Kokkáll

kokkáll
Höfundur: 
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Höll karlmennskunnar er grafhýsi

Ég þarf aldrei að skemmta mér of vel, bara mátulega. Mér líður eiginlega vel þegar mér leiðist. Þarf ekki einu sinni að lesa bók. (178)

Dóri DNA hefur átt margbrotinn feril sem listamaður. Hann hefur verið rappari, ljóðskáld, dramatúrg, handritshöfundur og nú skáldsagnahöfundur, en Kokkáll er hans fyrsta skáldsaga. Sagan er ekki síður margbrotin en ferill Dóra og eru þemu hennar æði mörg. Í nýlegum þætti Kiljunnar sagði Guðrún Baldvinsdóttir að bókin væri „fyrst og fremst um karlmennskuna“, og er það ekki úr lausu lofti gripið eins og vikið verður að síðar (sjá www.ruv.is/frett/bokin-er-fyrst-og-fremst-um-karlmennskuna). Angar sögunnar eru þó fjölmargir og meðferð hennar á viðkvæmum málefnum gæti vel vakið ríkara umtal en hingað til hefur skapast svo sem um dulbúna og lítt dulbúna kynþáttafordóma og málefni fatlaðra.
 

Í hringiðu sögunnar er aðalpersóna hennar, Örn, sem jafnframt er sögumaður. Örn er að mörgu leyti hinn dæmigerði meðaljón, maður sem er mátulegur á flestum vígstöðum lífs síns eins og inngangsorðin hér að ofan bera með sér. Örn státar ekki af neinum sérstökum afrekum í lífinu og virðist una hag sínum ágætlega sem launamaður á auglýsingastofu þar sem hans eini metnaður virðist vera að halda starfinu með lágmarksvinnuframlagi meðan hann bíður eftir næsta launaseðli.

 

Tengslanet Arnar er ekki gríðarlega víðfeðmt. Hann á undurfallega kærustu, Hrafnhildi, en einungis tvo eiginlega vini, prinsippfasta drumbinn Hall og Andreu sem er með Downs-heilkenni. Auk þess kemur fjölskylda Arnar nokkuð við sögu. Faðir Arnar er hvítflibbakrimmi, fjársvikari sem var dæmdur í fangelsi þegar Örn er unglingur á mótunarskeiði. Fangelsisvistin varpar skugga á allt heimilislífið og er áfall sem engum fjölskyldumeðlima tekst að vinna úr. Móðir Arnar sefar þó sorgirnar með sínu nefi og speglar sig í sorgum annarra sem hún varpar yfir á Örn, og hringir reglulega til þess að segja honum nýjustu fregnir af voveiflegum banaslysum og hamförum um víða veröld. Þessari tilhneigingu hennar er lýst á afar skoplegan hátt í bókinni.

 

Sagan er annars hefðbundin að uppbyggingu. Hinum eiginlegu hvörfum bókarinnar er lýst í blábyrjun, í fyrri hluta er gerð grein fyrir aðdraganda þeirra og síðari hluti fer í úrvinnslu. Í fyrri hluta bókarinnar fylgja lesendur eftir parinu Erni og Hrafnhildi í helgarferð þeirra til Chicago. Þar ríkir ákveðin „Fear and Loathing“-stemmning þar sem þau ferðast um stórborgina og svala fýsnum sínum í neyslu með dýrum fatakaupum, almennu svalli og e-pilluáti. Í mikilli svallveislu hjá erlendri auglýsingastofu kynnast þau hinum þeldökka Tyrone sem reynist örlagavaldur í lífi þeirra. Eftir veisluhöldin heldur þrenningin upp á hótelherbergi þar sem að Tyrone og Hrafnhildur stunda kynlíf að Erni ásjáandi. Senunni sjálfri er lýst í byrjun bókar og er gríðarlega gróf og óhugnanleg – sér í lagi þar sem vafi leikur á samþykki Hrafnhildar fyrir verknaðinum: „Hrafnhildur leit á mig, renndi augunum til mín eins og hún væri að leita samþykkis, eða biðja um hjálp – ég gat ekki greint á milli“ (6).

 

Atburðurinn markar djúp spor í vitund Arnar og ásækir hann í síðari hluta sögunnar. Martröð hans raungerist svo þegar Tyrone birtist skyndilega á heimili þeirra Hrafnhildar og yfirtekur heimilislífið smám saman á hátt sem kallar fram hugrenningartengsl við Leigjanda Svövu Jakobsdóttur. Í síðari hlutanum verður lesendum æ ljósara hve sjálfhverf persóna Örn er í raun. Eins og áður sagði er Örn sögumaður Kokkáls svo sjónarhornið er ávallt hans. Hann virðist allsendis ófær um að setja sig í spor annarra, t.a.m. Hrafnhildar, og lítur á sjálfan sig sem hinn mesta píslarvott auk þess að vera heltekinn af minnimáttarkennd, sbr. samskipti parsins við lok bókar:

– Átti ég að hlæja, kannski bara garga úr hlátri við að sjá þig, konuna sem ég elska, tilbiðja tittlinginn á þessum manni sem er allavega helmingi stærri en minn? Var ekki augljóst af hverju þú vildir vera með honum?

– Hvað er að þér?

– Að mér? Þú hefur gert mig svona. Sérðu það ekki?

(315)

Samskipti Arnar við vini sína Hall og Andreu grundvallast líka að miklu leyti á eigin þörfum. Ef litið er fyrst til sambands hans við Andreu vakna ýmsar spurningar. Í aðra röndina þykir Erni bersýnilega vænt um Andreu og vill allt fyrir hana gera, en í hina skilur hann illa mörk í samskiptum þeirra, einokar tíma hennar gegn vilja nákominna aðstandenda og gengur svo langt að brjótast inn á sambýlið hennar um miðjar nætur til þess að sofa við hlið hennar þegar honum líður illa. Samskiptin væru ef til vill eðlilegri ef um væri að ræða samskipti tveggja jafningja, en spyrja má eins og Maríanna Clara Lúthersdóttir gerir í nýlegri umfjöllun hvort samskipti Arnar og Andreu geti fyllilega verið á jafningjagrundvelli (sjá https://www.ruv.is/frett/myljandi-fyndin-skaldsaga-um-islenskan-veruleika)? Eða samþykkir samfélagið kannski einfaldlega ekki slík samskipti og slíkt vinasamband?

 

Hallur er síðan bjargráður Arnar. Allt frá því að Hallur bjargar Erni frá einelti í æsku lítur Örn upp til hans með nær skilyrðislausri aðdáun, eða með orðum hans sjálfs: „Hallur er allt sem mig langar að vera en hef ekki dug til“ (33). Í sambandi Arnar og Halls má einnig, að mínu mati, lesa ákveðna meginhugsun bókarinnar. Félagsfræðingum er tamt að nota hugtakið homosocial , en það vísar til ókynferðislegra félagslegra samskipta karla, andspænis samkynhneigð. Í krafti homosocial samskipta hafa karlar mótað samfélagið eftir sínu höfði og styrkt sambönd sín og samstöðu. Kokkáll sýnir vel hvernig slík samskipti karla hafa gengið sér til húðar með skaðlegum afleiðingum fyrir þá sjálfa og þá sem standa þeim nærri. Samband Arnar og Halls er prýðilegt dæmi um slíkt samband; Hallur hefur tangarhald á Erni og myndi helst vilja stjórna bæði vinasamböndum hans og ástarsamböndum. Hann býr yfir prinsippfestu og skýrum hugmyndum um hvernig karlmenn eiga að haga sér sem hann miðlar óspart til Arnar. Heimur þeirra er karlaheimur en á meðan þeir smíða hann molnar allt og fúnar í kringum þá. Þetta sést best á örlögum ástarsambanda þeirra: Helga, kona Halls, gefst upp á lífsreglum eiginmannsins og skilur við hann og Hrafnhildur fær nóg af því að vera meðhöndluð sem hver annar hlutur eða kynlífsleikfang og yfirgefur Örn.

 

Því er ekki að neita að kvenpersónur bókarinnar fá lítið rými og eru býsna tvívíðar, en ég hallast þó að því að túlka þá staðreynd sem lýsandi fyrir hinn karllæga veruleika Kokkáls fremur en vanrækslu af hálfu höfundar. Í tilfelli Hrafnhildar og Helgu verður einmitt þeim mun áhrifameira þegar þær öðlast loks rödd til að fordæma framkomu unnusta sinna og snúa við þeim baki, í ljósi þess raddleysis sem einkennir þær framan af. Gagnrýni Kokkáls á feðraveldið verður með þessu vel heppnuð.

 

Hér hefur einungis verið vikið að nokkrum þemum bókarinnar. Í Kokkáli birtist mikill sveimur hugmynda – sumum þeirra er fylgt eftir en öðrum hefði mátt gera betri skil. Meginhugsun bókarinnar sem hér hefur verið rakin heldur þó vel þræði. Enn fremur tekst Dóra hið vandasama verk að vera fyndinn án þess að lítillækka það sem hann vill koma á framfæri. Kokkáll er athyglisverð saga sem spyr fleiri spurninga en hún svarar og knýr lesendur til þess að velta vöngum yfir fleiru en hvort bókin sé þeim að skapi eða ekki.

 

Árni Davíð Magnússon, nóvember 2019.