Leðurjakkaveður

leðurjakkaveður
Höfundur: 
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Undir leðurjakkanum er leðurjakki

Smellt er af sjálfu. Vandlega úthugsaðri sjálfu þar sem öll hlutföll eru í fullkomnu samræmi. Sjálfunni er deilt á samfélagsmiðlum þar sem vinir, velgjörðarmenn og jafnvel ókunnugir lýsa yfir velþóknun sinni. Um skamma hríð fylgir þessu vellíðan, jafnvel víma – viðurkenning á eigin ágæti. Svo fjarar hrósflóðið út. Hvað gerist þá?

Ljóðabókin Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg tekst á við þá togstreitu sem fylgir sífelldri sviðsetningu einstaklingsins á tímum samfélagsmiðla og einstaklingshyggju, togstreituna milli þess sem fólk er og þess sem það sýnir heiminum. Þekkir fólk yfirleitt sjálft sig þegar sjálfsköpunin fer í reynd fram á forsendum annarra? Þær spurningar sem skáldið leggur fyrir lesendur sína vinnur það úr af miklu öryggi þar sem form, þemu og táknbeiting kallast á og skapa sannfærandi heildarsvip. Bókinni er skipt í þrjá hluta sem nefnast „1.p“, „2.p“ og „Við“. Hér er vitaskuld vísað til málfræðihugtaka og þeirrar persónu sem mest kveður að hjá ljóðmælanda í hverjum hluta þótt því sé að vísu ekki ávallt haldið fullkomlega til streitu.

Fyrsti hluti bókarinnar birtir lesendum svipmyndir af sjálfi ljóðmælanda í mótun. Í fyrsta ljóðinu „Viðkvæmni“ fær ljóðmælandi, þá sex ára, leðurjakka í gjöf frá pabba sínum. Leðurjakkinn verður síðan gegnumgangandi tákn í bókinni. Hann er fyrir það fyrsta skrápur sjálfsverunnar gegn umheiminum og hula sem ljóðmælandi bregður yfir sig í eigin sviðsetningu á sjálfinu. Leðurjakkinn er þó ekki vatnsheldur gagnvart tilfinningum eins og efa og örvæntingu því eins og segir í ljóðinu „Greinarmerki“ þá er „hægðarleikur/fyrir eitt spurningamerki//að smeygja sér inn undir leðurjakka/úr svörtum punktum“. Í öðru ljóði bókarinnar „Vöxtur“ er lýst með áhrifamiklum líkingum hvernig ljóðmælandi þarf sífellt að kljást við þær efasemdir sem leðurjakkinn reynir af veikum mætti að bægja frá honum:

manneskjan vex

ekki eins og tré

heldur tún

 

mér óx orðaforði

væntumþykja, neglur, hár

efi

 

sjálfsmeðvitund og örvænting

saman

mynduðu þær spegil

 

og spegillinn óx eins og

silfraður fiskur um hrygg

 

eins og múr

utan um heimsveldi

eða gaddavír um bithaga

Spegillinn sem hér er lýst er svo annað áberandi tákn bókarinnar. Hann fylgir ljóðmælanda hvert fótmál og er lykilþáttur í sjálfsköpun hans. Í gegnum spegilinn miðlar ljóðmælandi hugmyndum sínum um sviðsetningu andspænis veruleika. Sú mynd af sér sem ljóðmælandi sýnir gjarnan umheiminum er spegilmynd, á meðan raunmynd hans er dulin – eitthvað sem hann felur eins og „fölbleika, æðabláa hörpuskel“. Í lok fyrsta hluta klýfur spegillinn ljóðmælanda svo á táknrænan hátt í ljóðinu „Hnífjafnt“: „leitin byrjar þegar farið er að skilja/skilja eitt frá öðru//skilja spegilinn/að hann skeri manneskjur í tvennt//í mig og þig“.

Í kjölfarið hefst annar hluti Leðurjakkaveðurs, og mætti í fyrstu telja að þar væri einhvers konar uppgjör ljóðmælanda við spegilmynd sína. Ljóðmælandi talar þá gjarnan í annarri persónu og horfir á sjálfan sig utan frá – sér sig ef til vill frá sjónarhól spegilmyndarinnar. Það er þó eitt einkenni bókarinnar að leika á væntingar lesenda. Ávallt þegar þeir halda að sátt ljóðmælanda sé í sjónmáli brýst óöryggið fram og ber jafnvel við að lesendur finni fyrir óörygginu á eigin skinni. Skáldskapur sem megnar að skapa slík hughrif er vel heppnaður. Athuga má í þessu samhengi hvernig fyrsta ljóð annars hluta „Þú ert atóm“ samverkar við ljóðið „2. persóna“. Í hinu fyrrnefnda er ljóðmælandi heilsteyptur og ekkert nema ókljúfanlegur kjarninn:

mundu það: eitt eilífðar atóm

sem gengur fullkomlega upp í sjálf sig

 

þú fæddist með þennan hlátur

þennan húmor

þetta stolt

Í síðarnefnda ljóðinu líður ljóðmælanda hins vegar „eins og önd í skotfæri“ og tekst á sinn hátt á við öryggisleysið með því að kljúfa sig frá sjálfinu og gangast við spegilmyndinni, sem kann að tákna hér ímyndað álit annarra sem afgreiðir ljóðmælanda „sem óörugga eða hrokafulla/eða bæði“. Ljóðmælandi nær því aldrei að „ganga upp í sjálfan sig“.

Áfram er fetað á svipuðum slóðum í þriðja hluta bókarinnar. Þar er gerð tilraun til þess að sætta raunmynd og spegilmynd, ég og þú verður „Við“. Ef til vill reynir ljóðmælandi að komast nær kviku sinni, nær viðkvæmninni. Leitin að sjálfinu er þó hulin þoku, eins og að píra í gegnum gosflöskubotna eða skyggna stropað egg, sem lýst er í fyrsta ljóði hlutans „Ég og þú“. Ljóðmælandi reynir jafnvel að fletta ofan af sjálfum sér eins og lauk í þremur samliggjandi ljóðum, en hvað blasir við?

óseðjandi svarthol

sem þráir aðeins eitt

 

viðurkenningu þeirra

sem veita hana ekki

Afhjúpunin endar í svartholi. Kannski er því ekki ráð að berskjalda sig um of, því sífelld einlægni reynir á þolrifin til lengdar. Ekki er heldur vanþörf á að koma hinu einkanlega til varnar, því sem einstaklingurinn á einn með sjálfum sér, þegar þrýstingur samfélagsmiðla gengur í þá átt að deila sem mestu með öðrum.

Að öllu samanlögðu er vart snöggan blett að finna á Leðurjakkaveðri. Samhengi og samfella bókarinnar heldur sér fjarskalega vel og virðist nær engu vera ofaukið. Myndmál er sömuleiðis útfært á sannfærandi hátt. Einstakar myndir eru gjarnan endurteknar í nýju samhengi sem dýpkar merkingu þeirra og kveikir óvæntar tengingar í hugum lesenda. Að lokum má segja að Leðurjakkaveður veiti lesendum ákveðið andrými til þess að taka sér bólfestu í textanum. Skáldið gætir þess að leysa ekki úr öllum flækjum textans og lætur hvers konar lausn eða uppgjör í léttu rúmi liggja. Uppgjörið fer því einungis fram í hugum lesenda sem ættu að geta snúið sér oftar en einu sinni að bókinni.

 

Árni Davíð Magnússon, desember 2019