Saffraneldhúsið

Höfundur: 
Höfundur umfjöllunar: 

Tveggja heima sýn

„eins og okkar litla einkasneið af Íran í bakgarðinum“ (120) segir faðir Söru, eiginmaður hinnar írönsku Maryam, þegar hann rifjar upp heimsóknir systra hennar. Þá var slegið upp grillveislu í garðinum og dansað. Síðan kom byltingin, þá varð allt erfiðara. „Þetta er ekki mitt Íran“ (121), sagði Maryam þegar hún horfði á fréttir af hengingum. En hvert er hennar Íran? Ef marka má sársaukafullar minningar af framkomu föður hennar vegna óleyfilegrar ástar á ungum manni af lægri stéttum skyldi lesandi ætla að ‘hennar Íran’ væri ekki endilega svo eftirsóknarvert heldur. Þó kýs hún að snúa þangað aftur, í kjölfar sársaukafullra atburða.

Á vissan hátt er Saffraneldhúsið nokkuð óskiljanleg bók. Þetta er saga um eftirsjá og ólíka menningarheima, togstreitu á milli (í það minnsta) tvegga lífa, tveggja heimsmynda: Íran og Englands. Það viðfangsefni er í sjálfu sér ekki svo óskiljanlegt, heldur frekar það í hvaða form viðfangsefnið er fært, eða kannski er málið frekar það að í bókinni er ekki boðið uppá neina ásættanlega niðurstöðu. Í svo hefðbundinni fjölskyldusögu virkar þetta vissulega dálítið þversum, en þó er þetta niðurstöðuleysi í raun það eina mögulega, öll önnur afgreiðsla hefði verið of mikil einföldun.

Sagan hefst á fósturláti. Sara er á kaffihúsi með móður sinni og ungum systursyni hennar, Saeed, en hann er kominn til Englands eftir dauða móður sinnar. Maryam og Saeed sinnast og Maryam slær hann. Drengurinn ærist og hleypur út á brúna og Sara á eftir og missir fóstrið í átökunum. Full samviskubits og sorgar flýr Maryam til Íran, og nú alla leið til lítils þorps þaðan sem hún á sínar bestu minningar. Og svo heyrum við sögu hennar, jafnframt því að Sara rifjar upp minningar frá samskiptum þeirra mæðgna í Englandi og lýsir viðbrögðum föður síns við ferð eiginkonunnar. Að lokum heimsækir Sara móður sína til litla þorpsins í Íran og öðlast þar örlítið meiri skilning á lífshlaupi hennar.

Þrátt fyrir ýmsa galla - sem felast aðallega í nokkuð hástemmdri dramatík á stundum, eins og í upphafsatriðinu – er Saffraneldhúsið gott dæmi um það hvernig skáldskapur getur skilað mun margraddaðri sýn á átakamálefni en til dæmis sagnfræðilegt rit. Togstreitan milli austurs og vesturs, Islamstrúar og vestrænna gilda, er hér færð í form mótsagnakenndra minninga konu sem vissulega leið fyrir hefðir heimalandsins, en saknar þess þó, því þar liggja rætur hennar. Og hún lýsir því hvernig það að koma til annars lands, lands frelsisins, býður uppá ný höft og hömlur, þarsem hún þarf stöðugt að sýna aðgát í því sem hún segir og gerir. Þannig er okkur einnig gefin innsýn í okkar vestræna heim (þó fulltrúar hans, hinir ensku eiginmenn, séu óþarflega fullkomnir) sem er ekki endilega sú sem við viljum halda á lofti.

Fyrir utan hinn trúarlega og (kvenna)pólitíska þátt sögunnar þá fylgir henni ákveðinn framandleiki sem höfundur fangar í lykt og áferð. Lýsingar á heimilisháttum, mat, klæðnaði og ilmefnum eru sérlega áhrifaríkar og auðga textann mjög og auka á möguleika lesanda til að setja sig inní heim Maryam og skilja ást hennar á heimalandinu. Dóttirin Sara er þar einskonar fulltrúi lesanda, sem einmitt kynnist Íran í gegnum þessa silkimjúku ilmandi og litríku áferð sem minnir á ævintýri, en einn þráður sögunnar er einmitt ævintýrið um ungu stúlkuna Gossemarbart sem ber nafn fjalls.

Þýðing Elísu Bjargar skilar þessum heimum með glæsibrag.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2007