Mörg eru ljónsins eyru

Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Eiginmaður deyr

Það er svolítið eins og skáldsaga Þórunnar Erlu- Valdimarsdóttur, Mörg eru ljónsins eyru, viti ekki alveg hvað hún vill vera þegar hún verður stór. Bókin er sjálfstætt framhald glæpasögunnar Kalt er annars blóð (2007) en þar færði Þórunn Njálu til samtímans og bjó út sem glæpasögu. Hér er það Laxdæla sem fær samskonar meðferð, en nú virðist sem höfundur hafi ekki alveg getað gert upp við sig hvort hún vildi skrifa nútímaútgáfu af Laxdælu eða glæpasögu og því virkar sagan dálítið jafnvægislaus, of mikil um miðjuna (svona svolítið eins og rannsóknarlögreglumaðurinn Leó). Þetta er ekki fyrsta bók Þórunnar sem vísar til Laxdælu því skáldsagan Alveg nóg frá 1997 gerir slíkt hið sama, þótt á annan hátt sé.

Sagan hefst á því að lík Kjartans finnst og löggan Leó úr Kalt er annars blóð er sendur á staðinn. Honum finnst þetta sérlega óþægilegt, því hann þekkir sögu Kjartans og Guðrúnar og hefur að auki sængað einu sinni hjá Guðrúnu. Líkið er því kviðmágur hans. Svo hefst eftirgrennslan og Leó spyr Hrefnu, konu Kjartans, út í samskipti hans við frændann og fornvininn Bolla, en í ljós kemur að þeir hafa átt sökótt vegna fjármála í kjölfar kreppunnar. „En sagan er lengri” segir Hrefna. „Miklu lengri. Það tók mig tíma að átta mig á stöðunni sem ég lenti í, forsögu þeirra þriggja. Frændanna og Guðrúnar.” (15) Og Leó „teygir úr löppunum” og segir „Áttu kaffi? Ég hef nógan tíma.” (16) Og þar með hefst nútímaútfærslan á Laxdælu sem tekur næstu 230 síðurnar eða svo, en það er ekki fyrr en á blaðsíðu 257 sem glæpasagan fer aftur af stað; bókin er í heild 322 síður. Það er því ljóst að hlutur glæpasögunnar er ansi rýr, hún virkar meira eins og rammi utanum sagnagleði höfundar, sem nýtur sín til hins ýtrasta í því að fanga þessa fornu sögu inn í nútímann. Ég neita því ekki að ég hafði afskaplega gaman af, en þó truflaði það mig við lesturinn hversu mikla skemmriskírn glæpaplottið fékk.

Þess ber að geta að það er ekki bara Laxdæla sem breiðir úr sér á þessum 230 síðum, samhliða henni er sögð saga lögreglumannsins Leó. Að því leyti sver bókin sig í ætt við lögreglusögur í anda sænska parsins Sjöwall og Walhö og fleiri norrænna sagna sem fylgt hafa í kjölfarið (Mankell, Nesbø, Läckberg, Arnaldur, Ævar Örn), en einkenni þessarar undirtegundar glæpasögunnar er að lögreglufólkið sjálft er ekki síður til umfjöllunar en glæpurinn, fórnarlambið og rannsóknin. Þannig fylgjum við lífi Leós frá konu til konu, fylgjumst með vaxandi bumbu og átökum innan lögregluteymisins. Sagan er því öðrum þræði saga Leós, en nótt hans með Guðrúnu (sem þá var ekkja), eyðileggur endanlega samband hans við barnsmóður sína.

Guðrún er þekkt fjölmiðlakona og hittir Leó fyrst þegar eiginmaður hennar og tvö stjúpbörn farast í sjóslysi. Leó er fullur samúðar og hrifningar, en lesendur Kalt er annars blóð muna vel að hann er dálítið kvensamur. Síðan er lýst kynnum Guðrúnar af Kjartani og Bolla, samdrætti við Kjartan og vandamálum sem því sambandi fylgja. Foreldrar Kjartans eru nokkuð erfiðir og sonur Guðrúnar frá fyrsta sambandi þolir ekki Kjartan, en líkar vel við Bolla. Allt er þetta skemmtilega gert og forsaga ólíks uppruna þeirra frændanna er vel útfærð, meðal annars með því að láta Kjartan vera æstan sagnfræðing sem kynnir sér sögu forfeðra sinna. Þetta gerir hann þegar hann fer óvænt utan að ljúka doktorsnámi í sagnfræði og ætlast til að Guðrún komi með, þó án þess að hafa ráðfært sig við hana að neinu leyti. Guðrún er stórhuga og rokgjörn og samband hennar við Bolla kemur til af þessum ósanngjörnu kröfum Kjartans (hér er skemmtilegur viðsnúningur, en í Laxdælu er hún fúl yfir því að mega ekki koma með). Sambandið molnar svo þegar Kjartan snýr aftur, en ljóst er að það logar enn á milli þeirra tveggja.

Ég ætla nú ekkert að rekja þetta frekar, né fara út í frekari samanburð við söguna, því það er svo miklu skemmtilegra fyrir lesendur að gera það sjálfir, en bókin beinlínis kallar á allskonar upprifjanir og uppflettur, alveg eins og Kalt er annars blóð. Út af fyrir sig nægir það til að ‘gera’ söguna, en þó get ég ekki annað en harmað örlög glæpaplottsins.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010