Perlan: meint skinkuvæðing íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins

Perlan: meint skinkuvæðing íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins
Ár: 
2017
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Perlan

Aðalpersóna nýrrar skáldsögu Birnu Önnu Björnsdóttur, Perlan, er kona sem er einfaldlega fræg fyrir það að vera fræg. Vinsældir hafa elt Perlu Sveinsdóttur frá unga aldri og gert hana að fyrirmynd annarra í klæðaburði og hegðun löngu fyrir tíma internets og raunveruleikastjarna. Hún gerir tilraun til þess að lifa á frægðinni, en í kjölfar Hrunsins snýst allt í höndunum á henni og hún fer frá því að vera tískufyrirmynd yfir í ímynd sjálfshverfu og óhófs. Henni tekst með herkjum að flýja sviðsljósið og er öllum gleymd þangað til að nafn hennar birtist í frétt um vitnalista í máli tengdu stríðsglæpum. Í ljós kemur að Perla hefur, líkt og Naomi Campbell forðum, tekið á móti demöntum frá manni sem er tengdur inn í alþjóðleg spillingarmál.

Perla er einkabarn úr Fossvoginum, alin upp af móður sem virðist eiga í vandræðum með að tengja við tilfinningar annarra og föður sem hefur beinlínis andúð á dóttur sinni þegar hér er komið sögu. Í barnæsku fékk hún allt sem hugurinn girntist nema ástúð og athygli foreldra sinna, og er mörkuð af því.

Sagan fjallar þannig um næstum-því-meikið, að „gera það gott í útlöndum“, um það í hversu miklum mæli konur eru gerendur í sinni eigin hlutgervingu, og það líf sem stendur þessum stjörnum til boða.

Við kynnumst líka Ingigerði, kynjafræðingi og stundakennara við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað fyrirbærið Perlu á fræðilegum grunni. Ingigerður baslar við stundakennslu og rannsóknir og við að finna gleðina í stöðnuðu lífi sínu í Reykjavík. Hún hefur helgað fræðistörf greiningum á Perlunni sem fjölmiðlafyrirbæri og svokallaðri skinkuvæðingu Íslands.

Það vekur eftirtekt að bæði kynjafræðingurinn Ingigerður og Perla lifa lífinu í algjörlega kynjaskiptum heimi. Karlmenn eru kvíðavaldar, andstæðingar eða stöðutákn í neyslumenningu þar sem allt snýst um að skara sem mestan eld að eigin köku. Undantekninginn er Guðrún Dögg, gömul vinkona Perlu, sem lifir staðallífi smáborgarans í einlægu samlífi við manninn sinn.

Bókin fjallar líka um vináttu kvenna, hvernig hún þróast og hvernig hún getur glatast í hringrás hversdagsins ef ekki er vel að gáð. Perla er hluti af 13 kvenna vinahóp sem hefur haldið saman frá því að þær kynntust barnungar í djassballet. Þessi hópur er á annan bóginn stuðningsnet, en virkar líka á hinn bóginn sem dómstóll og speglar þannig þann dómstól sem Perla fer fyrir í London. Þegar fréttir af réttarhöldunum kvisast út hittist hópurinn heima hjá Guðrúnu Dögg til þess að ræða málin: „Guðrún Dögg var orðin vön því sem „besta vinkona“ Perlu að finnast hún þurfa að verja hana í sífellu og þar með að verja sjálfa sig um leið því auðvitað litaðist mannorð hennar sjálfrar af nándinni við hana.“

Þegar umfjöllunarefnið er sjálfhverfa nútímasamfélagsins er óhjákvæmilegt að verkið verði ansi sjálfhverft. Textinn er léttur og skemmtilegur og rennur vel, eins og hér þar sem Perla segir frá: „Þetta var það sem hún hafði gert með reglulegu millibili í öll þessi ár. Farið á yfirgengilega hrá trúnó með bláókunnugu fólki, tæmt sig inn að beinmerg og haldið svo áfram veginn sótthreinsuð að innan eins og eftir tveggja vikna djúsföstu.“ (155)

Í þessum villta heimi sögunnar þar sem allt er leyfilegt leynist undir yfirborðinu fjöldinn allur af óskrifuðum reglum; fólk þarf að lesa í og túlka hegðun annarra og meta stöðu sína gagnvart þeim. Hér er á ferðinni einskonar psykopatakúltúr þar sem fólk er mjög næmt á að lesa hvert annað en því fylgir engin samkennd eða skilningur. Úr verður lýsing á flóknu þjóðfélagi sem minnir á Viktóríu-tímann þar sem ómældur tími fer í að túlka háttalag annarra og kynin lifa í tveimur algjörlega aðskildum heimum.

Þetta er saga um okkar eigin samtíma, sem flettir ofan af þjóðfélagi þar sem fólk hefur alltaf meiri tíma til að tala um einhvern en við einhvern og þar sem harkan er í hámarki. Verkið er samt sjálft laust við dómhörku og gefur persónum og leikendum nægan tíma til þess að greina frá sér og sinni stöðu. Þetta er því skemmtileg bók sem á erindi til mjög margra, bæði yngri lesenda sem þekkja til í þessu raunveruleikhúsi internetsins og þá eldri sem eru ef til vill að læra á það.

Rósa María Hjörvar, desember 2017