Ljóðað á glugga

Að eilífu, áheyrandi
Ár: 
2015
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Beinhvít skurn
Ár: 
2015
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Blágil
Ár: 
2015
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Ljóðað á glugga

Hefðin fyrir sjálfsútgáfum ljóðskálda er bæði virðuleg og löng. Annarsvegar markast hún væntanlega af markaðsvandamálum – útgáfa ljóðabóka er sjaldnast arðbær – hinsvegar er því ekki að neita að í krafti sjálfsútgáfu hafa höfundar alvald yfir verki sínu, þar á meðal útlitshönnun þess og dreifingu. Þetta hefur síðan skapað aðra hefð, þá að leggja metnað í umgjörð sem hæfir útgáfunni með einum eða öðrum hætti. Sjálfsútgáfur, og aðrar útgáfur utan formlegra forlaga, eru því oft sérlega eigulegir gripir, oft persónulegri og jafnvel hversdagslegri. Það er þetta síðastnefnda sem er markmið útgáfunnar Meðgönguljóð, að gera ljóðabækurnar þannig úr garði að þær sé auðvelt að grípa og stinga í vasa eða tösku og glugga í eftir hentugleikum. Meðgangan vísar því ekki aðeins til þess að ganga með bók í maganum heldur líka þess að ganga um með bókina, hafa hana meðferðis.

Útlit bókanna er þarmeð einfalt og ber uppruna sínum merki, þetta eru ekki bækur með kili, í staðinn eru nokkur samanbrotin blöð saumuð saman með þráðum. Útlitið er samræmt en á forsíðum eru ólíkar myndir. Það eru þau Katrín Helena Jónsdóttir og Haukur Pálsson sem hanna útlitið og eiga heiður skilinn fyrir það. Einnig er vert að benda á heimsíðu útgáfunnar: medgonguljod.com.

Á þessu ári hafa komið út þrjár ljóðabækur undir merkjum Meðgönguljóða: Að eilífu, áheyrandi eftir Kristu Alexandersdóttur, Beinhvít skurn eftir Soffíu Bjarnadóttur og Blágil eftir Þórð Sævar Jónsson. Allar eru þær stuttar, 16-20 síður, en þrátt fyrir svipað yfirbragð er innihaldið allólíkt.

Yngsti höfundurinn er Krista Aðalsteinsdóttir. Ljóðið „Eilífur áheyrandi“ er fyrirmynd titils bókarinnar, Að eilífu, áheyrandi, en það sem hlustað er á er „Sinfónía gamla eldhúsvasksins“, sem „leikur um hljóðlaust herbergið / býr til takt sem aðeins vatnið getur skilið.“ Ljóðmælandi saknar hljóðsins sem hefur horfið með móðurinni, og kann ekki sjálf að „leika á hljóðfæri vatnsins“ né „skilja takt þess“. Það sem hún á þó eftir er minningin um hljóðið, „Að eilífu / áheyrandi.“ Þetta er falleg mynd um minningu og kvenlegan hversdagsleika og kallast á áhugaverðan hátt á við ýmis eldhúsvaskljóð ólíkra skáldkvenna.

Þetta er eitt af hversdagslegri ljóðum bókarinnar, annað er ástarljóðið „Síðasta götuhornið“ á síðunni á móti, en annars eru ljóðin nokkuð ævintýraleg með dramatískum áherslum. Sem dæmi má nefna „Ekkertið“, en þar gengur ljóðmælandi inn í tómt hús, hún „er skeptísk á hljóðið / og fjarveru skugganna / sem hafa elt mig / alla tíð / (þangað til núna).“ Ljóðmælandi gengur í hringi um gólfið þar til það verður að leir og hann hverfur inn í dúnmjúkt hreiður tómsins. Hér takast á óhugnaður og mýkt, hvarf skugganna er bæði óþægilegt og velkomið, leirgólfið er gljúpt og gleypandi en mjúkt – kannski kæfandi?

Það má vel greina hin og þessi áhrif annarra skálda auk þess sem Krista veltir fyrir sér skrifunum sjálfum í ljóðum eins og „Ég vil ekki skrifa um skýin“ og „Óður til óorðinna orða“.

Af þessum þremur skáldum er það Soffía Bjarnadóttir sem hefur mesta reynslu sem rithöfundur, en hún gaf út skáldsöguna Segulskekkja á síðasta ári. Soffía er sömuleiðis elst þessara þriggja, þó það sjáist ekki endilega á ljóðunum, en í þeim býr heilmikil ungdóms‘angst‘. Bókin er mjög heildstæð og segir jafnvel einskonar sögu og nokkuð er um klassískar tilvitnanir í kristni og gríska og rómverska goðafræði.

Bókin hefst á því að „Það er verið að yrkja ljóð uppi í tré / og kaðall hangir niður við jörðu.“ Næst erum við stödd í „rómverskri stofu“ og rómverskt andrúmsloft einkennir næstu síður eins og þegar Meistarinn kemur með „te á silfurbakka í rómverskri stofu“. Við hittum Evridís – hún er ákölluð, „Komdu aftur“, en mögulega á fyrra ákall, „Dreptu mig aftur, elskan“ einnig við um sögu hennar. Seinna hittum við Ekkó og Narkissus:

Ekkó
hvar ertu
ertu

Komdu út úr skóginum
ég lofa að minnast aldrei aftur á Narkissus
suss

Það er svo ekki fyrr en undir lokin sem Orfeus birtist:

Um kvöldið kom Orfeus í heimsókn á elliheimilið.
Það var þaninn ágústmánuður
nýafstaðið tungl.
Hann ilmaði af karlmannlegri eyðingu
nærvera hans ætlaði okkur kvenfólkið að drepa.

Ljóðmælandi vitnar í Björk (drink me make me feel real), en er of feimin. Bókin endar svo á einskonar speglun upphafslínanna: „Sviðsmyndin leysist upp / himna, skurn, skógur / undan leysingum birtist opin gröf // hvítt fiður af himni fellur í jörðu“. Hér er á ferðinni flókinn heimur tákna og táknmynda, áherslan er á draumkennda stemningu, í bland við sorg og óhugnað.

Blágil er fyrsta bók Þórðar Sævars Jónssonar. Tóntegundin er nokkuð önnur en í bókum Kristu og Soffíu, en hér má sjá meiri húmor, auk þess sem eitt ljóðanna, „óbrennishólmi“, er það sem kallað hefur verið konkret ljóð, eða myndljóð. Í það heila eru ljóð Þórðar einnig myndrænni; ljóð Kristu og Soffíu kalla fram stemningu og skapa andrúmsloft en ljóð Þórðar miðast frekar við að bregða upp smámyndum. Sem dæmi má nefna „aurskriðu“:

svo lyppast fjallshlíðin fyrirvaralaust niður
líktog herðabreiður karlmaður með svima
og hleður moldarbrúnt grafhýsi yfir
ærina í gljúfrinu

Tónninn er frekar afslappaður eins og í „hollráð eftir úrhelli“, en þar ber fyrst að „kroppa / himinninn af hvelfingunni“. Næst á að „vinda hann / einsog blauta tusku“ og loks koma „honum / haganlega fyrir á sínum stað“. Lokahnykkurinn er svo að hengja „sólina upp til þerris“. Hversdagslegar myndir af þessu tagi eru auðvitað absúrd líka, eins og „tálfákarnir“ í samnefndu ljóði, en þar sýnist ljóðmælanda hann sjá birkitré, miðaldra konu í stoppuskýli, rauða rós í blómabeði og loks spegilmynd sjálfs sín í tjörninni, en í ljós kemur að það sem hann sér er alltaf hestur.

En Þórður á líka til dramatískari augnablik eins og þegar „eiginhandaráritun“ hans skolar burt:

strýk fingurgómi
um votan flöt

letra nafn mitt í lónið
sé stafina berast með straumnum

Eins og áður segir felast margir kostir í sjálfsútgáfunni, en einn galli hennar er sá að bækurnar eiga það til að hverfa, höfundar eru mismeðvitaðir um að koma verkum sínum á bókasöfn og þar með tryggja þeim framhaldslíf. Hliðarstraumsútgáfa eins og Meðgönguljóð er mikilvægur milliliður til að búa nýjum skáldum umgjörð við hæfi sem skapar sameiginlegt yfirbragð og þarmeð kunnugleika og tilfinningu fyrir því að vera hluti af stærri heild. Eins og áður segir er allt útlit vandað og það sama má segja um ritstjórnina, hún er vel hugsuð og það að hafa bækurnar stuttar gerir þær snarpari, ferskari og forvitnilegri.

úlfhildur dagsdóttir, september 2015