Óratími

óratími
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fallvölt framtíð og framandi heimar

Óratími er smásagnasafn sem inniheldur níu vísindasmásögur eftir átta höfunda sem vinna saman í félagsskapnum smasogur.com. Óratími er tíunda smásagnasafnið sem smasogur.com gefur út en öllum góðum pennum (eins og þau segja í kynningu á bókinni) er frjálst að taka þátt í samstarfinu. Þátttakendur velja sjálfir þema smásagnanna og hingað til hafa meðal annars komið út söfn með ástarsögum, krimmum og hrollvekjum. Á síðasta ári náði svo gamansagnasafnið þeirra LOL inn á metsölulista Eymundsson. Höfundarnir sem eiga sögur í safninu að þessu sinni eru þau Árný Stella Gunnarsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Einar Leif Nielsen, Elísabet Kjerúlf, Hákon Gunnarsson, Róbert Marvin, Jóhanna K. Atladóttir og María Siggadóttir.

Óratími hefst á nokkrum örsögum þar sem höfundar spreyta sig á að segja sögur sem eru ekki lengri en 39 orð. Þessar sögur gefa skemmtilega tóninn fyrir það sem koma skal og mikið af þemum og hugmyndum sem koma fyrir í lengri útgáfu í sögum síðar í bókinni birtast hér í fyrsta skipti. Þar má nefna sígild umfjöllunarefni vísindaskáldsagna eins og tortímingu mannkynsins, umhverfishamfarir, geimverur, vélmenni og tímaflakk:

Geimfarinn starði skilningslaus á Jörðina sem stóð í ljósum logum. Í geimskipinu ríkti dauðaþögn. Síðustu fimm manneskjurnar í alheiminum skildu ekki hvernig allt líf á plánetunni gat tortímst á einni klukkustund. Sjötta veran í skipinu vissi nákvæmlega hvernig. (bls. 12)

Örsaga eftir Árnýju Stellu Gunnarsdóttur

Framtíðarsýnin sem birtist í sögunum er oft og tíðum myrk og drungaleg og sögusvið þeirra margra staðsett í dystópísku umhverfi eftir að hamfarir hafa valdið heimsenda eða hruni samfélagsins sem við þekkjum. Margir höfundanna vinna líka með óþægilega viðsnúninga í sögum sínum sem setja atburði þeirra eða persónur í nýtt samhengi og kollvarpa væntingum lesenda. Eins taka þau mörg hver fyrir kunnugleg atriði úr samtímanum og ýkja í framtíðarsýn sagna sinna. Lesendur munu til dæmis sjá mörg af áhyggjuefnum dagsins í dag skjóta upp kollinum í Óratíma: Heimsfaraldur (hvort sem hann er af völdum KOVID-2716, ROVID-27 eða einfaldlega veirunnar), umhverfishamfarir, óbrúanlegt bil milli ríkra og fátækra og vald tækninnar yfir lífi manna. Vísindaskáldsögur og dystópíur eru enda vinsæl bókmenntaform til að fjalla um vandamál líðandi stundar og hafa oft og tíðum verið notaðar til að gagnrýna og vekja lesendur til umhugsunar um það sem betur mætti fara í samfélaginu. Eins er vísindaskáldskapur oft notaður til að takast á við kvíðavaldandi málefni og gefur lesendum tækifæri til að ímynda sér þau úr öruggri fjarlægð.

 

Óratími hefst á tveim sögum sem taka fall mannkynsins sem útgangspunkt. "Blóðminjar" eftir Árnýju Stellu Gunnarsdóttur, fyrsta sagan í bókinni, segir frá Hörku sem er síðasta mannveran í alheiminum og baráttu hennar fyrir lífi sínu og afkomu tegundarinnar. Næsta sagan í bókinni, "Þrílitur köttur boðar gæfu" eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, gerist einnig eftir einhverskonar hörmungar þar sem aðeins lítill hluti mannkynsins hefur lifað af. Sagan segir frá mannkyni sem lifir í eyðilögðu landslagi undir verndarhjúp sem þau kalla lífhvolf og enginn getur lifað fyrir utan. Konur fara með öll völd í þessu samfélagi þar sem ströng stéttaskipting ríkir. Yfirkonurnar njóta meðal annars þeirra forréttinda að geta farið í frí til Íslands þar sem ennþá er hægt að fara út undir beran himinn:

Flestir staðir utan lífhvolfanna voru orðnir óbyggilegir. Það var á einstaka norðlægum slóðum, þar sem vindar blésu og loftið var kalt eins og á Íslandi, þar sem hægt var að fara út fyrir glerhjúpinn til að upplifa hvernig var að vera í stormi og hríð. Enda var það vinsælt hjá yfirkonunum að sækja sér kraft þangað í fjallalandi með fossunum sem steyptust niður hlíðarnar, þar sem einu sinni höfðu verið jöklar að sögn. Hún hafði aldrei komið þangað enda í millikonustétt. (bls. 60)

Stéttaskipting er einnig augljós í næstu sögu bókarinnar, "Gallað eintak" eftir Einar Leif Nielsen, en þar grípur söguhetjan Þorkell til sinna ráða þegar honum ofbýður framkoma ríks pars á Álftanesinu gagnvart vélbarni sínu. Það er ekki algengt að lesendum gefist færi á að lesa vísindaskáldskap sem gerist í íslensku umhverfi og því er gaman að sjá hvernig fer fyrir landanum (og landinu) í framtíðarsýn höfundanna í Óratíma. Framtíð Íslands er þó sjaldnast björt eins og sést í fjórðu sögu bókarinnar, "Appið" eftir Elísabet Kjerúlf, en þar leitar söguhetjan á náðir fortíðarapps til að flýja raunveruleika sinn í Reykjavík þar sem „[a]llt var horfið; Vesturbærinn sem var, miðbæjarkjarninn og Austurbærinn ásamt allri byggðinni sem hafði staðið suður með sjó í átt að gamla alþjóðaflugvellinum. Þar var ekkert land lengur, bara úfið haf“ (bls. 94).

Í fimmtu sögu bókarinnar, "Vélræna garðyrkjusagan" eftir Hákon Gunnarsson, kveður við nýjan tón og nálgast sú saga umfjöllunarefni sitt af meiri kímni og léttleika en sögurnar á undan. Við fyrstu sýn steðja hér ekki að hættulegri vandamál en órækt garða í Fagrabæ. Friðfinnur bæjarstjóri ákveður að nýta sér tæknina til að koma böndum á ástandið og festir kaup á garðyrkjuvélmennum til að snyrta garða bæjarins. En eins og svo oft vill verða í vísindaskáldskap þá er tæknin ekki einföld lausn og greina má ádeilu undir gamansömu yfirborðinu.

Sjötta saga bókarinnar, "Dóttir tímavarðarins" eftir Jóhönnu K. Atladóttur, er hreinræktað tímaflakksævintýri. Þar er sagt frá því hvernig unglingsstúlkunni Emmu tekst að forðast galdrabrennu í Skotlandi árið 1634 með því að hoppa fram í tímann til Íslands nútímans. Hér fær þjóðsagnapersónan Sæmundur fróði einnig nýtt hlutverk og lesendur komast að því að hann fór ekki í Svarta skóla til að læra galdur heldur hvernig á að stjórna tímagáttinni. Sjöunda saga bókarinnar, "Táknmál norðurljósanna" eftir Maríu Siggadóttur, gerist einnig á Íslandi en þar ferðast söguhetjan ekki um tíma heldur rúm. Söguhetjan Helgi hugsar um afa sinn Eggert, sem er sérvitur vísinda- og uppfinningamaður og slysast einn daginn til að ræsa víddarflakksvéina hans. Síðustu tvær sögur bókarinnar, "Annað líf" og "Undir regnboganum" báðar eftir Róbert Marvin, snúa aftur með lesandann á kunnuglegar slóðir myrku framtíðarsýnarinnar. Í "Annað líf" segir frá því hvernig vitund söguhetjunnar Sigrúnar er flutt yfir í annan líkama með ófyrirséðum afleiðingum og í "Undir regnboganum" kynnumst við mæðgunum Guðrúnu og Hönnu og baráttu þeirra við verurnar sem ætla að taka yfir jörðina.

Óratími er uppfull af skemmtilegum og skapandi hugmyndum og gaman að sjá sígild umfjöllunarefni vísindaskáldsagna sett á svið í Íslensku umhverfi. Flestar sögurnar eru vel heppnaðar en höfundum tekst þó misvel að skapa trúverðugan heim í sögum sínum. Enda er mjög snúið að gera það í svona stuttum smásögum, sérstaklega þar sem vísindaskáldskapur krefst oft meiri útskýringa en önnur sagnaform. Það er erfið slóð að feta milli þess að mata lesandann á upplýsingum þannig að sagan og persónusköpunin líði fyrir og þess að segja söguna og hætta á að lesandinn skilji ekki heiminn sem hún gerist í. Þegar á heildina litið er Óratími skemmtileg lesning og áhugavert innlegg í vísindaskáldskap frá íslenskum höfundum.
 

Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, nóvember 2021