Sendiherrann

Höfundur: 
Ár: 
2006
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Skáldskapurinn og lygin

Ljóðskáldið og húsvörðurinn Sturla Jón Jónsson er á leiðinni á ljóðahátíð í heilsulindabænum Drusinkininkai í Litháen, þangað er hann sendur af íslensku þjóðinni sem hefur kosið hann sem sinn sérlega menningarlega sendiherra að þessu tilefni. Sturla Jón hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur sem hafa vakið sívaxandi athygli íslenskra ljóðunnenda en enginn veit hinsvegar að hann er um það bil að söðla um, hann hefur ort sitt síðasta ljóð og ætlar nú að snúa sér að annarskonar skáldskap.

Sturla Jón Jónsson er ekki að gefa út ljóðabók fyrir þessi jól, hann er aðalpersóna í Sendiherranum, nýrri skáldsögu Braga Ólafssonar, sem kom út á dögunum. Sendiherrann minnir sumpart á fyrri skáldsögur Braga, frásagnarhátturinn er kunnuglegur þar sem brotum og vísbendingum er raðað saman á sérstakan hátt, ýjað er að ýmsum atvikum sem síðar reynast mismikilvæg, þráðum er fylgt vandlega eftir og spennan liggur ekki síst í því hvernig brotunum er raðað saman. Ekki er þetta þó spennusaga í neinum hefðbundnum skilningi en í óhefðbundnum skilningi gæti hún talist glæpasaga án þess að nánar verði farið út í það hér, væntanlegum lesendum er látið eftir að uppgötva hvað átt er við.

Sagan hefst í Reykjavík og eins og svo oft áður skapar Bragi heim eða sögusvið sem er býsna nákvæm eftirlíking af heiminum eins og við þekkjum hann en samt einhvern veginn á skjön. Reykjavík er ekki Reykjavík í þessari sögu, hún er lymskulega annarleg spegilmynd af henni. Auðvitað eru staðir sem vísa til veruleikans alltaf skáldskapur í bókum en í verkum Braga er sérlega sterk tilfinning fyrir einhverskonar hliðarskynjun af heiminum sem er bæði heillandi og háskaleg, jafnvel martraðarkennd á köflum. Þessi tilfinning fyrir staðsetningu og andrúmslofti er hreint afskaplega heillandi, það liggur alltaf eitthvað í loftinu, það er alltaf eitthvað um það bil að gerast, einhver fínleg spenna sem erfitt er að henda reiður á rafmagnar andrúmsloftið. Oftar en ekki veit lesandinn jafnvel nákvæmlega hvað hefur gerst en spennan er til staðar engu að síður. Þessi skáldsaga einkennist líka af meðvitund um skáldskapinn, líklegast er þetta einkenni meira áberandi hér en í öðrum verkum höfundarins enda fjallar hún um skáld og glímu þess við veruleikann. Þessi glíma birtist ekki síst í skrifum Sturlu um áðurnefnda ljóðahátíð, hann skrifar grein um hana áður en hann leggur af stað þar sem hann tekur mið af dagskránni og reynslu sinni af fyrri ljóðahátíðum, hann gerir semsagt grein fyrir því hvernig hann reiknar með því að hátíðin muni fara fram. En auðvitað er upplifunin síðan allt önnur þegar til Litháen er komið en undir lok ferðarinnar skrifar hann aðra grein sem ætlað er að koma í stað hinnar og þá birtist enn annar veruleiki sem er einnig á skjön við það sem raunverulega gerist samkvæmt frásögninni sjálfri. Lesandinn veit auðvitað ekki þegar upp er staðið hvað gerðist í raun og veru og þannig verður skáldskapurinn í lífinu allt í einu svo áþreifanlegur.

Það er í sjálfu sér ekki ný tíðindi að Braga Ólafssyni farist það vel úr hendi að skapa stemningu, vekja upp illskilgreinanlegan óhugnað og byggja upp sögu með ýmsum smáatriðum og fíngerðum þráðum sem síðan tengjast á mörgum plönum. Hann hefur auðvitað fyrir löngu sýnt fram á að hann hefur mikið vald á frásagnartækni og kemur lesendum sínum sífellt á óvart hvað það varðar. Það er hinsvegar sérstakt í þessari bók hversu vel tekst til með eiginlega persónusköpun en mig grunar að lesandinn muni ná mun meiri tengslum við skáldið Sturlu Jón Jónsson en margar aðrar persónur í verkum Braga. Það er líklegast ekki beinlínis rétt að segja að hér séu persónur heilsteyptari en í fyrri skáldsögunum, kannski má heldur segja að lesandinn fái fleiri og betri tækifæri til að kynnast þeim. Það á að minnsta kosti við um Sturlu Jón sem er bæði einhvern veginn kunnuglegur og framandi, hann er hinni sígildi Íslendingur að því leyti að hann er sprottinn úr eigin jarðvegi, hefur vasast í ýmsu og farið sínar eigin leiðir í lífinu. Hann er hinsvegar jafnframt haldinn nagandi efa um lífsstarf sitt og óttinn við tilgangsleysið er alltaf nálægur, en fátt er einmitt jafn óhugnanlegt og grunurinn um tilgangsleysi lífsins. Það má kannski segja að hér sýni höfundurinn virkilega hvað hann getur, það er meira kjöt á beinunum en oft áður og hann leyfir lesandanum að gægjast mun dýpra inn í heim sögunnar en hann hefur leyft sér hingað til og því verður frásögnin persónulegri og innilegri en lesendur hans eiga að venjast. Í Sendiherranum er einhver ný vídd sem gerir frásögnina stærri og dýpri og er hún án efa merkasta skáldsaga Braga Ólafssonar til þessa.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, nóvember 2006