Maðurinn sem hataði börn

Ár: 
2014
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Bókamenning og blekkingar

Í blaðaviðtali nýverið sagði Þórarinn Leifsson, höfundur bókarinnar Maðurinn sem hataði börn, að sagan væri glæpasaga fyrir alla aldurshópa frá 10 ára aldri og að hann væri síendurtekið að reyna að skrifa bækur sem hvorki væri hægt að skilgreina sem barnabækur né fullorðinsbækur. Þá nefndi hann einnig að sögur hans væru yfirleitt myndskreyttar af honum sjálfum og að slíkar bækur væru yfirleitt umsvifalaust flokkaðar sem efni fyrir börn og/eða unglinga. Um leið og þessi athugasemd slær ákveðinn tón í lestri lesenda á sögunni, veltir hún einnig upp hugmyndum um ólíkan lesendahóp fullorðinna og barna, og ekki síst væntingar þeirra og viðtökur á skáldskap. Á meðan börn eiga ef til vill erfiðara með að skilja og meðtaka það sem skrifað er í hæðni, sem og að koma auga á gagnrýni sem tengist málefnum úr fréttum líðandi stundar (einfaldlega af því að börn fylgjast ekki með fréttum) eru þau e.t.v. sem lesendur opnari fyrir hinu fáránlega og fantasíulega í skáldskap, svo sem talandi köttum og dansandi hundum. Nú skal ósagt látið hvort kom á undan; hrifning barna á manngerðum dýrum eða sögur af manngerðum dýrum ætlaðar börnum, sem hefur þau áhrif að börn taki slíkum sögum sem eðlilegum. Það verður einfaldlega að teljast algengara að sögur fyrir börn fjalli um dýr með mannlega eiginleika (sem dæmi má nefna sögur af Andrési Önd og í sömu andrá alla Disney flóruna) heldur en sögur fyrir fullorðna. En er þetta raunverulega svo? Eru fullorðnir ekki alveg jafn opnir fyrir slíkum sögum ef þær eru rammaðar inn af fagurfræði sem tengist hugtökum á borð við töfraraunsæi, absúrdisma, fantasíu og súrrealisma?

Maðurinn sem hataði börn er saga sem um margt minnir á bækur fyrir börn því hún hefur að geyma aðgengilegan texta, fantasíuleg efnistök og grafískar myndskreytingar en meinhæðin gagnrýni og margræðar vísanir eiga ef til vill meira erindi við eldri lesendur. Áður hefur Þórarinn sent frá sér Bókasafn ömmu Huldar (2009) og Leyndarmálið hans pabba (2007), sem fengu sinn stað í barnabókadeildum bókaverslana og bókasafna, en árið 2011 kom út Götumálarinn sem vermdi aftur á móti skáldsagnahillur þessara sömu verslana og safna. Undirrituð hefur enn ekki lesið þá síðastnefndu en getur staðfest að fyrri bækurnar eru um margt óvenjulegar barnabækur en æði frumlegar og skemmtilegar.

Maðurinn sem hataði börn fjallar um Sylvek sem flytur með ömmu sinni frá Barselóna til Íslands, nánartiltekið í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem hann hefur skólagöngu og reynir að aðlagast, eða öllu heldur kynnast og skilja íslenskt samfélag.  Í upphafi sögunnar eru Sylvek og amma hans orðin heldur leið á tíðindalitlum og grámyglulegum íslenskum veruleika en einn góðan veðurdag umbreytist samfélagið þegar fjöldamorðingi tekur að drepa unga drengi. Sylvek er sögumaður bókarinnar og sögunni er miðlað til lesenda gegnum hans vitund og sjónarhorn. Hann er jaðarpersóna sem innflytjandi og upplifir sig utangarðsmann í litla samfélaginu í Vesturbænum sem er svo skemmtilega staðbundið eða „lókal“, með Pétursbúð á næsta horni og Grandakjör úti á Granda. Sylvek fylgist með og greinir samfélagið frá jaðrinum en sögur Þórarins eiga það sammerkt að leggja áherslu á fjölbeytileikann í samfélaginu og fagna honum, skilaboð sem eiga ekki síður erindi til fullorðinna en barna.

Systir Sylveks, Æsa, sem hét marókkóska nafninu Aisha áður en hún flutti til Íslands, hefur verið horfin um nokkurra mánaða skeið. Og þegar halla tekur undan fæti í fjármálum heimilisins fá Sylvek og amma hans til sín leigjanda. Sá þykir meira en lítið dularfullur en hægt og rólega kemst á mikill vinskapur á milli hans og sögumanns þegar sá síðarnefndi bjargar hundi dularfulla mannsins frá drukknun. Dularfulli maðurinn reynist vera barnabókahöfundur sem hefur farið huldu höfði og skrifað undir dulnefni. Hann er um leið sögupersóna sem vísar í stöðu söguhöfundar verksins; athugasemdir hans um skrif og bókamenningu endurspegla aðstæður söguhöfundar og veruleika skáldsagnaskrifa í samfélaginu utan bókarinnar.

Sagan hefur því að geyma ýmsar speglanir. Hún er samtímaspegill og kirfilega römmuð inn í Reykjavík dagsins í dag með vísunum í staði og atburði sem lesendur þekkja úr eigin samtíma s.s. vesturbæinn og eldgos sem hægir á umferð háloftanna. Þá mætti einnig kalla hana spéspegil en sú Reykjavík sem birtist lesendum er að vissu leyti skrumskæld. Upphaf sögunnar minnir á sögusvið hrollvekju sem einkennist af grótesku og er vel þekkt minni úr fyrri verkum höfundar. Þegar líður á söguna tekur aftur á móti írónían yfir, fáránleiki og meinhæðinn húmor sem felur í sér hárbeitta gagnrýni á íslenskt nútímasamfélag. Undir lokin er það frásagnarspegillinn sem verður fyrirferðamikill og gerir söguna að metafiksjón eða sjálfsögu. Sagan fjallar ekki aðeins um höfund heldur kemur einnig við sögu útgáfustjóri, sem er köttur, bókamenning og örvæntingarfullar aðferðir við að auka sölu bóka. Það síðastnefnda lýsir um leið hvernig sagan verður til en sjálfsagan kristallast í því þegar titill bókarinnar, Maðurinn sem hataði börn, er fundinn af kisa útgáfustjóra og vinirnir skrifa undir útgáfusamning bókar með þeim titli. Sú saga fjallar einmitt um drengjamorðin í Reykjavík og gæti vel verið sagan sem við lesendur höfum undir höndum.

Hér er frásagnarpsegillinn ekki síst notaður til að skapa vettvang fyrir gagnrýni sem beinist að erfiðri stöðu bóka í samtímanum og keppninni við alla þá afþreyingarmenningu sem birtist í sjónvarpi, tölvuleikjum og á internetinu. Þá er hamrað á mikilvægi bóka og undirstrikað hvernig sögur eru samofnar hugmyndum um tungumálið og ræktun þess. Innflytjendurnir Sylvek og amma hans læra íslensku af bókum sem þau finna á bókasöfnum. Sylvek les myndasögur þar sem samspil mynda og texta koma honum á sporið og hjálpa honum að fóta sig í íslenskunni á meðan amma hans upplifir mikil tímamót þegar hún les eina af barnabókum Óðins Viktors, höfundarins í sögunni. Barnasagan einkennist af aðgengilegum texta sem auk þess er fléttað saman við myndir og virðist þannig aðstoða ömmuna við að ná tökum á hrognamálinu. Þeirra reynslusaga sýnir hvernig bækur veita aðgengi að tungumálinu og verða um leið að lyklum að samfélaginu.

Maðurinn sem hataði börn sver sig í ætt við fyrri sögur höfundar sem eru óvenjulegar og hressandi barnabækur og fjalla um málefni sem ber yfirleitt ekki á góma í barnabókum. Að minnsta kosti ekki í þeim allrahefðbundnustu í samtímanum. Þó má ef til vill rekja þræði til barnasagna fyrri alda sem voru um margt grimmari og margræðari en sögurnar sem börn lesa í dag. Slíkir þræðir birtast til dæmis í hugmyndunum um steratröllin í sögunni sem búa neðanjarðar og eru ógnandi afl. Í þeim birtist leikur með mannlýsingar og staðalímyndir sem lesendur kannast við úr fjölmiðlum og glamúrmenningu. Hér er þeim teflt fram til samanburðar við fyrirbæri úr þjóðsagnaarfinum og rammíslenskum sögum af tröllum svo úr verða ógnvænlegar og gróteskar sögupersónur. Steratröllin undirstrika óljós skil sögunnar; þau minna hvort tveggja í senn á óvættir í þjóðsögum fyrir börn sem og persónur úr undirheimum í íslenskum glæpasögum. Skilin á milli barnabókar og fullorðinsbókar verða svo enn óskýrari undir sögulok þegar sagan umhverfist í hálfgerða póstmóderníska sjálfsögu fyrir fullorðna.

Maðurinn sem hataði börn er því hálfgert ólíkindatól í líki bókar. En þrátt fyrir allt fjörið, fjölbreytileikann og margræðar vísanirnar í textanum hefði mátt vinna betur í plotti sögunnar og undirbyggja hápunkt og úrlausnir hennar betur. Umsnúningurinn er það mikill að það skapast rof milli fyrri hluta sögunnar og seinni hlutans sem höfundur virðist afgreiða með heldur fljótfærnislegum hætti. Að því sögðu vona ég að höfundur haldi áfram að virða að vettugi skilin á milli ólíkra bókaflokka og haldi áfram að hrista upp í kerfinu eins og sönnum pómóprakkara sæmir.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2014