyrir því hversu vel Þórarinn þekkir króka og kima Evrópu, og hvernig hann lýsir mólótovkokteilboðum, dönskum listfræðingum og íslenskri kauphegðun jafnvel, og hefur lag á því að láta þessa heima mætast. Berlínarbúar geta fylgst með íslensku nýlendunni í gegnum gler og í fyrstu setur óhug að þeim þegar þeir sjá Íslendingana ganga fram og aftur ýtandi þungum kerrum á undan sér. Þetta minnir á þrælkun, en þá segir einhver: „ „Þau eru bara að versla!“ og þá varð öllum ljóst að Íslendingarnir voru bara að ýta ósköp venjulegum innkaupakerrum á undan sér.“ (225)

Fléttan í verkinu er sæmileg. Hún verður þó nokkuð fyrirsjáanleg, hér er engin framvinduslaufa á mælikvarða Hollywood. Enda færi það verkinu illa; lesandi er leiddur áfram af áhuga á framvindu og skemmtilegum lýsingum en ekki teymdur í gegnum verkið í örvæntingu til þess eins að komast að því hvernig dæmið gengur upp.  Þessi framsetning hentar verkinu því ákaflega vel og styrkir þá einlægni og ró sem yfir því vakir.

Rósa María Hjörvar, desember 2017