Listamannalaun

Höfundur: 
Ár: 
2018
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Bacchi-boy og gúmsí-lúms

Ég var þá fyrir nokkru byrjaður að íhuga að gerast kaþólskur sem skref í viðleitni minni til þess að bjarga lífi mínu því ég sá ekki fram á að verða fimmtugur með áframhaldandi lifnaði.“
(bls. 198)

Sjálfur er ég of ungur til þess að hafa kynnst söguhetjum Listamannalauna Ólafs Gunnarssonar, þeim Degi Sigurðarsyni, Alfreð Flóka og Steinari Sigurjónssyni, og kemst því vart hjá því að hugsa til þeirra sem nokkurs konar þjóðsagnapersóna, mótaða af munnmælasögnum undanfarinna kynslóða ásamt þeim minjum sem þeir skildu eftir sig. Listaverk þeirra, ljóð, sögur og teikningar, búa yfir sérstæðum lífsgalsa til jafns við ákveðinn annarleika sem oft er örðugt að festa fingur á. Djúpt er á þeirri trú að slík listsköpun sé einungis á færi útilegumanna sem gistu utan samfélagsins, á stað þar sem þeir gætu litið það gagnólíkum augum. 

Listamannalaun er saga af kynnum höfundar við þessa menn og þeirra ævintýrum saman, réttnefnd minningarskáldsaga, því að þótt um sé að ræða endurminningar sagðar í fyrstu persónu þá er minnið vitaskuld gloppótt og óáreiðanlegt, skáldar í eyður og færir í stílinn. Þannig eru skil minninga og skáldskapar ekki ávallt svo glögg. Söguefni bókarinnar er býsna kunnuglegt: Þroskasaga ungs listamanns á mótunarskeiði sem kynnist lífsreyndari listamönnum sem kenna honum sitthvað um sjálfan sig og hvernig hann eigi að haga lífi sínu, eða kannski fremur hvernig hann eigi ekki að haga því. Þetta söguefni er svolítið kunnuglegt og sver sig í ætt við fjölmargar endurminningar eða skáldævisögur sem komið hafa út á undanförnum árum. Það er því aðkallandi að spyrja hvort að Listamannalaun geti orðið eftirminnileg í skáldævisagnaflóði samtímans.

Ég tel að svo geti verið og er það persónulýsingunum að þakka, helsta styrkleika bókarinnar. Þeir Ólafur, Flóki, Dagur og Steinar hafa allir háleitar hugmyndir um eigið ágæti sem byggir þó á veikum grunni. Það er ekki svo að skilja að listsköpun þeirra sé ómerkileg, þvert á móti, heldur er sjálfsmynd þessara persóna í Listamannalaunum mörkuð af ríkum sjálfsefa og jafnvel sjálfsvorkunn sem brýst út með reglulega millibili í sögunni. Það sem markar þessa menn þó öðru fremur er baneitruð áfengisfíkn og er Listamannalaun öðrum þræði saga af tortímandi áhrifum hennar.
Af þessum fjórum var sögumaðurinn Ólafur sá eini sem sigraði glímuna við Bakkus, eða ‚Bacchi-boy‘ eins og Flóki myndi kalla hann. Þegar lesendur kynnast Ólafi þá er hann á upphafi ferils síns, þar sem hann býsnast við að skrifa fimm binda skáldverk sem uppnefnd er Freðskinna sökum þess að allir vita, þ.m.t. Ólafur sjálfur, að verkið mun aldrei verða að veruleika. Innan Ólafs býr nokkur togstreita milli efnislegra gæða og andlegrar spektar og sköpunar, eins og fljótlega er dregið fram:

Ég lagðist aftur á koddann. Ég var gripinn efasemdum, hafði ég valið rétt? Föðurbróðir minn, Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður, hafði boðið mér forstjórastarf við fyrirtæki sitt, en ég hafði gengið út ein dag eins og Sherwood Anderson þegar honum varð litið út um gluggann á verksmiðjunni sem hann veitti forstöðu og sá vindgust fara um lauf í háu tré og vissi þá að hann yrði að fylgja köllun sinni og verða rithöfundur.     
(bls. 19)

Ólafur er efnahagslega öruggari en vinir sínir og hleypur sífellt undir bagga með þeim; lánar pening, kaupir listaverk og snattast fyrir þá í Ríkið þegar að Bakkus konungur knýr dyra. Hann er í einhverjum skilningi jarðtenging sögunnar og eru það vinir hans sem sjá um að hefja frásögnina í æðra veldi með látæði sínu. Skilin milli Ólafs og hinna eru dregin vel fram í stíl sögunnar: Flóki, Dagur og Steinar verða ljóslifandi á blaðsíðunum með sérviskulegri orðanotkun sinni og slettum á meðan að Ólafur sjálfur er látlausari. Eins og gefur að skilja fellur Ólafur því dálítið í skuggann af vinum sínum, enda sækja lesendur fremur í frásagnir af sérvitringum en „venjulegu“ fólki.

Sá sem að fær mest frásagnarrými í Listamannalaunum er Flóki. Í blábyrjun sögunnar er prentað frægt viðtal Vikunnar frá 1963 sem bar fyrirsögnina „Minn fyrirrennari var krossfestur“. Eins og glöggt kemur fram í Listamannalaunum var þessi messíasarkomplex sem fyrirsögnin vitnar um einungis gríma Flóka fyrir fjölmiðla og gerir bókin þeim manni sem bjó grímunni að baki góð skil. Það er eitthvað barnslega einlægt við margt í fari Flóka, t.d. hvernig hans hversdagslegustu athöfnum er lýst. Eftirminnileg er lýsingin á ‚gúmsí-lúms-túrum‘ þeirra Ólafs, þar sem að höfundi tekst að gera máltíð í Norræna húsinu og ferð í bókabúð að nánast yfirskilvitlegum upplifunum.

Bakvið þá ímynd sem Flóki vill skapa af sér býr þó mikið óöryggi og er það raunar sameiginlegt öllum aðalpersónum Listamannalauna. Aðdáunarþörf þeirra allra er mjög rík og tekst þeim fæstum að bregðast við á annan hátt en með stórfelldri drykkju þegar að vonirnar bresta. Þetta óöryggi kallast svo á við áfengissýkina sem gengur eins rauður þráður gegnum bókina. Þó að Listamannalaun sé oft bráðfyndin þá er gleðin iðulega tregablandin, eins og þegar Steinari er fleygt út úr barnaafmæli sökum drykkju eða þegar Dagur sólundar sínum fyrsta og eina rithöfundarstyrk á einni kvöldstund.

Fortíðarþrá einkennir margar endurminningabækur og svo er einnig um Listamannalaun. Þó að mannlýsingin sé í forgrunni ber svolítið á hálfklisjukenndri nostalgíu: „Við gátum ekki hætt að gleðjast. Því við vorum ung og ódauðleg, um tvítugt og þrítugt, og það dimmir aldrei á strætum Reykjavíkur á vorin“ (bls. 66). Þess háttar lýsingar eru þó ekki ýkja margar og koma ekki að mikilli sök í samhengi heildarinnar. Listamannalaun er kvik og lífsglöð minningaskáldsaga af breyskum mönnum sem fylgdu fordæmi Oscars Wilde og gerðu sjálft líf sitt að listaverki.

 

Árni Davíð Magnússon, 2018