Lofttæmi

lofttæmi
Ár: 
2021
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Von milli flótta og kyrrstöðu

Lofttæmi er fyrsta bók Nínu Þorkelsdóttur en hún hefur áður starfað við ritstjórn, blaðamennsku og tónlist. Hún hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir handritið og bókin er gefin út hjá Benedikt útgáfu.

Um er að ræða fallegt verk sem mætir lesanda í vönduðum einfaldleika sínum. Bókin er  í fallegu broti og vel gerð í alla staði. Í bókinni eru fjörtíu og þrjú ljóð og skiptist hún í þrjá kafla sem nefnast "Skriðdýr", "Hljómsveitarstjóri dregur andann" og "Hólmlenda".

Nína Þorkelsdóttir er meðal annars menntuð í sígildri tónlist og ber verkið með sér sterka tengingu skáldsins við hverskonar hljóðheim og tónlistarsköpun. Tónsprotar spíra eins og í ljóði sex í kaflanum "Hljómsveitarstjóri dregur andann":

ég gróðursetti tónsprotana

fyrir löngu síðan

 

kom þeim fyrir í næringarríkri mold

í suðausturglugganum

 

á hverjum fimmtudegi eftir tónleika

gef ég þeim undanrennu

les fyrir þá endurminningar

útdauðra skriðdýra

 

á endanum

verða þeir hærri en ég

Tónlistin er þannig til staðar hvarvetna í verkinu og skapar einhverskonar fjórðu vídd sem ljóðmælandi er stöðugt að takast á við og velta fyrir sér. Hljóðheimurinn er næstum því áþreifanlegur jafnvel í skugga eyðileggingarinnar eins og í ljóði þrjú í "Hólmlendu", þar sem ljóðmælandi rekst á litla eftirlíkingu af sumarbústað í brunarústum hans gerða úr íspinnum en segir:

það átti aldrei að verða eftirlíking

heldur óður

til hljóðheimsins

sem einskorðaðist

við þetta hús

Eins og greina má af nafni verksins Lofttæmi þá leikur ljóðmælandi sér að andhverfuni og virkni hennar í tungumálinu. Þessari undarlegu staðreynd að fyrirbæri eru oft fönguð í fjarveru sinni, lofttæmi innheldur einmitt ekki loft. En ljóðið sjálft er líka fyrirferðarmikið í textanum og verður hluti af myndmálinu líkt og í ljóði tvö í fyrsta hluta:

skriðdýrin ortu ljóð

með líkamanum

hreyfingar þeirra voru orð

kyrrstaða þagnir

En þessi skriðdýr eru einmitt tíðar myndir í verkinu. En þar má einnig finna aðrar, eins og sund og þar með þessa skemmtilegu lýsingu á skriðsundi sem birtist í ljóði sextán í öðrum kafla:

þegar ég verð hrædd

við hávaðann í raftækjunum heima

fer ég í sund með froskalappir

ég flýt á flökkusögum

syng með vatnsósa fingrum

dreg andann

eftir þörfum

Hér njóta fínlegar myndir skáldsins sín, þegar hún dregur upp sína sérkennilegu mynd af ósköp hversdagslegum athöfnum, það að fá nóg af tómleikanum heima hjá sér og skella sér í sund. En með því að tengja sundið við sköpun nær hún að draga fram þann undrakraft sem á sér stað þegar mannslíkaminn klýfur vatnið sem er hvoru tveggja í senn ævintýralegt og eðlilegt. Kvíðinn er til staðar í þessu ljóði og hann ásamt hræðslu kemur ítrekað upp hjá ljóðmælanda eins og í ljóði níu sem fjallar um flughræðslu. Fyrst dregur ljóðmælandi upp mynd af flugi á milli tímabelta fullt af óhræddum farþegum með fríhafnarpoka og svo segir:

en flughrædda fólkið
gat ekki hugsað um neitt efnislegt
hausinn á þeim var eins og nisti
sem rúmar bara eina fjölskyldumynd

 

samkvæmt ritrýndum heimildum
er flughræðsla órökrétt
og kvíði æfing í þakklæti

Við skiljum þá mónómaníu sem vísað er í, þegar ekki er hægt að hugsa um annað en hvað gæti farið úrskeiðis og einnig könnumst við líklega flest við það þakklæti sem sú flughrædda finnur fyrir þegar ljóst er að hún hefur lifað flugið af.

Þessi jákvæðni, jafnvel pollýönnuleikur ljóðmælanda er endurnærandi. Að tala um kvíða sem æfingu í þakklæti gefur órökréttri tilfinningu langþráðan tilgang. Það er einhver von í þessum ljóðum, þrátt fyrir mikla eyðileggingu og flótta. Mælitækin gera uppreisn og þó að tónsprotar bæði dafni og deyi þá virðist vonin ekki hverfa, eins og sést í þessu ljóði:

í fyrramálið

sprettum við úr moldinni

sem ljóð

um eitthvað varanlegt  

Gagnrýnendum er ljúft og skylt að fyrirgefa frumraun skálda ýmislegt, en þetta verk krefst engra afsakana og ber með sér bæði mikla færni og reynslu. Hér eru þekkt þemu á ferðinni en það er eitthvað einstaklega heillandi við stílfestu og afdráttarleysi höfundar. Myndmálið er knappt, nákvæmt en á skjön, svo lesanda er gert að staldra við og íhuga ljóðlínurnar. Bókin hefur að geyma áferðarfalleg óbundin nútímaljóð sem innihalda gommu af samtíma og kallast á við þann heim sem þau eru skrifuð í og eiga erindi við hann. Hver kannast til dæmis ekki við þessa tilfinningu eftir allar þær jarðhræringar og þá samfélagsólgu sem einkennt hefur þetta ár:

eins og einhver

hefði gefið jörðinni selbita

fór hún að skjálfa

og hefur alltar ruggað örlítið

síðan þá

Og þó að ljóðmælandi eigi erfitt með að anda virðist hún ekki fær um að bæla niður vonina sem er gefandi áminning um mannlegan kraft á dögum átaka og hamfara.
 

Rósa María Hjörvar, nóvember 2021