Sjóveikur í München

Ár: 
2015
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Ungur ég var

Hallgrímur Helgason fylgir eftir velgengni síðustu skáldsögu sinnar Konan við 1000° með sjálfsævisögulega verkinu Sjóveikur í München. Það gæti virst langur vegur milli þessara verka, annars vegar breið skáldsaga með meira og minna alla 20. öldina undir og hins vegar þroskasaga sem lýsir einum örlagavetri í lífi ungs manns. Þó mætti draga fram ákveðnar tengingar; í báðum verkum veltir höfundur fyrir sér sambandi Íslands við Evrópu og þá má benda á að þegar sú fyrrnefnda kom út var höfundurinn skammaður fyrir að nýta sér sögur úr ævi annarra og ganga of nærri þeim og við útkomu þeirrar síðari er hann skammaður fyrir að nýta sér sögur úr eigin ævi og ganga of nærri sjálfum sér. Ekki laust við að það sé vandlifað í íslenskum bókmenntaheimi. Eða ættum við að segja að sjálfskoðunin í þeirri síðari sé einhvers konar bókmenntaleg yfirbót…

Bókin sver sig í ætt við sköpunarsögu skálda sem yfrið er til af, hér mætti segja að hann eigi sér fyrirrennara í eldri kynslóðum íslenskra skálda, Jóni Óskari, Hannesi Sigfússyni og fleirum og svo þeim skáldbræðrum Sigurði Pálssyni og Pétri Gunnarssyni sem báðir hafa gefið út slík verk á undanförnum árum. Þá hefur yngri kynslóð einnig látið til sín taka í þessu, Auður Jónsdóttir er á þessum slóðum í Ósjálfrátt og Oddný Eir Ævarsdóttir í ýmsum af sínum verkum, ekki síst í Jarðnæði. En auðvitað er þetta líka vel plægður akur í heimsbókmenntunum eins og höfundur er vel meðvitaður um enda vitnað til höfuðverks slíkra bókmennta eða A Portrait of an Artist as a Young Man eftir James Joyce strax á fyrstu síðu, en það nægir að nefna þann titil svo allir viti hvar maður er staddur innan bókmenntanna.

Hallgrímur fer þá leið að nota sem ramma veturinn 1981-1982, veturinn sem hann eyddi í myndlistarakademíunni í München fyrir hálfgerðan misskilning eða óheppni, svona eftir því hvernig á það er litið, og rifjar svo myndir úr æsku og unglingsárum inni á milli. Það er ekkert vísað fram í tímann (nema þá með ákveðinni táknmynd um sköpun höfundarins – lesendur vita hvað svo varð), heldur er öll áherslan á þennan nöturlega vetur. Eins og Alda Björk Valdimarsdóttir bendir á í bók sinni um Hallgrím (Höfundur Íslands), þá hefur höfundarímynd Hallgríms ávallt verið mjög mikilvæg í umræðu um verk hans, það á ekki síður við núna, en segja mætti að hér sé kominn nýr litur, tónn eða vídd í þá ímynd. Með ákveðinni einföldun mætti halda því fram að hér sé komin dökka hliðin á Þetta er allt að koma, sögunni af Ungu Konunni sem þráði það helst hér í heimi að meikaða. (Ekki má þó gleyma að sú saga er að ákveðnu leyti tragísk, þótt fyndin sé.)

Sagan er í þriðju persónu, sem er fremur sjaldgæft í sjálfsævisögulegum verkum en alls ekki óþekkt stílbragð. Aðalpersónan er Ungi Maðurinn – já, já, bæði orðin með hástaf og kannski veitir ekki af – og við fylgjum sjónarhorni hans á einhverjum skelfilegum tímamótum. Hér er ekki gleðin og kætin og frelsið sem útlönd færðu aðalpersónu minningabóka Sigurðar Pálssonar, hér er það bara klaufagangurinn og óheppilegur ungæðisháttur, sem þótt bráðfyndinn sé á stundum, hvílir meira myrkur yfir.  Ungi Maðurinn er haldinn einhvers konar tilvistarlegri ógleði svo minnir á magaverk Jóns Óskars í hans fyrstu langþráðu Parísarferð sem hann lýsir í minningabókum sínum og kannski ekki síður tilvistarlega ógleði Roquentins í La nausée Sartres. Ógleðin verður smám saman mikill örlagavaldur í söguþræðinum og í lokin táknmynd fæðingar skáldsins. Árið 1981 er nefnilega skelfilegt ár, Ungi Maðurinn er algjörlega á skjön við sinn samtíma, það er ákveðinn Holden Caulfield (Bjargvætturinn í grasinu eftir J. D. Salinger) í honum, samtími hans er einhvern veginn ekki neitt neitt. Hin óbærilega hippakynslóð var gjörsamlega búin að gína yfir öllu, var Kynslóðin með stórum staf og yngri kynslóðir ekkert annað en asnalegar eftirhreytur. Ísland var hallærislegt, sveitó, höfuðborgin bauð uppá þrjá veitingastaði, böll á Hótel Borg eða Hollywood og svo ekki meir. En München er heldur ekki lausnin, hún bjargar ekki okkar manni frá þessari hallærislegu sveitamennsku, hún er háborgaraleg vesturþýsk borg með nasíska fortíð.

Lýsingarnar á tímabilinu, á umhverfinu eru einstaklega sannfærandi og þá ekki síst á hinu skelfilega fyrirbæri (sem maður vonar að hafi nú skánað með tímanum) „Íslenskir námsmenn erlendis“. Bjórinn í Þýskalandi sem okkar maður hefur varla lyst á, enda kemur hann frá bjórlausu landi, og námsmennirnir keppast við að hella oní hann, verður einhvers konar prófsteinn á það hvort hann passi inní pleisið, aðgöngumiðinn, manndómsvígslan, en bjórglasið sem hann gengur með í innanávasanum fyllir hann smám saman af íslenskri ælu.

Hér má finna fjölmarga sígilda þræði þroskasögunnar: endalausa og ófullnægða skoðana- og hugmyndaleit unga mannsins, pælingar um listina – Duchamp er hans maður – og svo auðvitað fyrstu kynlífstilraunirnar. Þær eru hins vegar mjög langt frá því að vera rómantískar lýsingar á uppgötvunum á leyndardómum kynlífsins, þetta eru óljósar, misheppnaðar tilraunir, oft mjög svo spaugilegar en ná svo algjörum lágpunkti á ferðalagi hans um Ítalíu. Þar leggst allt á eitt: Það er jólanótt, hann er aleinn í Flórens, stúlkan sem átti að bjarga honum er flúin eftir að hafa orðið vitni að því þegar hann ælir yfir Dante, hostelið er búið að loka og honum birtist bjargvættur sem býður húsaskjól en nauðgar honum. Þetta atvik hefur svo orðið að fjölmiðlamat miklum, þar sem höfundurinn er ýmist sakaður um aulahátt eða hrósað fyrir hetjuskap, sem segir manni akkúrat ekkert um verkið, en allt um undirfurðulega umræðutísku árið 2015.

Eins og fyrr var nefnt er þetta ekki bjartsýnissaga, Ungi Maðurinn er ekki á fleygiferð í átt að lífsfyllingu og stórkostlegri listsköpun. Skelfingin við það að vera ungur og reyna að ‚verða að sjálfum sér‘ er í fyrirrúmi og frásagnaraðferðin sem hér er notuð að láta einn hálf ömurlegan vetur bera hitann og þungann í táknsögu um sköpun skáldsins þjónar vel tilgangi sínum. Táknsagan verður kannski örlítið klossuð undir lokin, en þar virðist vera komin lausnin, jafnvel endurlausnin sem Ungi Maðurinn beið eftir og lesandinn sér fyrir sér höfundarverkið sem á eftir kom.

Andrúmsloftið, stemmningin, tilfinningalífróður unga mannsins sem passar ekki við tímann er settur fram af miklum hallgrímskum krafti og eftir lesturinn er ekki laust við að maður voni að árið 1981 komi aldrei aftur.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2015