Klettaborgin

klettaborgin
Ár: 
2020
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Persónur og leikendur - sagnaheimur Sólveigar Pálsdóttur

Miðað við allan óhugnaðinn sem þau eiga við í starfi sínu þá er merkilegt hve mikinn léttleika og gleði má finna á meðal aðalpersónanna í glæpasögum Sólveigar Pálsdóttur um rannsóknarlögreglumanninn Guðgeir og samstarfsfólk hans. Deildin sem Guðgeir stýrir innan lögreglunnar kemur fyrir sem heldur týpískur vinnustaður, með fastmótaðar rútínur, skrifstofuskvaldur og vinnustaðabrandara. Ljóst er að mikil væntumþykja ríkir á milli Guðgeirs og kollega hans; hins luralega Andrésar, norðlensku skellibjöllunnar Guðrúnar og agaða sjálfshjálpar-sénísins Særósar. Þau bera virðingu og traust til hvors annars og vinna vel saman. Þannig er lítið um þá árekstra sem algengt er að finna í glæpasögum sem hverfast um löggur, þar sem úrillir einfarar skeyta lítið um fyrirmæli yfirboðara sinna og fara sínar eigin. Guðgeir er því langt frá því að vera einn um sviðið í bókunum, þótt hann stýri yfirleitt rannsókn málanna. Líkt og í bókum Sjöwall og Wahlöö um lögreglufulltrúann Martin Beck, sem ætíð bjó að góðu og traustu samstarfsfólki sem lét til sín taka í bókunum og átti oft jafnan hlut í úrlausn gátunnar, er styrkleiki Guðgeirs falinn í því trausti sem hann ber til undirmanna sinna og hæfni þeirra fjögurra til að vinna saman sem ein liðsheild og styðja hvort annað þegar á reynir. Öll búa þau að ríkulegri baksögu og skýrmótuðu lífi utan vinnustaðarins. Þau eiga sína tilvist á milli bóka og tilfinninga- og heimilislíf þeirra þróast og breytist eftir því sem líður á seríuna. Þetta stækkar sagnaheim Sólveigar umtalsvert og gerir það að verkum að við útgáfu nýrrar bókar hefur lesandi jafn mikinn áhuga á því hvað sé að frétta hjá fjórmenningunum og úrlausn ráðgátunnar.

Við þessi skrif hefur Sólveig nýverið sent frá sér sína fyrstu minningabók, sem rifjar upp æskuár hennar í sveit í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu og skólaár hennar í Melaskóla og í Leiklistarskólanum. Fyrir utan að vera hugljúf viðbót við þetta gamalgróna, íslenska sagnaform veitir sú saga einnig skemmtilega innsýn í bakgrunn og áhrifavalda hennar sem glæpasöguhöfundar. Þar má finna ýmiskonar sviðsmyndir og persónur úr æsku höfundar sem veitt hafa henni innblástur og hún hefur fært í nýjan og stundum skelfilegri búning í glæpasögum sínum.

LEIKARINN (2012)

Í sinni fyrstu bók, Leikaranum, sem kom út hjá Forlaginu, nýtir Sólveig óþekkta stöðu sína sem nýr höfundur til að koma lesendum á óvart og leika rækilega á væntingar þeirra. Þannig gerir kvikt sjónarhorn bókarinnar það að verkum að oft er hreinlega erfitt að átta sig á því hver sé í aðalhlutverki. Bókin á í raun margt sameiginlegt með morðgátum á borð við Morðið á Roger Ackroyd, þar sem Agatha Christie felur sjónarhornið í hendur vitnis í málinu frekar en þess sem annast morðrannsóknina sjálfa.

Líkt og titillinn gefur til kynna gerist bókin í leiklistarheiminum, þar sem Sólveig er þaulkunnug en hún lauk fjögurra ára námi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1982 og vann lengi við leiklist. Í bókinni kynnumst við „propsaranum“ Öldu, sem í fyrstu virðist vera týpísk miðbæjarrós og ber mörg merki þess minnis sem bandaríski kvikmyndagagnrýnandinn Nathan Rabin kallar „hin maníska draumadís“ (e. manic pixie dream girl). Hún býr í lítilli en sjarmerandi risíbúð, vinnur í spennandi og skapandi starfi, er falleg, sjálfstæð, kynferðislega ævintýragjörn og býr yfir sjarma sem veldur fiðringi hjá nær öllum karlmönnunum í bókinni – sem sumir láta sig dreyma um að hún askvaði inn í líf þeirra og umturni öllu. Jafnvel Guðgeir sjálfur, hamingjusamlega giftur tveggja barna faðir úr Fossvoginum, er ekki alls ónæmur fyrir töfrum hennar, þegar hann stígur loks inn í söguna í þriðja kafla, eftir grunsamlegt dauðsfall á kvikmyndasettinu þar sem Alda vinnur. Einn dáðasti leikari þjóðarinnar hefur þar fallið í ómegin í miðri töku og allt ber þess merki að það hafi verið eitrað fyrir honum. Alda verður vitni að dauðateygjum stórstjörnunnar og er innan skamms komin djúpt í málið, þrátt fyrir að vera ekki hluti af lögregluteymi Guðgeirs. Er það ekki síst vegna áhrifanna sem hún hefur á Andrés, samstarfsmann Guðgeirs, sem fellur kylliflatur fyrir henni.

Við rannsókn málsins kemur eitt og annað misjafnt í ljós í fortíð og persónulegum högum Lárusar, leikarans feiga. Innan skamms eru Guðgeir og hans fólk komin á snoðir um klíku manna sem skiptast á ósiðsamlegu myndefni af börnum en eru þó engu nær um hver réði Lárusi bana. Þó virðist vera að Lárus sé ekki einn um að eiga sér vafasama fortíð. Eftir því sem líður á frásögnina tekur lesandi að velta fyrir sér hve vel hann þekki Öldu, sem í fyrstu virðist vera eiginleg aðalsöguhetja bókarinnar. Manísk eður ei, þá fellur hún mögulega undir annað heiti sem oft má heyra á vörum kvikmyndagagnrýnenda og á meira skylt við tálkvendi en draumadísir.

HINIR RÉTTLÁTU (2013)

Í annarri bók sinni, Hinum réttlátu, byggir Sólveig á þeim trausta grunni sem Leikarinn lagði niður. Á margan hátt er hér því á ferðinni mun fumlausari krimmi en Leikarinn, þar sem Sólveig þarf ekki að miðla eins miklum upplýsingum og áður um sjónarsvið bókarinnar og bakgrunn og aðstæður aðalsöguhetjanna – sem lesandi er strax farinn að líta á sem gamla kunningja. Að auki er hér haldið þéttar um sjónarhorn sögunnar. Sögusviðið er afmarkaðra og heldur sig að mestu við höfuðborgarsvæðið og nærliggjandi sveitarfélög á meðan rannsóknin í fyrri bókinni leiðir Guðgeir alla leið til Skotlands eftir tilvísan skyggnrar konu af Ströndunum sem hann leitar ráða hjá. Sólveig beitir fimlega þeirri gamalgrónu uppsetningu að bera á borð tvö glæpamál af ólíkum meiði sem síðan fléttast saman þegar líður á rannsóknina. Það er Guðgeir sjálfur sem er fyrstur á vettvang í fyrra málinu, þegar hann þarf að slútta hringnum í miðju golfmóti eftir að hafa rambað á lík kaupsýslumanns, sem hefur verið stillt upp á heldur furðulegan máta í einni glompunni. Á meðan þarf samstarfsfólk hans í Reykjavík að bregðast skjótt við þegar sprenging á sér stað í hvalveiðiskipi í höfninni, á sama tíma og ungir mótmælendur hlekkja sig fasta við veitingastaði í grenndinni sem bera á borð hvalkjöt.

Fyrir utan Guðgeir sjálfan þá er eitilharða lögreglukonan Særós í fyrirrúmi í frásögninni. Lesandi fær að skyggnast inn í baksögu hennar og erfitt uppeldi, sem skýrir áhuga hennar á markþjálfunarnámskeiðum og sjálfstyrkingarfrösum, enda neyddist hún ung til að hala sig ein og óstudd upp úr óreiðunni sem einkenndi æsku hennar. Þegar hún fær óvænt tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á unga stúlku, hálfsystur sína, sem virðist vera á sömu braut og aðrir í fjölskyldu hennar, neyðist Særós til að beisla fullkomnunaráráttu sína og slaka eilítið á þeim gífurlegu kröfum sem hún gerir til allra í kringum sig.

Það er til marks um hve mikið Sólveig leggur upp úr því að binda bækurnar í seríunni saman með yfirliggjandi þemum og plottpunktum að undir lok Hinna réttlátu stendur Guðgeir sjálfur á tímamótum. Hann hefur sig loks í að leita til læknis vegna krónísks verks í fætinum sem hefur fylgt honum frá því hann haltraði inn á sviðið í Leikaranum, og í ljós kemur krabbamein sem hefur tekið sér bólfestu við hnéð. Lýkur bókinni á því að Guðgeir sér fram á að verða frá vinnu um tíma á meðan hann leggst undir geisla- og lyfjameðferð til að vinna bug á meininu. Á þetta eftir að verða viðvarandi stef í seríunni, en í lok hverrar frásagnar standa fjórmenningarnir oftar en ekki frammi fyrir aðstæðum sem boða mikla erfiðleika framundan og breytingu á högum þeirra. Þannig leiða gjörðir og afdrif aðalpersónanna af sér afleiðingar sem hafa áhrif á næstu bækur. Sólveig gætir þess þó að hver bók geti einnig staðið undir sér sem sjálfstæð lesning og sé hæfilega fámál um það sem á undan hefur komið. Því er ekki endilega nauðsynlegt að lesa bækurnar í réttri röð – þótt auðvitað sé töluverð ánægja fólgin í því að fylgja línulegri framvindu seríunnar.

FLEKKLAUS (2015)

Í þriðju bók sinni um Guðgeir og félaga leggst Sólveig í tímaflakk, en bókin hefst á eins konar rammafrásögn sem gerist árið 1985. Þar segir frá unglingsstúlkunni Rúnu sem flýr af vettvangi ásamt strák sem hún er skotin í þegar upp kemur eldur á starfsmannaskemmtun í innflutningsfyrirtæki í Reykjavík þar sem þau bæði starfa. Ung kona deyr í brunanum. Rúna og ástarviðfangið komu að konunni stuttu áður en eldurinn breiddist út og á málið eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þau bæði, en sögu Rúnu er fylgt eftir með stuttum innskotsköflum í megin frásögninni. Þar hittum við Guðgeir, ennþá í veikindaleyfi frá starfi sínu hjá lögreglunni.

Á meðan Inga sækir ráðstefnu í Kaupmannahöfn hefur hann leitað hælis á krúttlegu sveitagistiheimili í sænsku Smálöndunum og er ætlunin að hann hvíli sig rækilega og safni kröftum áður en hann snýr aftur til starfa. Það mæðir mikið á Guðgeiri. Meðferðin hefur tekið á, bæði andlega og líkamlega. Hann er þó allur að koma til og finnur hvernig hann fyllist orku að nýju, ekki síst í návist eiganda gistiheimilisins, náttúrubarnsins Kirsten, sem hefur gætt hans með alúð á meðan á dvölinni stendur. Honum finnst hann hafa endurheimt fjöregg sitt og finnur fyrir einhverju óútskýranlegu aðdráttarafli gagnvart Kirsten. Sú orka leiðir hann út í að gera geigvænleg mistök sem eiga eftir að hafa afleiðingar sem bergmála í gegnum næstu bækur. Eins og oft vill vera í bókum Sólveigar reynist Kirsten þessi flagð undir fögru skinni.

Þegar Inga snýr aftur að sækja Guðgeir er Kirsten búinn að tilkynna honum skilyrði sín fyrir að þegja yfir þeirri stund sem þau áttu í herbergi hennar. Hún ber meira að segja á borð ljósmyndir af ástaratlotum þeirra sem hún hótar að sýna Ingu, fangaðar af bróður hennar sem einnig býr á gistiheimilinu, hinum daufdumba og fílsterka Jonasi. Þannig byrjar bókin á því að Guðgeir er kominn í heljarinnar siðferðislega klípu sem stofnar bæði fjölskyldulífi hans og stöðu hans hjá lögreglunni í hættu – auk þess að hann er þjakaður af skömm og eftirsjá fyrir að hafa svikið Ingu. Helst vill hann gleyma þessum hrikalegu mistökum og halda áfram með lífið en Kirsten er ekki á því að leyfa honum það heldur sendir bróður sinn til Íslands á eftir þeim.

Eftir því sem líður á bókina gerist ísinn undir Guðgeiri sífellt þynnri. Hann finnur sig ítrekað knúinn til að ljúga að og svíkja fjölskyldu sína og samstarfsfólk. Þótt Andrés reyni að að leiða breytingarnar í hegðun Guðgeirs hjá sér þá fer Særós fljótt að gruna að eitthvað sé ekki með feldu – ekki síst þegar hún hittir Jonas sem gerst hefur heimalningur í Fossvoginum.

Jonas þessi er einstaklega ógnvekjandi og óþægileg persónusköpun af hendi Sólveigar. Utan frá séð kemur hann fyrir sem saklaus einfeldningur en í þau fáu skipti sem lesanda er gert kleift að skyggnast inn í huga hans fyrirfinnst þar maður sem er jafn klókur og skæður og systir hans. Líkt og hún kann hann að fela sig undir meinleysislegu yfirborði og nýtir sér fordóma fólks og óöryggi gagnvart fötlun sinni til að fá sínu framgengt. Návist þessa einkennilega manns hangir yfir öllum samverustundum fjölskyldunnar og skapar hræðilega spennu á heimilinu – ekki síst þar sem Inga og börnin skilja lítið hvað hann sé að gera heima hjá þeim og hví Guðgeir sé svo ragur við að vísa honum á dyr. Að lokum þrýtur þolinmæði Kirstenar og hún fylgir á eftir bróður sínum til Íslands – með hræðilegum afleiðingum.

Það verður að teljast djarft af Sólveigu að taka aðalpersónu seríunnar, sem lesandi hefur nú fellt lag við í gegnum tvær bækur, og steypa honum í jafn mikla siðferðislega tvísýnu og hér er gert. Setur það í raun allt á skjön. Þannig fær hún eiginlegt tækifæri til að byrja seríuna að nýju, þar sem framferði Guðgeirs á eftir að leiða til þess að hann er fluttur til í starfi og samband fjórmenninganna mun aldrei verða það sama eftir voveiflega atburði í niðurlagi bókarinnar. Aftur er það þó samstarfsfólk Guðgeirs sem kemur honum til bjargar, þegar hann missir loks algjörlega stjórn á atburðarásinni og á sér engra kosta völ nema að játa brot sín.

REFURINN (2017)

Refurinn er fyrsta bók Sólveigar hjá Sölku útgáfu, og kveður hér við nýjan hljóm í höfundaverki hennar. Bókin gerist á Austfjörðum, þar sem Guðgeir er staddur í hálfgerðri útlegð; hefur tekið sér starf sem öryggisvörður á Höfn í Hornafirði á meðan hann er í leyfi frá störfum. Þar heldur hann sig til hlés, kvalinn af skömm, og reynir að gefa Ingu og börnunum það næði sem þau þurfa til að jafna sig á svikum hans og mögulega fyrirgefa honum. Bókin er tvískipt. Á meðan Guðgeir engist í sinni krísu kynnumst við einnig ungri konu, Sajee, innflytjanda frá Sri Lanka, sem fyrir svik endar á Höfn í Hornafirði þar sem hún taldi að sín biði starf og húsnæði. Frásögn hennar hefst mánuði áður en frásögn Guðgeirs, en eftir því sem líður á bókina taka ótengdar sögur þeirra að færast nær í tíma og rúmi, sem veldur stigvaxandi spennu við lesturinn.

Sajee neyðist til að þiggja fyrsta starfið sem stendur henni til boða. Ferðafélagi hennar, hinn sjarmerandi Þormóður, aumkar sig yfir hana og bíður henni atvinnu, en dyggir lesendur Sólveigar eru farnir að bera skynbragð á það að sjarmerandi fólki ber ekki að treysta í verkum hennar. Þannig endar Sajee sem ráðskona á bænum Bröttuskriðum í Lóni, einangraðri og harðbýlli jörð. Það sækir ugg að lesanda um leið og þangað er komið, ekki síst þegar heimilisfólkið er kynnt til sögunnar: hin viðskotailla og farlama Selma og einrænn sonur hennar, Ísak. Sajee sjálfa grunar að eitthvað misjafnt sé í gangi á bænum og á erfitt með að skilja tengingu Þormóðs við mæðginin og hví hann og Ísak verji svo miklum tíma í kjallara hússins, sem er ávallt læstur og með byrgt fyrir alla glugga. Ekki síst stafar henni ógn af klettaborginni bak við húsið og sögusögnum heimafólks á næsta bæ um grimmilegu álfkonu sem þar býr. Það er samt lítið sem hún getur gert, einangruð og háð mæðginunum og Þormóði um mat, farartæki og húsaskjól. Hún tekur að átta sig á að hún er í raun fangi þeirra, og innan skamms hætta mæðginin alfarið að fara dult með það. Á meðan, á Höfn, kviknar eðlisávísun rannsóknarlögreglumannsins að nýju í brjósti Guðgeirs, þegar hann tekur að spyrjast fyrir um ungu erlendu konuna sem birtist svo sviplega í bænum og virðist hafa horfið jafn snarlega, án þess að neinn sakni hennar.

Á meðan söguþráðurinn sem fylgir eftirgrennslunum Guðgeirs er á margan hátt unninn eins og venjuleg ráðgáta er frásögnin af raunum Sajee á Bröttuskriðum hálfgerð hrollvekja. Bærinn sjálfur fellur vel í þá hefð sem stundum er tengd við gotneskar skáldsögur frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þannig er bærinn eyðilegur og einangraður og ljóst er að heimilisfólk fer sínar eigin leiðir og skeytir lítið um siðmenninguna handan landamarka þeirra. Eftir því sem líður á frásögnina verður meðferð mæðginanna á Sajee – sérstaklega móðurinnar Selmu, sem virðist haldin geðveilu á háu stigi – sífellt ógeðfelldari og á köflum leiðist bókin eiginlega út í hálfgerða líkamshrollvekju (e. body horror). Þegar það gerist mynda kaflar Guðgeirs gott og jarðbundið mótvægi, sérstaklega þegar rannsóknin leiðir til Reykjavíkur, þar sem Særós, sem tekið hefur við stöðu Guðgeirs hjá lögreglunni á meðan hann er í leyfi, grennslast fyrir um sögu Sajee á Íslandi.

Það getur verið strembið fyrir íslenska höfunda að draga upp sannfærandi persónur úr röðum innflytjenda án þess að falla í afturhaldslegar staðalímyndir – sérstaklega þar sem íslenska bókmenntaflóru skortir sárlega fulltrúa úr þessum menningarhópi. Sólveigu tekst þó almennt vel upp með Sajee, sem er fullgild persóna í sögunni með eigin rödd og baksögu og kann, líkt og Jonas í Flekklaus, að nýta sér fordóma heimafólksins – sem gerir ráð fyrir að hún sé sljó og skilji ekki íslenskuna þeirra. Sólveig gefur sér auk þess góðan tíma til að ávarpa þær margþættu áskoranir sem innflytjendur og efnahagslegt flóttafólk stendur frammi fyrir á Íslandi. Í þessum efnum jaðrar við bókin við ádeilu, sérstaklega þegar Særós heimsækir fyrrum vinnustað Sajee í Reykjavík; ríkmannlegt, efristéttar heimili þar sem Sajee þreif ásamt frænku sinni en sá einnig um börnin og eldaði eða færði húsráðendum mat að heiman. Þar hittir Særós Ragnheiði, góðlátlega íslenska framakonu sem talar fjálglega um hvernig erlenda heimilishjálpin – sem hún borgaði svart – „gerði margfalt meira en þessar íslensku sem þrífa bara eftir einhverjum fáránlegum reglum og eru alltaf að flýta sér.“ Hún bætir bætir síðan við, allt að því afsakandi: „Ég veit ekki hvernig hún kom til landsins eða hvar hún bjó. Ef satt skal segja þá spurði ég hana aldrei út í hennar persónulegu mál“ (200).

FJÖTRAR (2019)

Eftir að hafa hrist ærlega upp í hlutunum í Flekklaus og hreinsað til á taflborði sínu í Refnum snýr Sólveig aftur til Reykjavíkur í sinni næstu bók, Fjötrum, sem er jafnframt hennar nýjasta bók um Guðgeir og samstarfsfólk hans í lögreglunni við þessi skrif. Það er ljóst að Sólveig, eins og Guðgeir sjálfur, hefur haft gott af útlegðinni á Austfjörðum, en Fjötrar hlaut Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, árið 2020. Hér finnum við Guðgeir í faðmi fjölskyldunnar. Hann er nýmættur aftur til starfa hjá lögreglunni, í lægri stöðu en áður. Særós hefur tekið við sem yfirmaður deildarinnar en Guðgeir kippir sér lítið upp við þá breyttu hagi og þau eiga í jafn farsælu samstarfi og áður. Til að losna við sárar minningar hafa þau Inga ákveðið að selja í Fossvoginum og byrja á ferskum grunni í nýlegri íbúðarblokk. Þar kynnist Guðgeir nágranna þeirra hjóna, áhrifavaldinum Andreu, sem leggur mikið upp úr útliti sínu og þeirri glamúr-ímynd sem hún sýnir heiminum í gegnum samfélagsmiðla. Á bak við þá grímu reynist þó óörugg ung kona með lítið sjálfstraust. Elsti bróðir hennar, Jóhannes, hvarf sporlaust í stóra skjálfta á 17. júní árið 2000, og hefur hún ekki enn gefið upp alla von um að hann finnist heill á húfi. Restin af fjölskyldu hennar er þó ekki jafn sannfærð og virðist einungis umhugað um sinn góða orðstír og hag fjölskyldufyrirtækisins.

Í óþökk fjölskyldu sinnar nauðar Andrea í Guðgeiri um þetta óleysta mannshvarf. Í fyrstu sér hann litla ástæðu til að blanda sér í málið en honum bregður þegar hann er kallaður á vettvang í fangelsið á Hólmsheiði, þar sem ung listakona með erfiða fortíð hefur framið sjálfsmorð, og sér á veggjum fangaklefans teikningar og málverk af manni sem er nauðalíkur þeim sem hann sá myndir af heima hjá Andreu. Þegar hann fer að kynna sér baksögu málsins kemur í ljós að Jóhannes átti sér myrka fortíð og hafði annan mann að geyma undir því fagra yfirborði sem blasir við á fjölskyldumyndum Andreu. Þrátt fyrir að sjálfsmorðið í fangelsinu virðist í fyrstu ekki vera saknæmt þá hefur hann rannsókn á málinu, með leyfi Særósar, og nýtur þar hjálpar Guðrúnar, samstarfskonu þeirra úr fyrstu bókum seríunnar, sem er snúin aftur að norðan eftir hjónaskilnað.

Í Fjötrum dembir Sólveig sér í erfið málefni sem hafa legið á þjóðarsálinni undanfarin ár. #MeToo-hreyfingin hefur valdið vitundarvakningu um þöggun og hylmingu yfir kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi, en bókin bendir á hve skammt sú vinna er komin með því að bregða upp mynd af veikri stöðu þolenda sem berjast við að fá að tjá sig um reynslu sína. Það getur verið mikil áskorun fyrir höfunda að skrifa um málefni sem er í slíkum brennidepli og hefur markað spor í lífi svo margra. Efni bókarinnar er á köflum einstaklega átakanlegt, svo að einhverjir myndu jafnvel spyrja hvort henni ætti að fylgja svokölluð „kveikjumerking“ (e. trigger warning) til að forða lesendum sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi frá því að hljóta váhrif af lestrinum.

Bókin fjallar nefnilega að hluta til um raðnauðgara sem gengur laus í Reykjavík og brýst inn til kvenna sem eru einar heima og brýtur á þeim með einstaklega yfirlögðum og skipulögðum hætti. Sólveig vinnur úr þessum erfiða efnisviði með næmni, forðast ítarlegar eða óþarfa lýsingar á ofbeldinu og einbeitir sér í staðinn að afleiðingum þess og eftirköstum fyrir þolendurna sjálfa. Hún beitir sterkri persónusköpun til að draga upp heildræna mynd af þolendum og sína þá í stærra samhengi en bara sem „fórnarlömb“ – jafnvel þegar þeim hefur verið neitað um úrlausn sinna mála og séð hinn seka og þá sem hylmt hafa yfir honum sleppa við að vera dregnir til saka. Þannig forðast hún einfeldningslegar túlkanir og endurspeglar veruleika þolenda, sem oftar en ekki horfa upp á gerendur ofbeldisins komast klaklaust hjá því að taka út refsingu sína.

KLETTABORGIN (2020)

Í ljósi óhugnaðarins sem finna má í Refnum kemur það á óvart að rekast á eitt og annað kunnuglegt inn á milli þeirra fögru orða sem Sólveig fer um Lónið og nærsveitir í minningabókinni Klettaborginni, nýjustu bók hennar um þessar mundir. Sem barn varði hún þar mörgum sumrum í góðu yfirlæti á bænum Hraunkoti. Ljóst er að við skrif Refsins hefur Sólveig nýtt vel þekkingu sína á aðstæðum og umhverfi til að draga fram einangrunina og ægilegt landslagið. Í Klettaborginni er þó ekki að finna nein illmenni eða hrylling heldur harðduglegt og kærleiksríkt fólk sem hugsaði vel um borgarbörnin sem þeim voru falin umsjón með. Sólveig hefur því lagt sig fram um að afmynda umhverfið og afmá fólkið sitt í þágu frásagnarinnar – eins og góðum glæpasagnahöfundi hæfir – en til öryggis er skýrt tekið fram á tileinkunarsíðu Refsins að bókin sé „skáldskapur frá upphafi til enda. Persónur og atburðir eru hugarfóstur höfundar.“ Er Refurinn eina bók Sólveigar sem ber slíkan fyrirvara. Þó kemur lýsingin á gömlu konunni af Ströndunum, „með grátt passíuhár, dökka bauga og greindarleg augu“ (Leikarinn, 169), sem Guðgeir leitar ráða hjá í fyrstu bók Sólveigar vel heim og saman við myndina sem dregin er upp af Guðlaugu á Hraunkoti, systur bóndans á bænum. Í minningum Sólveigar spáir hún fyrir um ýmsa hluti og „er þannig gerð að hún sér meira en aðrir“ (115), eins og móðir Sólveigar trúir henni fyrir þegar þær mæðgur hafa sig skyndilega af stað til Reykjavíkur að áeggjan Guðlaugar, skömmu fyrir fráfall afa Sólveigar, Ásgeirs Ásgeirsson forseta.

Kaflar bókarinnar eru stuttir og fljótlesnir og persónum og minningarbrotum er raðað saman í mynduga heild. Mikið af fjölskyldumyndum má finna í bókinni ásamt eftirprentunum af gömlum bréfum sem veita mikla innsýn í huga og persónuleika sendendanna. Tónninn sem Sólveig beitir til að fanga æskuár sín samanstendur af þeim sérstaka bræðingi sem inniheldur bæði rödd barnsins, sem í minningunni virðir fyrir sér fólkið og landslagið í fyrsta sinn, og rödd höfundarins sem horfir til baka í gegnum tímann og veit meira, skilur meira. Þannig fáum við að kynnast lífi Sólveigar á Hraunkoti, sem hefur verið mikil viðbrigði fyrir barnið eftir að hafa dvalist í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, þar sem faðir hennar var sendiráðunautur. Þar kynnist hún lífsbaráttunni og verður fyrir miklum áhrifum frá fólkinu í sveitinni, sem hefur aðra sýn á lífið en fjölskylda hennar og samferðafólk í Reykjavík.

Það má ætla að fyrir lesendur af yngri kynslóðum en Sólveigar komi margt sérkennilega fyrir augu í daglega lífinu á einangraða býlinu Hraunkoti, þar sem ekkert rafmagn er að finna og mjólkurvörur eru geymdar í brunninum á bæjarstæðinu. Hversdagarnir í Reykjavík eru þó engu að síður framandi. Í minningum sínum bregður Sólveig upp mynd af þjóðfélagi sem kom fram við börn á allt annan máta en talið er ásættanlegt í dag. Blátt áfram lýsingar á hranalegu framferði kennara og annarra fullorðinna eru stundum sjokkerandi, eins og t.d. „Sigga sturta“ sem í búningsklefunum í Melaskóla notast við strákúst til að stugga stúlkunum undir sturtubunurnar að loknum leikfimitíma. Að sama skapi eru væntingar um sjálfstæði og vinnusemi barna og ungs fólks allt aðrar en við þekkjum í dag. Þótt Sólveig tali á jákvæðum nótum um þann styrkleika og stolt sem hún hafi fundið fyrir þegar hún stóðst kröfur sveitafólksins um vinnusemi og dugnað kennir einnig vissrar eftirsjár yfir sjálfstæðinu sem ætlast var af henni ungri, allt frá því hún er send ein í sveit fimm ára gömul. Rifjar hún til að mynda upp hæglát viðbrögð foreldra sinna þegar hún tilkynnti þeim að hún ætlaði sér að fara í Leiklistarskólann fremur en að taka stúdentspróf:

[L]íklega hefði ég tekið afskiptum þeirra fálega en samræður um þetta og annað í lífi mínu hefðu ekki sakað. [¼] Stundum er aðeins hársbreidd á milli afskiptaleysis og þess að virða sjálfstæði einstaklingsins. Ég veit ekki hvort var en innst inni þráði ég meira inngrip í mitt líf. Ekki að það væri tekið fram fyrir hendur mínar heldur aðeins að mér væri sýndur meiri áhugi. (186)

Þessi togstreita á milli þess að unna sjálfstæði sínu og syrgja þann stuðning sem ekki var í boði kemur ekki síst í fram í þeim köflum þar sem Sólveig setur eigin sögu í samhengi við sögu íslenskra kvenna. Hún velur sér fyrirmyndir úr röðum þeirra sem á undan komu; mágkonurnar Sigurlaugu og Guðlaugu á Hraunkoti og langalangaömmu sína og alnöfnu sem var önnur konan á Íslandi til að hljóta formlega ljósmóðurmenntun, en er einnig gjörn á að bera hlutskipti sinnar kynslóðar saman við líf yngri kvenna – t.d. þegar hún minnist handverkstíma þar sem henni og skólasystrum hennar var gert að læra „kvenlegar“ iðjur og leysa verkefni sem „voru nær öll fullkomlega tilgangslaus“ (65). Samt er hún af kynslóð kvenna sem upplifðu umrótartíma. Hún minnist þess t.a.m. að heyra tal um Rauðsokkur á meðan hún var enn í barnaskóla. Þó að hinni barnungu Sólveigu sé tjáð að Rauðsokkur séu „mestmegnis óánægðar og ófríðar konur sem enginn vildi kvænast“ (161) þykir henni sú lýsing engu að síður svo forvitnileg að á göngum sínum um bæinn er henni starsýnt á sokka fullorðinna kvenna í von um að sjá einni úr þeirra hópi bregða fyrir. Þannig ber hún vitni um þann breytt heim sem stendur henni sjálfri til boða í samanburði við hlutskipti móður hennar, sem var af þeirri kynslóð kvenna „sem fæstar áttu eigin nöfn í símaskránni“ (177). Sem dóttir og eiginkona framamanna í pólitísku landslagi Íslands var móðir hennar í raun í „ólaunuðu starfi hjá íslenska ríkinu“ (178) ásamt því að þurfa að reka heimilið og sjá um börnin. Sólveig minnist samtals sem þær áttu skömmu fyrir fráfall móður sinnar þar sem Sólveig fræddi hana um þær getnaðarvarnir sem standa hennar kynslóð kvenna til boða. Þótt móðir hennar vilji nú ekki gangast við því að eitthvað hefði verið færra í systkinahópnum ef hún hefði haft slík meðul undir höndum viðurkennir hún að „það hefði breytt öllu að geta valið“ (181).

Lokaorð

Þrátt fyrir þann kunnuglega og fastmótaða heim sem lögregluteymið í bókum Sólveigar Pálsdóttur hrærist í gætir hún þess að endurtaka sig ekki. Þegar lesandi er farinn að telja sig öllum hnútum kunnugur í höfundaverki hennar á hún það til að snúa öllum sínum formúlum á hvolf og hrista ærlega upp í hlutunum. Þannig er hún óhrædd við að einangra persónur sínar og færa landshorna á milli, eða steypa þeim í tvísýnu sem hefur varanleg líkamleg eða andleg eftirköst sem fylgja þeim í gegnum seríuna. Það má marka ákveðin skil í seinni bókunum um Guðgeir og félaga, þeim sem komið hafa út síðan Sólveig færði sig frá Forlaginu yfir til Sölku útgáfu. Í bókunum sem komið hafa út hjá Sölku er meira um samfélagsádeilur en áður, þar sem hún ávarpar m.a. veika stöðu innflytjenda á Íslandi og viðvarandi þöggun yfir kynferðisofbeldi – sem enn lifir góðu lífi á tímum #MeToo-hreyfingarinnar. Einnig virðist hún hafa fundið frelsi til að takast á við óhugnaðinn á nýjan máta og draga inn í glæpasöguna þemu hryllings og grótesku sem eiga margt skylt við arfleið gotnesku skáldsögunnar. Hryllingur er þó lítilsmegnugur án persónusköpunar og stílbrigði Sólveigar eru ekki síst falin í þeirri alúð og natni sem hún sýnir gerendunum á bak við ódæðin sem Guðgeir og félagar hafa til rannsóknar. Þar má oft finna flögð eða fanta undir fögrum skinnum; dagfarsprúða sýkópata með brenglaða sín á heiminn. Engu að síður gefur Sólveig sér tíma til að staldra við og leyfa lesendum að upplifa veröldina frá sjónarhorni þeirra; gefur þeim jafnvel færi á að réttlæta spellvirki sín og í sumum tilvikum afla sér snefil af samúð hjá lesandanum. Undantekningin er þó verðlaunaglæpasagan Fjötrar, þar sem Sólveig forðast slíkar málalengingar sökum eðlis afbrotanna og af virðingu við þolendur. Ef eitthvað er gerir sú fjarlægð þó óhugnaðinn þeim mun skelfilegri en áður. Við lestur á minningabókinni Klettaborginni má sjá hvernig hæfileikar Sólveigar til persónusköpunar eiga sér grunn í fólkinu sem hefur fylgt henni á lífsleiðinni. Í minningarbrotum sínum dregur hún upp skýrar myndir af þeim og, líkt og hún útlistar í formála bókarinnar, gerir sitt besta til að forða þeim frá því að falla í gleymskunnar dá.
 

Björn Halldórsson, desember 2020