Sjöundi sonurinn

Ár: 
2008
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Sjöundi sonurinn

Tíu ár eru nú liðin frá því að fyrsta skáldsaga Árna Þórarinssonar, Nóttin hefur þúsund augu, kom út. Á þessum tíma hefur hann sent frá sér átta bækur. Tvær eru skrifaðar í samvinnu við Pál Pálsson en hinar sex, sem Árni skrifar einn og óstuddur, eru í seríu þar sem Einar blaðamaður á Síðdegisblaðinu flækist í hin aðskiljanlegustu glæpamál og tekst að leysa þau á sinn hátt. Það er alltaf spurning hvernig til tekst með trúverðugleika þegar íslenskar glæpasögur eru annars vegar. Lesendur verða að geta trúað því að þeir atburðir sem bera uppi sögurnar geti í raun gerst í íslensku samfélagi. Árna hefur til þessa gengið bærilega að skrifa sögur sem reyna ekki á þolrif lesenda hvað þetta atriði varðar. Einhverjum kann þó að finnast eilítið undarlegt að einmitt þegar Einar er mættur á staðinn, í þetta sinn til Ísafjarðar, fari óhugnanleg atburðarás af stað. En um leið og maður er búinn að sætta sig við þá einkennilegu tilviljun og fyrirgefa höfundinum er sagan kominn á fulla ferð og óþarfi að velta meira vöngum yfir svona smáatriði sem flestallir glæpahöfundar verða reyndar að glíma við að einhverju leyti.

Hérna er það húsbruni sem verður kveikjan að ferð Einars vestur líkt og hjá söguhetju Jóns Halls Stefánssonar í Varginum en þar er það Seyðisfjörður sem er í brennidepli. Þeir sem komið hafa til Ísafjarðar (og vonandi allir sem þar búa) ættu að kannast vel við bæinn af lýsingu Árna og von bráðar er lesandinn farinn að taka þátt í mannlífinu þarna fyrir vestan og flettir spenntur blaðsíðum bókarinnar. Einar ferðast milli Ísafjarðar og Reykjavíkur við rannsókn málsins en gefur sér einnig tíma til að hugsa til Akureyrar og velta fyrir sér máli sem þar hefur komið upp.

Árni er með fingurna á þjóðarpúlsinum að hætti blaðamanna og í bókinni eru ágætis lýsingar á mörgu í samtímanum. Það er ró yfir stílnum, jafnvel æðruleysi, enda Einar hættur að drekka og verður stilltari með hverri bók. Frásögnin er án æsings, jafnvel þegar Einar verður sjálfur fyrir árás í stað þess að vera þessi tiltölulega hlutlausi áhorfandi eins og svo oft áður. Málfarið er gott þótt notað sé slangur þar sem það á við, textinn oft spaugsamur og hnittinn án þess að ofgert sé í því tilliti. Samtöl eru lifandi og eðlileg og mikið af þeim, en í raun byggist bókin meira en minna á samtölum. Þegar manni finnst Brandur Brandsson vera farinn að tala með rödd Þorsteins Ö. Stephensens er kominn ansi mikill leikritsbragur í söguna. Að það skuli vera Þorsteinn frekar en leikari sem enn er lífs segir manni ekki bara eitthvað óskemmtilegt um eigin aldur heldur líka hvers konar týpa Brandur er. Hann er gamaldags og sérvitur fugl sem flest hefur á hornum sér og nöldrar út í eitt. Ákkúrat þessi týpa sem maður reynir að forðast að líkjast of mikið en tekst ekki alltaf. Unga fólkið í sögunni er flest í bissness (auðvitað) og enn yngra fólkið í gothísku; miðaldra fólkið í stjórnmálum eða embættismenn...og auðvitað blaðamenn. Einnig koma heldur betur við sögu Odda Idol sem svo er nefnd vegna þátttöku sinnar í þeirri frægu keppni og Jónína nokkur, minnipokastúlka sem ætíð fylgir Oddu. – Árna tekst hér eins og svo oft áður prýðilega að búa til góða fléttu sem heldur athyglinni til enda. Þrjár síðustu bækurnar um Einar eru svipaðar gæðum og heilsteyptari en þrjár fyrstu.

Að vanda er titill bókarinnar einnig titill lags. Í þetta skiptið er það hið fræga blúslag Willie Dixons „Seventh Son“. Fyrir þá sem áhuga hafa má benda á flottar útfærslur á þessu lagi hjá Long John Baldry, Climax Blues Band, Georgie Fame og Sting ásamt hljómsveit Jools Holland, Mose Allison, sem er alveg sér á parti og ekki má gleyma sjálfum höfundi lagsins.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2008