Sjáðu svarta rassinn minn

Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Renni, renni bókin mín...

Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að drekka í mig íslenskar þjóðsögur og ævintýri (er það reyndar ekki enn), en þetta menningaruppeldi æskunnar er án vafa mitt mikilvægasta. Þjóðsagnaarfurinn er óþrjótandi uppspretta þekkingar og hugleiðinga og hefur nýst rithöfundum sem innblástur, nú síðast má sjá ummerki draugasagnahefðarinnar í skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig. Sú bók hefur einmitt notið mikilla vinsælda, sem segir sitt um þorsta lesenda eftir almennilegum útgáfum á þessum oft afskipta menningararfi (sem að mínu mati er margfalt merkilegri en þetta Íslendingasagnadót sem allir eru alltaf að mæra). Nokkrar myndabækur sem byggja á þjóðsagnagnægtinni hafa komið út á undanförnum árum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gaf árið 2007 út sagnasafnið Vel trúi ég þessu þar sem myndlýsar eru fengnir til að varpa nýju ljósi á misþekktar sagnir og sögur, íslenskar kynjaskepnur öðluðust árið 2008 nýtt líf í samnefndri bók þeirra Jóns Baldurs Hlíðbergs og Sigurðar Ægissonar, Jan Pozok endurskapaði íslenskt ævintýri í myndasögu sinni Úrg ala buks unum (2006) og árið 2002 kom út safnið Furðudýr í íslenskum þjóðsögum eftir Björk Bjarnadóttur og Guðrúnu Tryggvadóttur. Allar eru þessar bækur sérlega góð dæmi um vel unnar tilraunir til að halda merkjum þjóðsögunnar á lofti.

Þær systur, Bryndhildur og Þórey Mjallhvít, ganga enn lengra í bók sinni Sjáðu svarta rassinn minn, en þær láta sér ekki nægja að gefa sögunum nýtt líf í myndum og lítillega aðlöguðu máli heldur eru sögurnar endursagðar og beinlínis umskrifaðar. Fáu er þó verulega breytt, þó heilmiklu sé aukið við, og þá sérstaklega hvað varðar tilfinningar persóna. Allar breytingarnar miða að því að gera söguna skiljanlegri nútímalesendum, án þess þó að færa hana til okkar tíma.

Í stuttu máli sagt er þetta með eindæmum vel heppnað verkefni. Bókin inniheldur fimm sögur og ég hefði viljað hafa þær svo miklu miklu fleiri. Sögurnar eru: „Kolrassa krókríðandi”, „Garún, Garún”, „Seiðskrattar og sauðaleggir”, „Signý karlsdóttir og Hlini kóngsson” og „Sjáðu svarta rassinn minn”. Glöggir lesendur hafa þegar áttað sig á að fjórar þessara sagna hafa að geyma öflugar kvenhetjur og þegar í ljós kemur að „Seiðskrattar og sauðaleggir” byggir á sögunni um galdramennina sem földu sig í Vestmannaeyjum meðan plága eyddi Íslandi, þá bætist fimmta kvenhetjan við.

Sögurnar innihalda nefnilega allar flottar kvenhetjur, og þetta ítreka þær systur í eftirmála. Nú væri gaman að hafa tíma til að gera dálitla könnun á þjóðsögunum, en í mínu minni eru þær einmitt morandi í hugrökkum og flínkum kvenhetjum, sem hafa ráð undir hverju rifi - en kannski er það valminni. Allavega þá er það beinlínis ætlun höfunda að vekja athygli á kvenhetjum sagnanna og það tekst þeim svo sannarlega, því það urðu ekki litlir fagnaðarfundir þarna. Ég rifjaði upp kynnin við hina úrræðagóðu Helgu, öskubuskusysturina í „Kolrössu krókríðandi” og stöllu hennar Signýju karlsdóttur, sem reddar prinsinum Hlina þegar allt er komið í óefni. Í báðum þessum sögum er sagt frá tröllum, tröllkörlum í þeirri fyrri en skessum í hinni. Ekki var síður skemmtilegt að hitta hina hugrökku Guðrúnu, fulltrúa allra þeirra vinnukvenna sem birtast, yfirleitt nafnlausar, í draugasögum og reynast hugrakkari en karlpeningurinn þegar kemur að því að díla við afturgöngur og djöfulsskap. Það er Guðrún sem sýnir svarta rassinn sinn og bjargar þannig órotnuðu beinagrindinni undan álögunum, alveg eins og unga konan í seiðkarlasögunni bjargar (lélega) galdrakærastanum sínum undan ásókn félaga hans sem höfðu flúið pláguna til Vestmannaeyja. Önnur Guðrún kemur svo við sögu í endursögn á „Djáknanum á Myrká” og er hennar hlutverk hér aukið mjög og styrkt.

Stíll Brynhildar er léttur og liðlegur og viðbæturnar allar smekklega gerðar og í anda sagnanna sjálfra. Hún lengir sögurnar nokkuð, sem eykur á gildi þeirra og leyfir þeim að breiða út vængina, en mikið óskaði ég þess oft á sínum tíma að ýmsar uppáhaldssögur væru lengri. Myndir Þóreyjar Mjallhvítar eiga svo sinn þátt í því hversu vel heppnað verkefnið er. Á titilsíðu situr krúttleg ljóshærð beinagrind og virðist ofurlítið utan við sig (órotnaða konan í titilsögunni) og á næstu síðu, gegnt efnisyfirlitinu er svo gamaldags kort af Íslandi og þar eru sögurnar staðsettar eftir landshlutum. Þetta gefur strax tóninn, beinagrindin varar við því að þetta geti orðið dálítið hættuleg ferð og landakortið gefur sögunum bæði landfræðilegt og sögulegt akkeri: þetta er Ísland eins og það var. Umgjörðin heldur svo áfram utan um sögurnar, allt frá þeirri grunnhönnun að láta hverja sögu hefjast á sviðsetningu sem er römmuð inn að hluta, og skapar tilfinningu þess að ganga inn í nýjan heim, til litanotkunarinnar sem er sérlega falleg. Bókin er því í alla staði eigulegur gripur, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.