Skuggasaga – Arftakinn

Höfundur umfjöllunar: 

Af hetjum og furðuverum

Þjóðasagnaarfurinn hefur veitt mörgum barnabókahöfundum innblástur í gegnum tíðina. Sögur af samskiptum manna og álfa lifa enn góðu lífi í barna- og unglingabókum enda mikinn og áhugaverðan efnivið þar að finna. Skuggasaga - Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur hlaut barnabókaverðlaunin í ár en þar er hugmyndum úr þjóðsögum af íslenskum álfum og furðuverum fléttað saman við hefðir bæði úr norrænum sögum og úr fantasíum.

Skuggasaga - Arftakinn segir frá Sögu sem er 12 ára og býr ásamt föður sínum og bróður í Reykjavík. Saga er mjög ólík öðrum í fjölskyldu sinni og þó að ekki sé beint farið illa með hana er stundum eins og hún sé hreinlega ekki til, þeir feðgar muna varla eftir henni. Í kjölfar þess að húshjálp fjölskyldunnar til margra ára hverfur skyndilega og enginn nema Saga man eftir að hún hafi nokkurn tíma verið til fara undarlegir hlutir að gerast á heimilinu. Í stað húshjálparinnar er komið ristastórt, loðið kvikyndi með glóandi rauð augu sem telur sig eiga erindi við Sögu. Loðna kvikyndið er talandi skuggabaldur sem ber nafnið Baldur og segist vera fylgjan hennar sem eigi að fylgja henni heim í Álfheima. Saga er furðu lostin yfir þessu en þar sem hún hefur engu að tapa ákveður hún að láta til leiðast og sjá hvað gerist. Henni til mikillar undrunar kemst hún að því að Álfheimar eru raunverulegur staður og hún ferðast ásamt Baldri til borgarinnar Elfaborgar þar sem hún á að innrita sig í skóla og þjálfunarbúðir álfa. Álfaskólinn er stærðarinnar skóli og Saga kynnist öðrum nemendum sem hafa allir líkt og hún sjálf alist upp í mannheimum. Hún er þó sú eina sem hefur ekki haft hugmynd um álfa eða neitt þeim tengt, heimssýn hennar er algerlega snúið á hvolf og hún þarf að læra margt. Hún aðlagast þessu nýja lífi þó fljótt en smám saman kemst hún að því að þrátt fyrir að allt virðist slétt og fellt á yfirborðinu í Elfaborg kraumar ólga undir niðri og tekist er á um völdin. Koma Sögu til Álfheima virðist af einhverjum ástæðum ógna stjórnvöldum og hefur hrundið af stað hættulegri atburðarrás sem getur orðið henni að bana og gjörbreytt lífi allra í Álfheimum. Saga verður að gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að ill öfl nái völdum en hún hefur ekki hugmynd um það hverjum má treysta og hverjum ekki.

Álfheimar sögunnar eru ekki hulduheimur inni í fjöllunum eins og við eigum að venjast, þótt vissulega þurfi að fara í gegnum fjall til að komast þangað. Álfheimar eru stórt samfélag, heimur þar sem eru borgir, skógar, fljót og fjöll og þar sem átök hafa staðið yfir um völdin í mjög langan tíma. Heimurinn er vel undirbyggður í sögunni og ítarlegar og skýrar lýsingar á sögu, menningu og umhverfi gera hann heildstæðan og sannfærandi. Lýsingarnar verða sérstaklega lifandi með augum Sögu þar sem allt er henni framandi og hún notar reynslu sína úr mannheimum til að skilja það sem gerist, þótt það eigi ekki endilega alltaf við. Steinrisi sem teygir úr sér eins og karlarnir í Vesturbæjarlauginni verður einstaklega skýr í huga lesandans vegna samlíkingarinnar sem skýtur upp í kollinum á Sögu og þegar hvarflar að henni að álfar séu haldnir útskurðaráráttu miðað við skreytingar á öllum hlutum varpar það spaugilegu ljósi á dæmigerðar frásagnir af álfum. Aðlögun Sögu að nýjum menningarheimi er bæði áhugaverð og vel gerð og samanburður hennar á mannheimum og Álfheimum vekur athygli á hlutum sem flestir eru hættir að spá í fyrir löngu.

Sagan sækir innblástur ekki eingöngu í þjóðsögur af álfum og galdraverum heldur einnig í erlendar fantasíur. Kolbíturinn sem reynist vera einhver allt annar og mikilvægari en allir héldu er sígilt minni í bæði ævintýrum og fantasíum og það er algengt að upprennandi hetjur þurfi þjálfun í þar til gerðum þjálfunarbúðum eða skólum. Þegar Saga kemur til Álfheima má þannig draga hliðstæður með þekktum fantasíum og fantasíuhetjum og kemur þar sögubálkurinn af galdradrengnum Harry Potter og átökum hans við ill öfl í galdraheiminum fyrst upp í hugann. Harry Potter og Saga hafa til dæmis bæði í fyrstu verið algerlega ómeðvituð um bakgrunn sinn og eru bæði sótt af galdraverum til að hefja nýtt og betra líf. Þau fara bæði í heimavistarskóla þar sem þau ganga í gegnum flokkunarathöfn og fara svo að læra á þetta nýja samfélag með öldunga og galdraverur sér til halds og trausts. Áhrifanna frá öðrum fantasíum gætir mest í upphafi sögunnar, þegar verið er að setja sviðið og kynna umhverfi og persónur. Eftir því sem líður á söguna styrkist hún gagnvart þeim og hefðum fantasíunnar og kemst þá á almennilegt flug enda eru efniviðurinn og söguþráðurinn klárlega nógu spennandi til að standa á eigin fótum.

Skuggasaga – Arftakinn er bæði spennandi og grípandi saga fyrir stálpuð börn og unglinga. Sýnin á álfa og þjóðsögur er frumleg og áhugaverð og fer vel að nýta hefðir fantasíunnar og þjóðsagnaarfinn saman á þennan hátt. Hetjan Saga grípur lesandann og upplifun hennar á því hvernig það er að kynnast og laga sig að nýjum aðstæðum og nýrri heimsmynd er sérlega vel útfærð og er vel til þess fallin að lýsa leit hennar að uppruna sínum og sjálfri sér.

María Bjarkadóttir, nóvember 2015