Ljóðarými: Skáldskapur frá Asíu og Norðurlöndunum

Ljóðarými: skáldskapur frá Asíu og Norðurlöndunum
Höfundur: 
Þýðandi: 
Ár: 
2010
Höfundur umfjöllunar: 

Heimar ljóðsins

Hún er dálítið sérstök í útliti bókin sem inniheldur ljóð frá tveimur heimshornum, austurlöndum fjær og norðurlöndum. Enda er hún í kínversku bandi og broti. Framandleikinn byrjar strax með gripnum sjálfum, en þó er hér ekki allt framandi, því helmingur ljóðanna er frá Íslandi og öðrum norðurlöndum. Bókin Ljóðarými - Space & Poetry er gefin út í tilefni af ljóðahátíð og -ráðstefnu sem nýlega stofnaður kínversk-íslenskur menningarsjóður stóð fyrir. Sá rekur rætur sínar meira en 30 ár aftur í tímann þegar Hjörleifur Sveinbjörnsson, sem þá dvaldi í Beijing við nám, deildi herbergi með kínverskum manni, Huang Nubo. Þeim varð vel til vina og nú hefur hinn kínverski Nubo stofnað menningarsjóð til að styrkja samband Íslands og Kína og auka á þekkingu og skilning bæði á samtímaljóðlist og menningararfi beggja landa, eins og segir í kynningu í bókinni.

Fyrsta framlag þessa sjóðs var fyrrnefnd ljóðahátíð, sem stóð yfir í viku, frá 4. - 8. október, en þar lásu upp skáld frá Kína, Japan, Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð. Flest skáldin eru frá Kína, sex talsins, tvö eru frá Japan, fjögur frá Íslandi og svo eitt frá hverju hinna norðurlandanna. Það gefur því auga leið að safn eins og þetta getur aldrei gefið tæmandi innsýn í ljóðagerð viðkomandi landa, það sem er kannski skemmtilegast er að skoða þetta allt í samhengi, bera saman ljóð austurlanda við norðurlöndin og svo auðvitað að skoða austurlöndin og norðurlöndin innbyrðis. Myndin ruglast dálítið með íslensku skáldunum, sem eru vel þekkt, Sigurður Pálsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir - allt í einu er lesandi komin í kunnuglegan heim, það er að segja: heim.

Í stuttu máli fannst mér kínversku ljóðin mest spennandi, það er einhver víðátta í þeim sem heillar mig og ég tengi við þá hraðfleygu viku sem ég dvaldi í Kína (aðallega Beijing). Ljóð Íslandsvinarins Nubo eru til dæmis samin á fjallaferðum hans, en hann hefur klifið sjö hæstu tinda sjö heimsálfa. Ljóðin eru með goðsögulegu yfirbragði og bera með sér hvernig víðáttan opnar skáldinu víðóma hugleiðingar. En það er ekki síður víðátta í ljóði Xie Mian, sem fjallar um ellefu ára stúlku sem missir vinstri fótinn í jarðskjálfta, en þráir að verða ballerína. Ljóðið er knúið áfram af endurtekningum sem gerir það áreiðanlega enn áhrifameira í upplestri og er á einhvernhátt undurfallegt um leið og vera ákaflega grimmilegt. “Á óralangri leið” nefnist eitt ljóða Yu Jian, en þar er fjallað um ljós sem birtast í fjöllum og auðnum á óralangri leið og ljóðmælanda langar að stoppa lestina og hlaupa til þessara ljósa, sannfærður um að “sérhvert ljósanna / geti breytt örlögum mínum” (þýð. Hjörleifur Sveinbjörnsson). Lu Ye (eina kínverska konan) slær saman landafræði, goðsögu og menningarádeilu í ljóðum sínum um eyjuna í miðju Yangtze-fljóti. Þar dreymir hana um að búa í sátt við náttúruna og eignast dóttur. Fljótið er helsta lífæð Kína og hefur stíflugerð þar verið mjög umdeild, og svo má sjá hér tilvísun til reglunnar um eitt barn - sem flestir foreldrar óska sér að verði sonur. Goðsagan býr svo yfir og allt um kring í tilfinningunni fyrir því að móðirin og dóttirin séu einskonar náttúruvættir á eyjunni. Tian Yuan, sem býr reyndar í Japan, á dásamlega geggjað ljóð um píanó, sem honum finnst “nauðalíkt beinagrind furðudýrs”. Ljóðið lýsir svo tilurð píanósins sem er “af fátækum komið” og þessvegna leiðist því fínheitin sem það er fangið í og “dauðlangar að breytast í furðudýr / Baða út vængjunum og forða sér” (þýð. Hjörleifur Sveinbjörnsson). Svipaður furðulegur húmor býr í ljóði Zang Di, “Hundrað ára einsemd kínverskrar nútímaljóðlistar”, en þar talar skáldið við ljóðið sitt og er ekki á eitt sáttur.

Japönsku skáldin tvö mynda einhverskonar brú á milli kínversku ljóðanna - sem mér fannst mest framandleg - og þeirra norrænu. Mutsuo Takahashi fjallar til dæmis um eiturgasárásina í neðanjarðarlestarkerfi Tókýó og veltir fyrir sér hversu mikið geti búið í svona stuttu, tveggja atkvæða, fallegu orði eins og Sarin (en það er nafnið á eiturgasinu).

Ljóð Hachikai Mimi (hin konan frá Asíu) eru torfærust af þessum, en þar slær hún meðal annars saman konu, dádýri og veiðimanni (-konu?). Annað ljóð gerist á eyju (alveg eins og hjá kínversku skáldkonunni) sem hún er að verja (þó titillinn gefi uppgjöf til kynna). Það er kannski hvað helst hér sem lesandi veltir fyrir sér hlutverki þýðinga, en ljóðin eru ákaflega heillandi og teikna upp mótsangakenndar skyndimyndir sem erfitt er að átta sig á. Japanska og kínverska eru mál sem eru byggð upp á allt annan hátt en vesturlandamál og því er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort þetta gos smámynda virki á annan hátt á annarskonar máli.

Og talandi um þýðingar þá er hafður sá háttur á að öll ljóðin eru þýdd á ensku, og að auki er eitt ljóð eftir hvert skáld er þýtt á íslensku. Hörleifur Sveinbjörnsson þýðir kínversku ljóðin en Ragnar Baldursson þau japönsku. Þetta gefur áhugaverða sýn á þau ljóð sem lesa má í tveimur þýðingum og kallar á enn frekari vangaveltur um tungumál og þýðingar.

Ég ætla að leyfa mér að sleppa því að fjalla um íslensku skáldin hér og vinda mér beint í þau norrænu, en þeirra á meðal er Naja Marie Aidt sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafnið Bavíaninn. Hún er fædd og uppalin í Grænlandi og áhrif þess má merkja í ljóðunum sem eru einskonar sundurslitnir prósar í anda hugarflæðis þarsem hugurinn reikar milli minninga og skapar óvæntar tengingar. Finninn Markku Paasonen skrifar alltöðruvísi ljóð sem eru án efa áhrifamikil í upplestri því hann nýtir sér endurtekninguna mikið og skapar takt eða slátt í furðulegum ljóðum um frelsisgyðjuna og höfuð höfundar sem hann sér á söfnum í París, og svo bókina sem hann skrifar en af henni rísa verur sem gera allt vitlaust. Þetta eru algerlega geggjuð ljóð og ég verð að játa að ég heillaðist ákaflega af þeim. Færeyingurinn Carl Jóhan Jensen er íslendingum að góðu kunnur. Ljóðin sem hér birtast eru all torskilin fannst mér, en þar ræðir séra j.h.ö. dünn við ýmis skáld, enda eru trúarleg og goðsöguleg stef áberandi. Inger Elisabeth Hansen frá Noregi nýtir sér einnig endurtekninguna á áhrifamikinn hátt í ljóðum sínum og tvö ljóðanna fjalla um litla stúlku frá Kína og flugdreka. Ann Jäderlund frá Svíþjóð lýkur svo bókinni með örstuttum heimspekilegum ljóðum sem virðast fyrst og fremst fjalla um einskonar hvarf.

Norðurlandaljóðin eru ekki þýdd á íslensku, heldur ensku og svo eitt af hverju á kínversku. Þetta fannst mér dálítið truflandi, nema í finnska dæminu því þar skil ég ekki frummálið.

Það sem uppúr stendur er hinsvegar hvað það er áhugavert að lesa saman ljóð frá austurlöndum fjær og svo okkar nálægu norðurlöndum. Sjálfsagt væri hægt að dunda sér lengi við að draga fram það sem gerir ljóðin lík (endurtekningin) og ólík (einhver framandleiki í Asíu-ljóðunum) en þó held ég að það sé meira um líkindi þegar upp er staðið, ljóðið er einhvernveginn þesskonar skepna að það ljáir sig auðveldlega að ólíkum heimum og hugsunum. Þannig gæti ég vel hugsað mér að þetta ljóðaúrval sé einsog órabókin sem Paasonen skrifar í og að verurnar sem stigi upp af henni séu skyld píanóinu hans Tian Yuan sem þráir að brjótast úr fangelsi fínheitanna. Einnig get ég ekki annað en séð fyrir mér hvernig samtal Zang Di við ljóðið sitt sé eitthvað sem öll skáld geta, allavega einhverntíma, tekið undir.

úlfhildur dagsdóttir, 2010