Sæunnarkveðja: sjóljóð

Höfundur umfjöllunar: 

Á sjó

Sjóljóðabókin Sæunnarkveðja er fimmta bók Gísla Þórs Ólafssonar, en sú fyrsta, Harmonikkublús kom út árið 2006. Í bókum sínum hefur Gísli Þór gert ýmsar tilraunir með ljóðformið sem sannast sagna hafa verið afar misvel-heppnaðar. Í þessari nýjustu bók sinni er hann kominn út á sjó en bókin er einskonar heildstæður ljóðabálkur og segir frá sjóferð. Ljóðmælandi (stundum einmitt svonefndur í ljóðunum) er í ástarsorg, hann saknar sárlega einhverrar konu og les ljóð Hauks Ingvarssonar og veltir fyrir sér ljóðinu og lífinu.

Það er ýmislegt skemmtilega gert í þessari nýjustu bók Gísla Þórs, hér er meiri liðleiki og léttleiki en í fyrri bókunum og þó tilraunastarfssemin virðist ekki alltaf hafa neinn sérstakan tilgang er margt vel heppnað. Meðal formtilrauna má nefna flóknar uppsetningar á síðu, eins og á síðu 27, en þar virðist vera teiknuð upp einskonar mynd í texta, en samt er ekki vel hægt að sjá út hvað þetta á að vera, eða hvað þetta á að gera. Leturbreytingar og ferðalag örstuttra ljóðlína um síðurnar virka betur og gefa einmitt tilfinningu fyrir því róti tilfinninga og (undir)alda sem bókin gerir út á.

Tilvísanir til annarra skálda og skáldskapar eru nokkrar, en fyrir utan Hauk Ingvarsson er vísað til sagna og ljóða um haf og sjófugla, eins og kemur fram strax í fyrsta ljóðinu, en þar sest skelfing stór fugl á skipsborða, „byrjar að tala” og fer með vísu sem hefst á línunni „Falla himinfley” og endar á yfirlýsingunni: „þú misstir það en það var þér sjálfum að kenna”:

Ég (eða ljóðmælandinn, klökkur): Nú, var það þannig
ástandi?
Fuglinn: Já

síðan fór ég innávið

Hér er upphafsljóðið notað til að setja tóninn og setja lesanda inn í þema verksins og tekst ágætlega, allavega hvatti þetta mig til að forvitnast áfram inn í bókina. Og svo heldur sjóferðin áfram, með sjóveiki („ég íhugaði þó eitt andartak að vera hetja og / nefna ekki veikindin”) sem er svo slæm að „sennilega hefur mér ekki liðið svona illa síðan / ég hætti að drekka”. Drykkja kemur svo aftur fyrir þegar sjóferðin fer að venjast:

Annars er þetta eiginlega ekkert mál
bara dáldið eins og að vera í útlöndum
nema ódrukkinn
ég hef aldrei verið ódrukkinn í útlöndum

Það er einhver skemmtilegur tónn hér, hæfilega sjálfsháðskur og svolítið naífur. Skiptingar milli töffaraskapar (salti sjóarinn) og aumingjaskapar (sjóveikur og hræddur við fugla og hunda og margt annað) koma oft vel út og á stundum kallar Gísli fram ævintýralegar myndir af lífi úti á hafi, „fiskarnir í kýrauganu” koma í stað sjónvarps „og ég sé að fuglar nota líka vængina neðansjáfar”. Hann yrkir ljóðabók og leikrit: „leikrit um sjóræningja og páfagauka og hval og raun og bata”, og sendir svo „handritið út með bréfdúfu sem / froskadama í nornabúningi festir við fót dúfunnar”.

Eitt þema bókarinnar er endurkoma stúlkunnar, sem kafara, en kafarar og jafnvel froskverur stinga víða upp kollinum - og það er tekið fram að þeir eru kvenkyns og að þetta er óskhyggja ljóðmælanda. Sumar þessara kafaramynda eru skemmtilegar eins og þessi hér sem ber yfirskriftina „Í búningadeildinni (leikhúsljóð I)

Ég á gamlan kafarabúning
með glerhjálmi
en ég kafa ekki
þori ekki að kafa
enda er hann meira til skrauts

en hver er kafarinn?

Það kemur svo í ljós, eins og áður segir, að kafarinn er konan sem ljóðmælandi saknar og hugsar stöðugt til og dreymir um að komi uppúr hafinu „með eintak af Bowie plötunni Scary Monsters (And Super Creeps) undir hendinni”. Þessar kafaramyndir geta þó orðið dálítið ofkeyrðar, bæði þetta með ítrekunina á kyninu og svo þegar kafarinn rennur saman við hafmey.

Í heildina séð er þetta dálítið völt sjóljóðabók. Skemmtilegar myndir og athugasemdir skjóta upp kollinum, en það hefði þurft að pússa mörg ljóðanna betur, þau bera sjálf sig stundum ofurliði. En inni á milli eru verulega fínir hlutir eins og þessi stemning sem ber yfirskriftina „Dálítill sjór”:

Í dag er hægt logn
og breytileg átt
hálfskýjað
vestsuðvestan 1
hiti 3 stig

sjólítið

þægilegt kul í lofti
hafís í nánd
flugvallaljós í fjarska

kannski kemur hún á kafbáti

Hér renna hugleiðingar ljóðmælanda samlaust saman við veðurlýsinguna og kalla fram skemmtilega mótsagnakennda tilfinningu fyrir rými og víðáttum, og ólíkum tegundum ferðamáta.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011.